Söngvarnir á Skjaldborg 2018

Skjaldborgarhátíðinni á Patreksfirði er lokið og eins og fyrri daginn var þetta fínasta skemmtun. Patreksfirðingar eiga þakkir skildar fyrir að gera þetta mögulegt tólfta árið í röð, svo ekki sé minnst á gestrisnina. Skjaldborgarteyminu skal líka klappað lóf í lofa. En hvernig voru myndirnar? Ásgrímur Sverrisson ræðir þær sem hann sá.

Heim í Valhöll

Heimamenn fjölmenntu á þessa enda viðfangsefnið stórgrosserinn Pjetur A. Ólafsson sem stóð fyrir mikilli uppbyggingu í bæjarfélaginu á öndverðri tuttugustu öld. Kvikmyndarstjórinn, Sara Haynes, mun vera barnabarnabarn Pjeturs. Hún bæði rekur sögu hans sem og tengir hana við eigið líf, ömmu sína og móður – en sjálf er hún að kynna sér langafa sinn hér í formi dokumentasjónar. Myndin er ágætlega skýr í uppbyggingu og greinargóð, saga Pjeturs áhugaverð. Gaman hefði þó verið að sjá ömmuna fara með kvikmyndarstjóranum vestur frekar en mömmuna, enda sterkari tengingar þar við sjálft viðfangsefnið.

Draumur á Fårö

Ari Allansson og Niko Björkman skreppa til Fårö, eyjunnar þar sem Ingmar Bergman bjó síðustu 40 ár ævinnar og gerði þar margar myndir. Myndin er því miður nokkur erindisleysa, mestanpart laustengd skot héðan og þaðan svo ekki varð vart við einhverskonar uppbyggingu, hvað þá framvindu. Tilraunir til andrúmsloftspælinga voru heldur ekki árangursríkar, í raun stendur helst eftir minningin um stöðug vindhljóð í mæk.

Innan seilingar

Ein áhugaverðasta mynd hátíðarinnar (af þeim sem ég sá, svo allra fyrirvara sé gætt). Þessi mynd þeirra Þorkels Harðarsonar og Arnar Marinós Arnarsonar, sem Guðbergur Davíðsson framleiðir, hefur verið lengi í vinnslu. Viðfang hennar er Guðmundur Felix Grétarsson sem árið 1998 missti báða handleggi við öxl í vinnuslysi. Eftir langt armæðu- og afneitunarferli kemur að því að hann eygir von um að hægt sé að græða á hann nýjar hendur. Fókus myndarinnar er að mestu á baráttuna við að koma aðgerðinni á koppinn. Franskir læknar telja sig þess umkomna að framkvæma verkið en mörg ljón eru í veginum, fjárhagsleg, tæknileg og siðferðisleg. Svona lagað hefur víst ekki verið reynt áður. Þetta er baráttusaga en biðin er löng og ströng, mörkuð vörðum við sjóndeildarhring sem síðan reynast tálsýnir trekk í trekk. Ótrúlegar aðstæður handaleysis verða smám saman hversdagslegar eins og sagan er sögð en mótorinn er vonin um hina flóknu og eiginlega ævintýralegu aðgerð sem svo lengi virðist skammt undan en er sífellt frestað. Þar liggur sársaukinn, dramað. Þetta er hrakingasaga að náttúru þó að sögusviðið sé að mestu hvunndagslífið. Fyrir þá sem eiga eftir að horfa skal þráðurinn ekki rakinn frekar – nema það að sagan er ekki öll enn.

Söngur Kanemu

Þessi dans- og söngvamynd í heimildamyndarbúning eftir Önnu Þóru Steinþórsdóttur er full af ómótstæðilegum sjarma og lífsgleði. Anna Þóra segir söguna af dóttur sinni, Ernu Kanemu, sem ásamt allri fjölskyldunni heldur til Sambíu, heimalands eiginmannsins, að vitja stórfjölskyldunnar til að tengja við hinn föðurlega uppruna. Erna Kanema, 19 ára, hefur stundað tónlistarnám heima á Íslandi og syngur eins og engill. Yngri systir hennar, Auður Makaya, er ekki síður söngelsk og báðar bræða hjörtu. Sama má segja um föðurfjölskylduna sem umvefur gestina ástríki og hlýju. Erna Kanema, sem hafði aðeins heimsótt landið sem lítil telpa áratug fyrr, kynnir sér tónlistarhefð föðurgarðsins en hún ásamt dansinum er þar samofin tilverunni. Þær systur bera jafnframt músikalskar kveðjur að heiman. Harðgert norrænt kyn í kuldabola vestur á fjörðum grét þegar það ekki hló. Svona myndir eru frekar fágætar, maður vill helst ekki að þær hætti. Bæði áhorfendur og dómnefnd lágu marflöt fyrir trakteringunum.

Bráðum verður bylting!

Skemmtileg og fróðleg lýsing á umrótstímanum kringum 1968 og árunum þar á eftir þar sem brennipunkturinn er taka 11 íslenskra stúdenta í Svíþjóð á sendiráði Íslands í Stokkhólmi vorið 1970. Þátttakendur í aðgerðum þessa tímabils stíga á stokk og lýsa stemmningunni, þar sem hugsjónir um aukinn jöfnuð og mannréttindi, andúð á stríðsbrölti og frat gagnvart niðurnjörvuðu samfélagi kveiktu glóð í ungum hjörtum. Kostulegar eru lýsingar á hverskyns róttækum klofningsgrúppum sem allar þóttust höndla hinn rétta boðskap en grunur leikur á að stór egó hafi stundum ráðið för. Annar höfundur myndarinnar, Hjálmtýr Heiðdal, var meðal ellefumenninganna sem tóku sendiráðið, en hinn, Sigurður Skúlason, lifði atburðina gegnum annan þátttakanda, Gústaf Adolf bróður sinn. Lýsingin á aðdraganda sendiráðstökunnar sem og sjálfri aðgerðinni er hin fínasta „heist-movie“, ljóst er að undirbúningurinn hefur verið ítarlegur. Bráðskondið var að heyra hátimbraða lýsingu Ríkisútvarpsins á kröfum námsmannanna sem vildu gerbreytt þjóðskipulag og engar refjar, en líka meiri pening frá LÍN! Rætt er við flesta af ellefumenningunum og í lokin kemur um helmingur þeirra saman og rifjar upp þessa atburði. Í flestum var blik í auga. Úr þessum efnivið má gera margt áhugavert og það er meðal annars gert hér.

Heimaey

Þetta er stemmningsmynd sem snýst ekki um hefðbundna frásögn heldur andrúmsloft, gestsaugað. Kvikmyndarstjórinn, Sonia Schiavone, er ítölsk en nemur um þessar mundir við Kvikmyndaskóla Íslands. Þetta er þó ekki byrjendaverk. Myndin er einföld í framsetningu en notar blæbrigðaríkt myndmál, andstæðuspil stórbrotins landslags og margræðs mannlífs; þarna er harmur í bland við hátíðahöld og siðvenjur, tíminn og minnið bergmála í Heimakletti og Herjólfsdal.

Valdi

Ágætis portrett af titilpersónunni sem rekur safnarabúð í miðbænum og sinnir fjölbreyttum kúnnahóp af kærleika og næmleik, hvort sem þarfirnar snúast um obskúra músik eða smá lán til að komast gegnum daginn. Áhugavert hefði verið að sjá sterkari tilfinningu fyrir því hvernig tíminn líður á svona stað til að ramma inn frásögnina. Myndin er gerð af Ágústi Stefánssyni sem nemur við Kvikmyndaskóla Íslands.

Litla Moskva

Þessi svipmikla heimildamynd Gríms Hákonarsonar rekur tímana tvenna í Neskaupstað, allt frá því sósíalistar tóku völdin í bæjarstjórninni í seinna stríði fram til sameiningar byggðarlagsins við nágrannabæina Eskifjörð og Reyðarfjörð þannig að úr varð Fjarðarbyggð. Rauði þráðurinn er afkoma og samheldni, Neskaupstaður var heimur útaf fyrir sig, einangraður að miklu leyti frá umheiminum. Lífið snerist lengst af um að komast af, tryggja bæjarbúum lífsviðurværi, vera hluti af samfélaginu. Skorinorðar yfirlýsingar valdamanna á staðnum frá fyrri tíð um réttlátt samfélag kveiktu sterk viðbrögð í brjóstum áhorfenda á Skjaldborg. Verkakona sem var virk í stéttabaráttunni en kallar sig engu að síður „íhaldskellingu“ vegna stuðnings við Sjálfstæðisflokkinn, á skemmtilega innkomu, ekki síst vegna þess að það er hún af öllum sem helst syrgir hina horfnu sósíalísku tíð og spyr áleitinna spurninga um vegferðina í samtímanum. Hún bendir meðal annars á að ný göng auðveldi ekki aðeins túristum að heimsækja bæinn, heldur sé nú leiðin greiðari en nokkru sinni áður fyrir heimamenn að koma sér burt. Praktískt þenkjandi pólitíkusar á borð við Smára Geirsson segja sameiningu sem og virkjun og álver á Reyðarfirði hafa verið lífsnauðsynlega aðgerð fyrir þetta samfélag á Austfjörðum – þannig er þráðurinn áfram afkoma byggðarinnar og fólksins – en gott hefði verið að sjá ítarlegar farið í aðdraganda þessarar breyttu stöðu. Tilfinningin sem eftir stendur er að þetta hafi verið einhverskonar Gaulverjabær úr Ástríksbókunum og þá bæjarútgerðin (Síldarvinnslan) töfradrykkurinn, límið í samfélaginu – en að lokum tókst Rómverjum að vinna vígið, ekki með hernaði heldur með því að planta því inní fólkið að án þeirra myndu himnarnir örugglega hrynja í hausinn á þeim. Og kannski er það rétt að þetta hafi verið eini leikurinn í stöðunni. Þetta er því ekki nostalgía sem hampar glæstri fortíð og harmar glataða tíma heldur yfirveguð skoðun á samfélagi sem eitt sinn stóð sér en er nú hluti af stærra mengi. Þeir komast af sem aðlaga sig breyttum tímum, eða hvað?

 

Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson er kvikmyndagerðarmaður og ritstjóri Klapptrés.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR