Ragnheiður Birgisdóttir skrifar á Starafugl um Mannasiði, sjónvarpsmynd Maríu Reyndal. „Mannasiðir er saga um venjulegt fólk í íslenskum samtíma og því dregur myndin fólk að skjánum. Sú aðferð að sýna frá reynslu og tilfinningum bæði þolenda og gerenda er áhrifarík leið til að ná til áhorfenda,“ segir Ragnheiður meðal annars.
Úr umsögninni:
Myndin í heild er sannfærandi. Umhverfið er klippt út úr reykvískum samtíma. Heillandi heimili fjölskyldunnar og þekktar byggingar (t.d. Menntaskólinn við Hamrahlíð og höfuðstöðvar ríkisútvarpsins) mynda kunnuglegan heim sem gerir myndina raunverulega. Unglingatíska og unglingamenning fær að skína. Úlfur Eldjárn sá um tónlistina og var nýrri íslenskri tónlist er gert hátt undir höfði. Lög Loga Pedro voru mjög áberandi og átti tónlist hans vel við þessa umfjöllun um heim unga fólksins.
Ungir leikarar eru í burðarhlutverkum myndarinnar. Eysteinn Sigurðsson fer með hlutverk menntaskólanemans Einars, meints geranda, og Ebba Katrín Finnsdóttir fer með hlutverk skólasysturinnar Elínar, þolandans. Tinnu, systur Einars, leikur Álfrún Laufeyjardóttir. Þau eiga öll hrós skilið fyrir áhrifaríka frammistöðu. Sveinn Ólafur Gunnarsson og Sólveig Guðmundsdóttir, sem fara með hlutverk foreldranna í verkinu, voru einnig mjög sannfærandi og saga þeirra ekki síður grípandi en saga yngri kynslóðarinnar. Vandað er til verka á öllum sviðum myndarinnar. Með henni sýnir íslenskt kvikmyndgerðarfólk hvað í því býr og hvaða möguleika íslenskt sjónvarp hefur upp á að bjóða.
Í Mannasiðum er áhersla lögð á það hversu erfið nauðgunarmál eru fyrir alla sem koma að þeim. Tvær sögur stangast á og afar erfitt reynist að sanna glæpinn. Sýnt er frá ferlinu sem Elín gengur í gegnum og þannig fjallað um sönnunarbyrðina sem liggur alfarið hjá þolendum kynferðisofbeldis. Bæði Elín og Einar fá tækifæri til að segja frá atburðum þessa örlagaríka kvölds. Þá koma ólík sjónarhorn fram. Það kemur ekki fram hvað gerist bak við luktar dyr og áhorfandinn fær tækifæri til að álykta sjálfur hvað hefur raunverulega gerst.
Og ennfremur:
Mannasiðir er saga um venjulegt fólk í íslenskum samtíma og því dregur myndin fólk að skjánum. Sú aðferð að sýna frá reynslu og tilfinningum bæði þolenda og gerenda er áhrifarík leið til að ná til áhorfenda. Myndin fær vonandi einhverja, sem eru ekki meðvitaðir um ábyrgð samfélagsins á nauðgunarmenningu, til þess að leggja við hlustir. Mannasiðir er afar vandað sjónvarpsefni sem er íslensku kvikmyndagerðarfólki til sóma. Verkið er áminning til samfélagsins um að vanda til verka í mannlegum samskiptum, við úrvinnslu erfiðra mála og ekki síst við forvarnir gegn þeim. Myndin er mikilvægur þáttur í langri keðju þarfrar vitundarvakningar sem bindur vonandi enda á nauðgunarmenningu með tíð og tíma.
Sjá nánar hér: Að vanda til verka