Útvarpsstjórar norrænu almannaþjónustumiðlanna fimm kynntu á dögunum „Nordic 12“ sem er nýtt samstarf um framleiðslu og sýningu leikins efnis á almannastöðvum Norðurlandanna. Skarphéðinn Guðmundsson dagskrárstjóri RÚV segir í spjalli við Klapptré að þetta muni skjóta fleiri stoðum undir fjármögnun íslensks efnis sem og tryggja aðgengi þess á hinum Norðurlöndunum.
Skarphéðinn segir:
„Nordic 12 verkefnið er gagnkvæm skuldbinding allra norrænu stöðvanna um samframleiðslu á 12 þáttaröðum á ári, þ.m.t. einu íslensku verkefni. Í þeirri skuldbindingu felst ekki einvörðungu ríkari fjárhagsleg aðkoma allra stöðva að viðkomandi verkefnum heldur mun hún leiða til hreinnar aukningar á framboði á norrænu leiknu efni á viðkomandi stöðvum, bæði í hefðbundinni í dagskrá sem og með ólínulegri miðlun í spilurum. Sem aðili að Nordic 12 samkomulaginu mun RÚV leggja til eitt verkefni árlega sem hinar norrænu stöðvarnar munu þá sjálfkrafa gerast samframleiðendur að og sýna í miðlum sínum. Hér er um að ræða klára viðbót við það mikilvæga og farsæla norræna samstarf um samframleiðslu á leiknu efni sem starfrækt hefur verið á liðnum árum og tryggt ófáum íslenskum sjónvarpverkefnum mikilvægt fjármagn og dreifingu á Norðurlöndum. Það samstarf mun halda áfram og því er ljóst að með Nordic 12 eykst aðkoma norrænu almannaþjónustustöðvanna að gerð leikins íslensks efni, bæði með þátttöku í fleiri verkefnum og hærra framlagi til hvers verkefnis.“
RÚV hefur að undanförnu látið gera smærri sjónvarpsverkefni án aðkomu Kvikmyndasjóðs, auk þeirra sem RÚV kemur að og njóta stuðnings sjóðsins. Má þar nefna Loforð og Mannasiði – en sú síðarnefnda er einmitt hluti af þeim 12 seríum sem sýndar verða á öllum norðurlöndunum 2018/19. Aðspurður um hvort þetta nýja samstarf verði nýtt til að koma slíkum verkefnum á koppinn, segir Skarphéðinn:
„Það er í okkar plönum að reyna að stuðla að og koma að framleiðslu verkefna af öllum stærðum og gerðum, jafnt þeirra sem krefjast aðkomu KMÍ sem og smærri verkefna sem mögulega er hægt að framleiða án aðkomu KMÍ eins og tókst í tilvikum Mannasiða og Loforðs. En það er ekki markmiðið að nýta Nordic 12 eitthvað sérstaklega fyrir þannig verkefni heldur munu öll verkefni sem við komum að sem meðframleiðandi koma til greina. Verkefnaval í Nordic 12 mun einkum velta á gæðum og eðli verkefna, tímasetningu (sem réði mestu nú í tilviki Mannasiða) og samkomulags við framleiðendur hverju sinni.“
Norrænir áhorfendur munu geta séð tólf nýjar leiknar þáttaraðir árlega
Í fréttatilkynningu frá RÚV kemur fram að í fyrstu bylgju Nordic 12 samstarfsins eru tólf leiknar þáttaraðir, þær eru framleiddar hjá DR, YLE, SVT, NRK eða RÚV en með þessu nýja samstarfi geta ríkisfjölmiðlar í almannaþjónustu notað efni hvers annars í lengri tíma en áður. þar segir ennfremur:
Þegar þáttaraðirnar verða tilbúnar munu þær á næsta ári standa til boða gegnum streymiþjónustu ríkisfjölmiðlanna, margar þeirra verða einnig sendar út í gegnum hefðbundið línulegt sjónvarp. Fyrir íslenska áhorfendur þýðir þetta í raun að á komandi ári geta þeir nálgast tólf nýjar leiknar þáttaraðir frá norrænum fjölmiðlum í almannaþjónustu hjá RÚV, en þar mun hver þáttaröð vera aðgengileg í allt að 12 mánuði.
Auk bætts aðgengis að norrænu leiknu efni mun samstarfið einnig þýða fjölgun norrænna samstarfsverkefna, sameiginlega sýn varðandi umfjöllunarefni leikins efnis og samstarf sem gegnir samræmandi hlutverki, sem auðveldar fljótar ákvarðanir um ný verkefni sem fela í sér tækifæri til samstarfs.
Fjárfesting í skapandi hæfileikafólki; handritshöfundum, leikstjórum og leikurum hefur löngum verið þáttur í framleiðslu leikins efnis á Norðurlöndum. Nordic 12 á einnig að efla hlutverk norrænu ríkisfjölmiðlanna sem starfa í almannaþjónustu sem aflvaka fyrir þróun hæfileika á Norðurlöndum með því að leggja áfram áherslu á hæfileika og nýsköpun.
Meðal norrænna þáttaraða sem RÚV hefur verið meðframleiðandi að í gegnum Nordvision og sýnt við góðar viðtökur eru Vegir drottins eða Herrens veje frá DR, Gullkálfar eða Mammon frá NRK og Lövander-fjölskyldan frá SVT. Meðal nýrra þáttaraða sem væntanlegar eru til sýninga á RÚV og spilara RÚV í gegnum Nordic 12 samstarfið eru m.a. Liberty frá DR, Hjemmebanen frá NRK, Bind Donna frá YLE og De dagar som blommorna blommar frá SVT.
Sjónvarpsmyndin Mannasiðir, sem frumsýnd var á RÚV um páskana og fékk afbragðsáhorf, vakti mikla athygli og umtal, er framlag RÚV til Nordic 12 samstarfsins tímabilið 2018/2019.
Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri:
”Á tímum þar sem ofgnótt er af erlendu afþreyingarefni í gegnum erlendar efnisveitur er nauðsynlegra en nokkru sinni að almannaþjónusturnar tryggi aðgengi að sögum úr okkar nærumhverfi. Verkefni sem segja okkar sögur á okkar tungumálum. Sögur sem við getum speglað okkur í. Til að mæta þessu höfum við hjá RÚV verið að auka framleiðslu á íslensku leiknu efni eins og vinir okkar hjá hinum stöðvunum hafa verið að gera á sínum heimamörkuðum. Að undanförnu höfum við einnig aukið framboð á norrænu gæðaefni en dregið mjög úr framboði af erlendri afþreyingarefni. Við teljum að norrænt efni sé einfaldlega besta sjónvarsefni sem í boði er fyrir okkar áhorfendur og finnum fyrir áhuga og vilja almennings til að sjá enn meira af því. Með þessu samstarfi erum við að þétta raðirnar enn frekar. Við viljum tryggja að okkar áhorfendur hafi áfram og í auknu mæli aðgang að gæðaefni frá Norðurlöndum – og það gerum við með að bindast böndum um að framleiða meira og í meira samstarfi en áður.”