Svanurinn, fyrsta bíómynd Ásu Helgu Hjörleifsdóttur, verður opnunarmynd Discovery hluta Toronto hátíðarinnar. Vetrarbræður, bíómyndarfrumraun Hlyns Pálmasonar, mun sömuleiðis taka þátt í Discovery hluta hátíðarinnar.
Svanurinn segir frá afvegaleiddri níu ára stúlku sem er send í sveit um sumar til að vinna og þroskast, en verður í staðinn lykilþátttakandi í atburðarás sem hún skilur varla sjálf.
Ása Helga Hjörleifsdóttir leikstýrir og skrifar handritið að Svaninum, sem er byggð á samnefndri skáldsögu Guðbergs Bergssonar. Myndin er framleidd af Birgittu Björnsdóttur og Hlín Jóhannesdóttur fyrir Vintage Pictures á Íslandi og erlendir meðframleiðendur koma frá Þýskalandi og Eistlandi.
Vetrarbræður gerist í einangraðri verkamannabyggð á köldum vetri. Myndin segir frá bræðrunum Emil og Johan og hvernig þeirra daglega rútína er dag einn brotin upp með ofbeldisfullum deilum milli þeirra og annarrar fjölskyldu á vinnustaðnum. Sagan er um skort af ást með áherslu á yngri bróðurinn, Emil, og þörf hans fyrir að vera elskaður og þráður.
Hlynur Pálmason leikstýrir og skrifar handritið að Vetrarbræðrum. Myndin er framleidd af danska framleiðslufyrirtækinu Masterplan Pictures og er Anton Máni Svansson meðframleiðandi fyrir hönd Join Motion Pictures.
Áður hefur komið fram að Undir trénu Hafsteins Gunnars Sigurðssonar, verður einnig á Toronto hátíðinni en hún verður áður frumsýnd í Feneyjum.