Sjóðurinn hækkar um tæp 30% á þremur árum samkvæmt nýju samkomulagi

Við undirritun samkomulagsins í gær, frá vinstri: Óskar Jónasson, fyrir hönd Samtaka kvikmyndaleikstjóra (SKL), Hrafnhildur Gunnarsdóttir, formaður Félags kvikmyndagerðarmanna (FK), Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og Anna María Karlsdóttir, fyrir hönd Sambands íslenskra kvikmyndaframleiðenda (SÍK).

Samkvæmt samkomulagi sem undirritað var í gær um stefnumörkun fyrir íslenska kvikmyndagerð árin 2016– 2019, hækka framlög til Kvikmyndasjóðs um 240 milljónir króna næstu þrjú ár.

Í samkomulaginu sem byggt er á skýrslu Kvikmyndaráðs koma fram áherslur á sviði kvikmyndagerðar og kvikmyndamenningar á Íslandi er varða þróun styrkjakerfis á sviði kvikmyndamála.

Heildartexta samkomulagsins má skoða hér.

Samkvæmt tilkynningu frá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu eru helstu liðir þessir:

Auka á fjármagn í Kvikmyndasjóð og auka hlutfall framleiðslustyrks úr Kvikmyndasjóði af heildarframleiðslukostnaði einstakra verkefna og efla aðrar greinar kvikmyndagerðar s.s. gerð heimildamynda, stuttmynda og leikinna sjónvarpsmynda.

Tryggja á jafnan hlut karla og kvenna í styrkveitingum Kvikmyndasjóðs m.a. með því að veita tímabundið sérstaka handrita-, þróunar-  og framleiðslustyrki til kvenna jafnframt því að jafna hlut kynjanna í öðrum listrænum stöðum í kvikmyndagerð. Einnig er sett það markmið að styðja sérstaklega við konur og karla sem eru að stíga sín fyrstu skref í kvikmyndagerð. Í samkomulaginu er einnig lögð áhersla á barnaefni og það verði kappkostað að a.m.k. eitt slíkt verkefni verði framleitt árlega.

Samkomulagið felur í sér að stuðningur við kvikmyndagerð á Íslandi í gegnum Kvikmyndasjóð eykst úr 844,7 millj. kr. á yfirstandandi ári í 1.084,7 millj. kr. árið 2019.

Source: Samkomulag um stefnumörkun fyrir íslenska kvikmyndagerð árin 2016-2019 | Fréttir |

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR