True North kynnir næstu verkefni á yfirstandandi Berlínarhátíð. Þeirra á meðal eru bíómynd eftir skáldsögu Ólafs Jóhanns Sigurðssonar, Slóð fiðrildanna, sakamálasería byggð á bókum Stefáns Mána og þáttaröð um raðmorðingja í Reykjavík. ScreenDaily skýrir frá.
Slóð fiðrildanna
Í frétt Screen kemur fram að Slóð fiðrildanna (The Journey Home) verði á ensku og að leikkonan Katheryn Winnick (Vikings) muni fara með aðalhlutverkið en handrit og leikstjórn verði í hönum Lisa Forrell.
Sagan gerist á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar og segir frá íslenskri konu sem búsett er í Englandi en fer aftur heim til Íslands eftir margra ára fjarveru. Áhorfendur fá svo smám saman að komast að því hvers vegna konan fer aftur upp á Íslands strendur og hvers vegna hún fluttist þaðan upphaflega.
Myndin verður tekin upp á Íslandi og í Bretlandi. Ásamt True North munu Bretarnir Alex Boden (Sense8) og Tracey Seaward (Philomena) framleiða.
Lengi hefur staðið til að kvikmynda þessa skáldsögu Ólafs Jóhanns og hafa ýmsir komið að því líkt og sjá má til dæmis hér og hér. True North hefur verið með verkefnið um nokkurn tíma, sjá til dæmis eldri frétt Klapptrés hér.
Lögga með skyggnigáfu
Þá hafa True North og Mystery keypt réttinn á sex skáldsögum Stefáns Mána um Hörð Grímsson, lögreglumann með skyggnigáfu. Stefnan er að gera þáttaröð sem yrði sýnd 2019 eða 2020.
Raðmorðingi í Reykjavík
True North hyggst einnig ráðast í tökur á þáttaröðinni Valhalla Murders undir lok ársins. Serían er um raðmorðingja í Reykjavík og mun Þórður Pálsson leikstýra. Þættirnir verða sýndir á RÚV og DR Sales sér um alþjóðlega sölu. Margrét Örnólfsdóttir og Óttar Norðfjörð skrifa handrit.
Spennumynd um huldufólk
True North og Mystery hyggjast einnig filma spennumynd Þórs Sævarssonar, The Hidden, í haust. Myndin verður á ensku og segir af alþjóðlegum hópi jarðfræðinga sem kemur til Íslands til að grafast fyrir um huldufólk. Leikaraval fer nú fram í London. Óttar Norðfjörð skrifar handrit.
Variety fjallar um þetta verkefni og önnur sem True North og Mystery vinna að hér, þar sem meðal annars er rætt við Leif, Kristinn og Davíð.
Global Screen selur Fanga
Í frétt Screen kemur einnig fram að Global Screen annist alþjóðlega sölu á þáttaröðinni Föngum, sem Mystery framleiddi og sýningum er nú nýlokið á hjá RÚV. Serían tekur einnig þátt í sjónvarpshluta Berlínarhátíðarinnar.
Sjá nánar hér: Katheryn Winnick signs up for Truenorth’s ‘Journey Home’ | News | Screen