Þáttaröðin Ófærð úr smiðju Baltasars Kormáks hlaut í kvöld Prix Europa verðlaunin fyrir leikið sjónvarpsefni. Þetta er í fyrsta sinn sem íslenskt sjónvarpsefni vinnur til þessara virtu verðlauna.
Fyrir nokkrum árum vann dansk/sænska serían Brúin til þessara sömu verðlauna.
Alls 26 þáttaraðir voru tilnefndar til verðlaunanna í þessum flokki.
Prix Europa verðlaunin eru veitt fyrir bæði sjónvarps- og hljóðvarpsefni, auk efnis á netinu. Þau voru stofnuð 1987 og eru sameiginlegt verkefni EBU (Sambands evrópskra útvarpsstöðva), Evrópuráðsins, Evrópusambandsins og flestra stærstu almannaútvarpsstöðva Evrópu.
Ófærð var m.a. tekin á Siglufirði á síðasta ári og skartaði Ólafi Darra Ólafssyni, Ilmi Kristjánsdóttur og Ingvari Sigurðssyni í aðalhlutverkum. Hún er byggð á hugmynd Baltasars Kormáks en handritið var skrifað af þeim Sigurjóni Kjartanssyni og Clive Bradley. Framleiðendur eru Baltasar Kormákur og Magnús Viðar Sigurðsson hjá RVK Studios.