Sagafilm Nordic, sem staðsett er í Stokkhólmi og stýrt af Kjartani Þór Þórðarsyni, tekur þátt í fjármögnun tveggja norrænna þáttaraða sem nú er í undirbúningi. Þetta eru annarsvegar Cold Courage sem kynnt var á nýlokinni MIPTV messunni og norræna streymisveitan Viaplay mun sýna – og hinsvegar finnska serían Layla sem kynnt verður á Series Mania fjármögnunarmessunni í Lille í Frakklandi í byrjun maí.
Aðspurður um þessar áherslur segir Kjartan Þór í stuttu spjalli við Klapptré að stefna Sagafilm Nordic sé að framleiða hágæða sjónvarpsþáttaraðir fyrir kaupendur að norrænu efni í Skandinavíu og um allan heim. „Við lítum á norræna kaupendur sem okkar heimamarkað – Ísland, Noreg, Svíþjóð, Danmörk og Finland. Næsta skref er að víkka það út til Evrópu en Norðurlöndin eru rótin. Cold Courage er fyrsta enskumælandi serían sem við tökum þátt í, en það má búast við fleiri slíkum í framtíðinni,“ segir Kjartan ennfremur og bætir því við að hlutverk Sagafilm Nordic í verkefninu hafi fyrst og fremst snúist um fjármögnun og að tengja saman mismunandi kaupendur, aðallega á Norðurlöndum.
Cold Courage
Could Courage þáttaröðin verður átta þættir, en norræni fjölmiðlarisinn Modern Times Group (MTG) hefur pantað hana fyrir Viaplay streymisveitu sína og verður hún sýnd á næsta ári. Fagmiðillinn C21Media fjallaði um þættina á dögunum. Þeir eru byggðir á metsölubókum Pekka Hiltunen sem ganga undir samheitinu The Studio og fjalla um tvær finnskar konur í London sem ásamt hópi annarra mynda leynilegt bandalag sem hyggst þeim veita makleg málagjöld sem laganna armur nær ekki til. Þáttaröðin er framleidd af Markku Flink hjá Luminoir í Finnlandi. A Private View í Belgíu og Vico Films á Írlandi eru meðframleiðendur auk Sagafilm Nordic.
Layla
Sagafilm Nordic tekur einnig þátt í framleiðslu finnsku þáttaraðarinnar Layla, en aðalframleiðandi er Vertigo Films í Finnlandi. Verkefnið verður kynnt á Series Mania í Lille í maíbyrjun. Aðalpersónan, Layla, er ung kúrdísk stúlka sem ákveður að flýja frekar en að sæta því illa hlutskipti sem mennirnir í fjölskyldu hennar í Tyrklandi ætla henni, en endar í Finnlandi sem vændiskona.
Variety fjallar um verkefnin sem kynnt verða á Series Mania en þau eru alls 16 talsins (valin úr 370 umsóknum). Þar á meðal má finna Vesturportsverkefnið Verbúð (Black Port). Variety segir valið sýna glögglega hversu norrænar þáttaraðir skeri sig úr á sviði alþjóðlegrar sjónvarpsframleiðslu en tæpur þriðjungur kemur þaðan. Einnig nefnir miðillinn að flest verkefnanna megi ekki flokka sem Nordic Noir.