Fjórar íslenskar kvikmyndir sem frumsýndar voru á RIFF halda áfram í sýningum í Bíó Paradís. Þetta eru heimildamyndirnar Ransacked og InnSæi ásamt bíómyndunum Sundáhrifin og Pale Star.
Sundáhrifin eftir Sólveigu Anspach var frumsýnd á síðustu Cannes hátíð og vann þar til verðlauna. Hún segir af Samir, hávöxnum fertugum kranamanni sem sér Agöthu á kaffihúsi og verður yfir sig ástfanginn. Samir kemst að því að Agatha er sundkennari í Montreuil. Hann þykist vera ósyndur og skráir sig á sundnámskeið. Eftir aðeins þrjár kennslustundir kemst upp um lygina. Agatha er síðar valin til að vera fulltrúi síns héraðs á tíundu alþjóðlegu sundkennararáðstefnunni á Íslandi. Samir, blindaður af ást, eltir hana staðráðinn í að breyta hug hennar.
Ransacked eftir Pétur Einarsson er heimildamynd um hrunið og eftirmála þess. Hún segir frá því hvernig gríðarlegur auður, vogunarsjóðir og hagkerfi heimsins geta haft áhrif á líf venjulegs fólks. Þorsteinn Theódórsson missti fyrirtækið sitt eftir hrunið og næstum því líf sitt, en með hjálp dóttur sinnar lögsóttu þau bankana. Átta árum síðar hafa bankarnir selt burt hagnað sinn og hafa aftur grætt milljarða. Hver vinnur og hver tapar?
Pale Star eftir Skotann Graeme Maley er framleidd af Hlín Jóhannesdóttur og Birgittu Björnsdóttur hjá Vintage Pictures. Maley hefur starfað hér á landi við leiklist um árabil. Myndin er sögð „alvöru íslensk rökkurmynd þar sem óhugnanleg leyndarmál eru dreginn fram í dagsljósið“. Með aðalhlutverk fara Þrúður Vilhjálmsdóttir, Þröstur Leó Gunnarsson, Freyja Björk Guðmundsdóttir og Isabelle Joss.
Stikla virðist ekki fyrirliggjandi en myndinni er svo lýst:
Pale Star fjallar um eigingirni ástarinnar. Það hvernig eigingirnin afhjúpar valdagræðgi og stjórnsemi og við sjáum í svartnætti hjartans morð í stað ástar. Harmsaga tveggja para sem verða á vegi hvers annars í dimmu og drungalegu landslaginu á suðurhálendi Íslands. Ferðalangurinn Molly flýr ofbeldisfullan eiginmann sinn, Kurt og fær aðstoð frá íslenskum nágranna, Sólveigu. Á meðan vaknar eiginmaður Molly og uppgötvar að hann er yfirgefinn í læstum húsbíl. Hann brýst út og hittir Ara, elskhuga Sólveigar, sem tekur hann upp í við við vegakantinn og keyrir hann heim til Sólveigar.
InnSæi – the Sea within er heimildamynd eftir Hrund Gunnsteinsdóttir og Kristínu Ólafsdóttur. Henni er svo lýst:
Í bland við persónulega reynslu sögumannsins Hrundar Gunnsteinsdóttur, koma fram í myndinni heimsþekktir leiðtogar og hugsuðir á sviði lista, vísinda og fræða sem leiða okkur inn í margræðan heim InnSæis: Heim endalausra möguleika, sjálfsþekkingar, samkenndar og ímyndunarafls. – Veröld sem við erum að missa tengingu við í hraða og áreiti nútímasamfélagsins.