„Munda“ verðlaunuð á Northern Wave hátíðinni

Guðrún Gísladóttir sem Munda.

Stuttmyndin Munda eftir Tinnu Hrafnsdóttur, var um helgina valin besta íslenska stuttmyndin á  alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni Northern Wave sem fór fram í 10. skipti dagana 27.-29. október.

Northern Wave Film Festival er árleg alþjóðleg stuttmyndahátíð sem fer fram á Grundarfirði og hóf göngu sína árið 2008. Hátíðin sýnir öll form stuttmynda, vidjólist og tónlistarmyndbönd. Á hátíðinni í ár voru sýndar 32 alþjóðlegar stuttmyndir, 20 íslenskar stuttmyndir, 14 íslensk tónlistarmyndbönd auk 10 myndbandsverka.

Munda segir frá ómannblendnum presti á sjötugsaldri. Í hartnær fjörtíu ár hefur líf hennar markast af þráhyggju en einn daginn, þegar Mundu er skyndilega gert að hætta störfum og tilvera hennar fer á hliðina, öðlast hún óvænt kjark til að horfast í augu við sjálfa sig og sleppa tökunum.

Tinna Hrafnsdóttir sigraði hugmyndasamkeppni á vegum Shorts TV á kvikmyndahátíðinni í Cannes fyrir hugmyndina að Mundu á síðasta ári ásamt því að myndin hlaut sérstaka viðurkenningu í flokki íslenskra stuttmynda á RIFF.
Framleiðandi er Freyja Filmwork.

Auk verðlauna fyrir bestu íslensku stuttmyndina voru veitt verðlaun fyrir bestu erlendu stuttmyndina, besta tónlistarmyndbandið og besta fiskréttinn. Nánari upplýsingar um aðra hátíðina og aðra verðlaunahafa má finna hér.

Sjá nánar hér: Munda verðlaunuð á Northern Wave Film festival

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR