Anton Máni Svansson, framleiðandi Hjartasteins er hæstánægður með viðtökur myndarinnar á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum og segir að teymið á bak við myndina sé hreinlega í skýjunum.
RÚV greinir frá:
„Þetta opnar allar dyr fyrir okkur. Það er rosalega mikilvægt að fá þennan listræna gæðastimpil sem fylgir þáttöku á hátíðinni, ég tala nú ekki um góða gagnrýni í framhaldinu,“ segir Anton.
„Við erum nú þegar búin að fá tilboð frá ýmsum hátíðum um sýningu,“ segir Anton en getur á þessum tímapunkti ekki ljóstrað upp um hvaða hátíðir það séu. Hann segir að tilboðin hafi öll komið eftir að dómnefndir hátíðanna horfðu á myndina. „Þeir horfðu allir á hana á sama tíma og svo keppast þeir um að fá hana til sín. Við erum búin að vera mjög heppin að fá svona gott start og svona góðar hátíðir til að sýna á,“ segir Anton og bætir því við að það hafi í raun komið á óvart að kvikmyndahátíðin í Feneyjum hafi viljað sýna Hjartastein, í ljósi þess að skandinavískar myndir hafi ekki verið áberandi þar í gegnum tíðina.Stjörnur myndarinnar eru tveir ungir drengir, þeir Baldur Einarsson og Blær Hinriksson. Þeir hafa hlotið mikið lof fyrir frammistöðu sína. „Þeir eru merkilega prófessjónal og alveg á jörðinni með þetta,“ segir Anton og lýsir því hvernig þeir hafi staðið langtímum saman og gefið eiginhandaráritanir eftir frumsýninguna. „Þeir hafa ekki leikið mikið þessir strákar, þannig að þetta er dálítið einstakt.“
Íslensk bylgja í gangi
Anton segir að mikil gróska einkenni íslenskan kvikmyndaiðnað og hún hafi skilað miklu, bæði við gerð myndarinnar og markaðssetningu hennar erlendis. „Það er svo frábært með íslenska kvikmyndageirann að við stöndum saman. Og fólk erlendis dáist að því,“ segir Anton.Hann lýsir því hvernig fjallað var um Ísland í ræðum á opnunarhátíðinni. „Það var talað um það að íslensk kvikmyndagerð væri að gjósa (e. erupting). Það er íslensk bylgja í gangi, og það hefur þau áhrif að kvikmyndahátíðir hafa áhuga á því að sjá hvað er nýtt hjá Íslandi í kvikmyndum,“ segir Anton.
Sjá nánar hér: Segir allar dyr opnast fyrir Hjartasteini