spot_img

RIFF 2017: „Kúrekinn“ („The Rider“) hlýtur Gullna lundann

Chloé Zhao.

Verðlaun í fimm keppnisflokkum RIFF voru veitt fyrr í kvöld.  Kúrekinn / The Rider (USA) í leikstjórn Chloé Zhao hreppti aðalverðlaun hátíðarinnar, Gullna lundann. Atelier eftir Elsu Maríu Jakobsdóttur var valin besta íslenska stuttmyndin.

Í umsögn dómnefndar um The Rider segir:

Fyrir óvenjulega næmni, framúrskarandi kvikmyndatöku, átakanlega frammistöðu þeirra sem ekki leika og eftirtektarverða hæfileika til að endurmeta hugmyndir okkar um ameríska karlmennsku, veitir dómnefndin Gullna lundann til Chloé Zhao fyrir The Rider.

Í dómnefnd sátu Auður Ava Ólafsdóttir, Mark Rabinowitz og Sol Bondy.

Eftir að hafa séð verðlaunamynd ársins hafði Werner Herzog, heiðursgestur RIFF, þetta að segja:

„Einmitt þegar maður fer að halda að kvikmyndagerð sé að staðna kemur mynd á borð við þessa eins og þruma úr heiðskýru lofti. Það er mjög hvetjandi.“

The Rider verður sýnd sunnudaginn 8. október í Háskólabíó sal 1 klukkan 20.15.

Hrifsið og flýið / Grab and Run (Kyrgyzstan/Spánn) eftir Roser Corella var sigurmynd flokksins Önnur framtíð. Í umsögn dómnefndar segir:

Margbrotin og göfug mynd um menningarvenjur sem helst eiga heima í martröðum. Myndin fer fram úr öllum fyrirfram mótuðum hugmyndum og kafar djúpt ofan í atriði er varða stjórnmál, siðferði og venjur samfélagsins með því að gefa þeim sem fyrir mestum áhrifum verða af venjunni tækifæri á að tjá sig. Myndin þvingar áhorfendur til að viðurkenna að einfaldar lausnir eru ekki til þegar svo margar og ólíkar grundvallarhugmyndir um samfélagið mætast.

Mynd Timothy George Kelly Brexitannia (Bretland) hlaut sérstaka viðurkenningu dómnefndar. Í umsögn segir:

Fyrir fjölhliða sýn á mikilvægan atburð í evrópskum stjórnmálum, þar sem raddir kjósenda fá að heyrast. Sögur sem eru á sama tíma óþægilegar og skemmtilega lausar við það sem alla jafnar einkennir stjórnmálaumræðuna.

Sealers: One Last Hunt / Síðasta selveiðiferðin (Noregur) fékk einnig sérstaka viðurkenningu en hún er í leikstjórn Trude Berge Ottersen og Gry Elisabeth Mortensen. Dómnefnd segir:

Fyrir stórkostlega, fallega og blóðuga mynd af iðju sem sumir líta á sem verðmæta hefð en aðrir fordæma. Þessi margslungna saga fangar viðfangsefni sín á óttalausan hátt en tilfinningar og samkennd áhorfandans sveiflast eins og bárurnar sem slást í skipið, sögusvið myndarinnar.

Í dómnefnd sátu Jason Gorber, Ragnheiður Skúladóttir og Herbert Sveinbjörnsson.

Atelier (Ísland) í leikstjórn Elsu Maríu Jakobsdóttur hlaut verðlaun sem besta íslenska stuttmyndin. Dómnefnd hafði þetta að segja:

Keppnin var mjög hörð í flokki íslenskra stuttmynda og mikið af sterkum myndum og ljóst að íslensk stuttmyndagerð er á uppleið. Myndin hefur sterk höfundareinkenni og fangar áhorfendur inn í sinn heim.

Mynd Tinnu Hrafnsdóttur, Munda, hlýtur sérstaka tilnefningu dómnefndar, sem segir:

Sterk og mannleg mynd sem sýnir að leikstjórinn hefur gott vald á miðlinum.

Sérstök verðlaun hlaut einnig Nightlight / Næturbirta í leikstjórn Marc-André Morissette.

Íslenski stuttmyndaflokkurinn er styrktur af RÚV og munu þeir taka verðlaunamyndina til sýningar fyrir almenning.

Í flokki erlendra stuttmynda hlaut Copa Loca (Grikkland) í leikstjórn Christos Massalas verðlaunin. Í umsögn dómnefndar segir:

Myndin er fersk og hægt að skilja á marga vegu ásamt því að vera með sérstakan stíl.

Sérstaka tilnefningu hlaut The Jungle Knows You Better Than You Do (Kolombía) eftir Juanita Onzaga, fyrir áhrifamikla og sérstaka sýn á viðfangsefnið.

Í dómnefnd stuttmyndaflokksins sátu Fahad Falur Jabali, Ásdis Sif Gunnarsdóttir og Ari Allansson.

Gullna eggið kemur í hlut bestu myndarinnar á Reykjavík Talent Lab og í ár er það mynd Charlotte Scott-Wilson Hold on.

Dómnefnd segir:

Fyrir að segja einfalda en áhrifamikla sögu af ungum sellóleikara sem þarf að takast á við eigin ótta til að halda stöðu sinni í hljómsveit, notkun á afgerandi sjónrænu máli og hrífandi hljóðhönnun. Við erum sannfærð frá upphafi og stöndum 100% með aðal sögupersónuninni á á sálfræðilegu ferðalagi sínu um kappsfullan og stundum fjandsamlegan heim hljómsveitarinnar.

Í dómnefnd sátu Grímur Hákonarson, Janus Bragi Jakobsson og Helga Rakel Rafnsdóttir.

 

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR