BÍL: Nauðsynlegt að gera nýja áætlun um eflingu Kvikmyndasjóðs

Kolbrún Halldórsdóttir forseti BÍL (Mynd: Wikipedia-vg.is)

Bandalag íslenskra listamanna (BÍL) hefur lagt fram umsögn sína um fjárlagafrumvarpið 2018. Meðal þess sem BÍL leggur til er að framlag til Kvikmyndasjóðs verði nær tvöfaldað og nái 2 milljörðum króna 2020 og að RÚV fái bætta þá skerðingu sem félagið hefur sætt á undanförnum árum.

Í umsögn BÍL segir meðal annars um Kvikmyndasjóð:

Framlag til Kvikmyndasjóðs er bundið í samningi, sem gerður var 26. október 2016. Skv. honum ætti framlagið í sjóðinn 2018 að vera kr. 994,7 milljónir auk 125 milljóna króna viðbótarframlagi, sem hvergi sér stað í fyrirliggjandi frumvarpi. Það er mat BÍL að nauðsynlegt sé að gera nýja áætlun um eflingu Kvikmyndasjóðs þannig að framlagið til hans nái 2 milljörðum króna 2020.

Um Kvikmyndamiðstöð Íslands segir BÍL:

Kvikmyndamiðstöð Íslands hefur sérstöðu samanborið við aðrar miðstöðvar listgreina og hönnunar því um hana gilda lög nr. 137/2001 og hefur hún því stöðu ríkisstofnunar. Verksvið miðstöðvarinnar hefur aukist gríðarlega á undanförnum árum og hafa framlög til hennar ekki fylgt auknu álagi sem hlýst af þeirri athygli sem íslenskar myndir, ekki síst sjónvarpsefni, hafa notið að undanförnu samhliða niðurskurði í rekstri í kjölfar hrunsins.

Verksvið KMÍ er víðtækt svo sem sjá má í 1. gr. laganna, auk þess að vera umsýslustofnun Kvikmyndasjóðs, sem er þungamiðja starfseminnar, þá gegnir hún lykilhlutverki við að koma kvikmyndum íslenskra höfunda á framfæri á erlendum hátíðum og mörkuðum. Hún sinnir skráningarhlutverki varðandi innlendar kvikmyndir, hönnun kynningarefnis og heldur úti öflugri heimasíðu um íslenskar myndir (þó hún sé úr sér gengin tæknilega). Þá veitir hún ráðgjöf á vettvangi kvikmynda, bæði til innlendra kvikmyndagerðarmanna og erlendra dreifingaraðila íslenskra mynda. Loks annast KMÍ umsýslu umsókna um endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar samkv. samningi við atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið.

Hjá KMÍ starfa 5 starfsmenn í u.þ.b. 4,5 stöðugildum og hefur það umfang verið óbreytt frá 2003 (kvikmyndaráðgjafar eru verktakar í hlutastörfum sem leggja listrænt mat á styrkumsóknir, sbr. reglugerð og ekki taldir með hér). Á síðasta ári fjallaði KMÍ um rúmlega 200 umsóknir um styrki úr Kvikmyndasjóði. Umsóknirnar eru viðamiklar, oft um og yfir 200 bls. hver og í samræmi við 11. gr. reglugerðar um Kvikmyndasjóð þarf að leggja nákvæmt mat á um 25 efnisþætti í hverri umsókn.

Á síðasta ári voru íslenskar myndir sendar á 425 hátíðir auk þess sem íslenskar myndir voru í sérstökum brennidepli á átta hátíðum. Til marks um álagið á starfsmenn KMÍ má geta þess að í sambærilegum stofnunum í Eistlandi og Lettlandi eru 11 starfsmenn og 15 í Litháen, þó eru umsvif þessara miðstöðva ekki eins mikil og hjá KMÍ sem skýrist aðallega af minni velgengni, enn sem komið er. Norðurlöndin standa svo enn betur að vígi og óraunhæft að nota þau til samanburðar, enda hver stofnun þar með um og yfir 150 starfsmenn sem sinna mun burðugra styrkjakerfi en okkar. Finnar eru þó nálægt okkur hvað uppbyggingu varðar en þar eru 26 starfsmenn sem sjá um styrkveitingar og kynningar.

Málefni KMÍ þarfnast sérstakrar skoðunar af hálfu stjórnvalda og nægir viðleitni fjárlagafrumvarpsins 2018 engan veginn í því efni.

Þá ræðir BÍL einnig stöðu RÚV í umsögn sinni og segir:

BÍL hefur ævinlega litið svo á að Ríkisútvarpið sé ein af mikilvægustu menningarstofnunum þjóðarinnar. Það er þjóðareign, órjúfanlegur hluti íslenskrar menningar og á því hvíla skyldur umfram aðra fjölmiðla. Því er ætlað með lögum að halda utan um menningararfinn, tunguna, söguna, listina og lífið í landinu. Samkvæmt þeim lögum eru stjórnvöld skuldbundin til gera stofnuninni kleift að sinna hlutverki sínu af metnaði. Á undanförnum árum hefur útvarpsgjald ítrekað verið skorið niður og nú er svo komið að framlag til dagskrárgerðar hefur verið skert svo rækilega að dagskráin ber þess merki. Forsvarsmenn RÚV hafa eftir getu forgangsraðað í þágu innlendrar dagskrár, menningarefnis, dagskrárgerðar fyrir börn og vinna nú að því að stórauka þátttöku í íslenskri kvikmyndagerð. Ljóst er að öflugri þátttaka RÚV í kvikmyndagerð getur haft margþætt margfeldisáhrif. Til að áform RÚV nái fram að ganga telur BÍL nauðsynlegt að útvarpsgjaldið verði hækkað þannig að það verði samanburðarhæft við það sem gengur og gerist hjá frændþjóðum okkar, Norðurlöndunum og Bretlandi. Einnig telur BÍL tímabært að skoðað verði hvort létta mætti af stofnuninni lífeyrisskuldbindingum, sem ólíklegt er að hún muni nokkurn tíma geta staðið undir. Í samræmi við það sem að framan greinir leggur BÍL til að fjárlaganefnd leiti leiða til að hluti þeirrar skerðingar sem RÚV hefur þurft að sæta á undanförnum árum gangi til baka í fjárlagafrumvarpi ársins 2017 og fjárveiting til RÚV verði hækkuð um 250 millj. króna.

Umsögn BÍL má lesa í heild hér.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR