Benedikt Erlingssson ræðir um mynd sína Kona fer í stríð við Morgunblaðið og kemur víða við.
„Kona fer í stríð kom til mín í draumi. Í draumnum var ég staddur í sundinu milli Þjóðleikhússins og Þjóðmenningarhússins þegar kona kemur hlaupandi til mín í rigningu án þess að sjá mig. Þegar hún stoppar sé ég að baki henni hljómsveit sem er að spila fyrir hana, ekki fyrir mig. Ég hugsaði að svona langaði mig til að hafa í myndinni minni. Þarna fæddist neisti. En þetta tengist alfarið konsepti myndarinnar, um leið og þetta er aðferð til að sýna innri baráttu hetjunnar og gera það á sjónrænan og tónlistarlegan hátt,“ segir Benedikt sem tók á móti blaðamanni á heimili sínu í Mosfellsbæ örfáum dögum áður en leið hans lá til Frakklands fyrr í mánuðinum.
Eins og dómsdagsspámaður
Að sögn Benedikts kemur hugmyndin að Kona fer í stríð úr nokkrum áttum. „Okkar kynslóð stendur frammi fyrir risastóru verkefni sem snýr að umhverfis- og loftslagsmálum. Ég held að fáar ef nokkrar kynslóðir í mannkynssögunni hafi fengið stærra verkefni – og þá er ég að tala um ríka hluta mannskynsins, okkur sem fáum að ferðast í flugvélum,“ segir Benedikt og tekur fram að innan við hundrað ár séu þar til borgir á borð við London, Kaupmannahöfn og Amsterdam verði komnar undir vatn. „Og Höfðaborg er nú þegar orðin vatnslaus. Samt eru þetta bara smámunir samanborið við það sem bíður okkar ef hitastigið á jörðinni hækkar um fjórar gráður, eins og allt virðist stefna í, því þá losnar metangasið úr sífrerum sem þýðir að hitinn hækkar í 11 gráður sem þýðir útdauði lífsins á jörðinni.
Þegar maður talar um þetta líður manni eins og dómsdagsspámanni og það langar engan að vera í því hlutverki. Við erum samt komin á þann stað að við þurfum að láta hræða okkur,“ segir Benedikt og rifjar upp að fulltrúar World Bank hafi skorað á hann og fleiri leikstjóra að mennta sig í loftslagsmálum. „Það féll auðvitað ekki í góðan jarðveg hjá kollegum mínum að láta bankamenn segja okkur hvernig sögur við ættum að segja, en almættið talar í gegnum ólíklegustu farvegi. Þessi ógn er einn þráður myndarinnar. Næsta spurning var síðan hvernig sögu mig langaði að segja um þetta. Ég nenni ekki að segja sársaukasögur eins og oft vill brenna við í „art house“-myndum þar sem verið er að hrista helvítis áhorfandann til meðvitundar.
Eitt af því sem ég skoða í myndinni er hin djúpstæða þörf okkar fyrir að vera hetja – eða til að orða það fallegar – að verða að gagni með því að bæta heiminn, skilja eitthvað eftir sig og vinna fyrir aðra. Foreldrahlutverkið er hluti af þessu, því mikil sjálfsfórn felst í því. Þessi þörf, sem ég held að allir búi yfir, er líka afl sem getur flutt okkur yfir línuna og gert okkur að stríðsmönnum þar sem jafnvel tilgangurinn helgar meðalið. Þetta er líka aflið á bak við hryðjuverkamennina sem fórna sjálfum sér til að bjarga heiminum frá okkur heiðingjunum. Þannig að þetta er tvíeggjað sverð og ástríða sem allir tengja við. Hvernig segir maður ævintýri um þetta?“
Ævintýra- og hasarmynd
Sérðu myndina sem ævintýramynd?
„Ævintýri er lykilorð. Mér finnst við ekki segja nógu mikið af ævintýrum. Mér finnst kvikmyndir sem gerðar eru í Norður-Evrópu oft vera um sársauka og eymd. Mér finnst ekki nógu mikið gert af ævintýramyndum. Að sumu leyti er Kona fer í stríð mjög raunsæisleg og farið er mjög nákvæmlega gegnum skemmdarverkin. Þetta er eltingarleikur og þriller. Hún reynir að fylgja lögmálum hasarmyndarinnar. Mig langaði til að gera fyrstu íslensku hasarmyndina, af því að Íslendingasögur eru hasarmyndir þegar best tekst til. Það er svo gaman að segja sögur þar sem aðeins er lýst því sem gerist og sá sem hlustar, les eða horfir getur sjálfur ráðið í hvað er að gerast innan í manneskjunni. Svo langaði mig að gera litríka og hlýja mynd. Orðið skemmtilegt er kannski ekki sexí, en mig langaði að skemmta áhorfendum á sama tíma og ég segði þeim mjög alvarlega sögu. Ég er sú týpa af sögumanni sem leiðist dramatískar sögur sem leika bara á einn streng. Ég hef mikla þörf fyrir að hleypa öðru hvoru inn trúðunum, eins og Shakespeare myndi hafa sagt. Það er svo falleg skilgreining á kómedíu og harmleik að eini munurinn þar á sé endirinn þar sem efnistökin eru að öðru leyti alveg eins.“
Viðtalið sem er langt og ítarlegt má lesa í heild hér: Þurfum að láta hræða okkur