Í tengslum við nýframlagt fjárlagafrumvarp bendir Hilmar Sigurðsson kvikmyndaframleiðandi á að framlög til Kvikmyndamiðstöðvar hafi hækkað miklu minna á undanförnum árum en framlög til annarra samkeppnissjóða sem og menningarstofnana á borð við Þjóðleikhúsið og Sinfóníuna. Hann áréttar einnig að mikið vanti uppá að markmiðum samkomulagsins milli stjórnvalda og bransans frá 2006 hafi verið náð.
Hilmar segir:
Það er auðvitað frábært að miðað við 2008 á núvirði hafa bæði Þjóðleikhúsið (+380m) og Sinfó (+543 m) hækkað umtalsvert frá 2008. Á sama tíma er framlag í kvikmyndasjóð 45 m kr. hærra á næsta ári en 2008. Framlagið í ár (2016) er 1% lægra en 2008.
Hann birtir einnig graf sem sýnir þróun framlaga nokkurra stofnana 2008-2017:
Samkomulagið frá 2006 miðaði við að Kvikmyndasjóður færi í 700 m 2010 á þávirði. Það samsvarar 1.229 m króna í dag. Það er áætlað að kvikmyndasjóður verði 914,7 m á næsta ári. Það vantar með öðrum orðum 314,3 m í að það markmið náist.
Grafið að neðan sýnir þróunina frá 2008 til 2019, en nýgert Samkomulag er gert til þess tíma.
Hilmar birtir einnig graf sem sýnir þróun nokkura samkeppnissjóða yfir tímabilið 2008-2017 – og segir:
Það er frábært að Rannsóknasjóður (+1.340 m) og Tækniþróunarsjóður (+1.451 m) hafa hækkað umtalsvert frá 2008 á núvirði. Á sama tíma er hækkun á Kvikmyndasjóði miðað við 2008 alveg heilar 45 m króna. Sumir hafa kallað það stórsókn í íslenskri kvikmyndagerð á íslensku?!?