Greg Dyke ráðinn stjórnarformaður London Film School

Greg Dyke og Gísli Snær Erlingsson.

London Film School (LFS), sem stýrt er af Gísla Snæ Erlingssyni, greinir frá því að Greg Dyke, fyrrum útvarpsstjóri BBC og fyrrum stjórnarformaður Bresku kvikmyndastofnunarinnar (BFI), hafi verið ráðinn stjórnarformaður skólans. Hann tekur við í apríl af leikstjóranum Mike Leigh. Dyke er einn áhrifamesti maður í breskum myndmiðlaiðnaði um áratugaskeið.

Dyke hóf störf hjá London Weekend Television (LWT), einni helstu stöð ITV samsteypunnar, á áttunda áratugnum og var stjórnandi stöðvarinnar á þeim tíunda. Hann kom einnig að stofnun Channel 5 á tíunda áratugnum og var síðan ráðinn útvarpsstjóri (Director General) BBC árið 2000. Því lykilstarfi gegndi hann í fjögur ár. Frá 2008 til 2016 var hann stjórnarformaður British Film Institute (BFI), sem auk þess að reka kvikmyndasafn Breta og kvikmyndahús við bakka Thames-ár (BFI Southbank), gefa út tímaritið Sight and Sound um áratugaskeið og standa fyrir umfangsmiklu starfi á sviði kvikmyndamenntunar um allt Bretland, fer með opinberan stuðning við kvikmyndaframleiðslu í landinu. Hann er nú einn af þremur varaforsetum BAFTA, Bresku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar.

Gísli Snær Erlingsson, settur skólastjóri LFS, segist vera himinlifandi með aðkomu Dyke: „Hann hefur einstök og afar víðtæk tengsl og áhrif í bresku samfélagi, sér í lagi á sviði menningar, menntunar og stjórnmála. Það er auðvitað ómetanlegt fyrir LFS að fá hann sem stjórnarformann á þeim miklu breytingatímum sem myndmiðlaiðnaðurinn gengur nú í gegnum og við ætlum okkur svo sannarlega að vera leiðandi aðili í.“

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR