Fréttablaðið um „Adam“: Lítil, hugljúf og látlaus

Þórarinn Þórarinsson skrifar í Fréttablaðið um Adam eftir Maríu Sólrúnu Sigurðardóttur og segir hana litla, hugljúfa og látlausa mynd sem risti djúpt á mjúklegan og hlýjan  hátt.

Þórarinn segir meðal annars:

Myndin líður áfram í takti við þögnina sem ríkir í lífi Adams og lýsir ljúfsárum tilraunum hans til þess að tengja sig við umheiminn. Glímu við kerfið og skilningssljóan félagsráðgjafa og vendipunkturinn þegar lífsglöð og barnshafandi stúlkan kemur inn í líf hans. Og tekur honum eins og hann er.

Mest mæðir á Magnúsi í hlutverki Adams. Leikstjórinn og handritshöfundurinn, móðir hans, þekkir greinilega sinn dreng og hann stendur svo sannarlega fyrir sínu. Adam lifir í þögn og Magnús tjáir tilfinningar hans og innri baráttu með andlitinu, augunum og látbragði, fum- og tilgerðarlaust.

Það er ekki síst fyrir leik Magnúsar sem Adam nær fljótt tökum á áhorfandanum og hægt og bítandi læðist hann með fólkið í kringum sig að hjartarótum manns. Sorg og feigð svífa yfir sögu hans en vonin eflist með hverjum ramma.

Adam er í styttra lagi, 72 mínútur, og þótt framvindan sé hæg leiðist manni aldrei enda fljótt byrjaður að finna til og gleðjast með Adam. Galdurinn við þessa lúmsku mynd, sem ristir mun dýpra en maður áttar sig á, er síðan fólginn í því að það er ekki fyrr en á lokamínútunum sem eitthvað smellur saman og maður gerir sér grein fyrir að maður var að horfa á eitthvað undursamlegt.

Sjá nánar hér: Fréttablaðið – Adam er enn í Paradís

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR