Níu íslensk kvikmyndaverkefni á mismunandi stigum framleiðsluferlis verða hluti af alþjóðlegu norsku kvikmyndahátíðinni í Haugasundi, sem fer fram 20.-26. ágúst í Noregi. Verkefnin sem um ræðir eru Tryggðarpantur, War is Over, The Wind Blew On, Vetrarbræður, East by Eleven, The Damned, Martröð, Pale Star og The Wall.
Einnig verður mynd Óskars Jónassonar, Fyrir framan annað fólk, sýnd í Nordic Focus hluta hátíðarinnar.
Samframleiðslu- og fjármögnunarmarkaður
Á norrænum samframleiðslu- og fjármögnunarmarkaði munu tvö verkefni í þróun taka þátt; kvikmyndirnar Tryggðarpantur eftir Ásthildi Kjartansdóttur, framleidd af Evu Sigurðardóttur og Ásthildi Kjartansdóttur fyrir Askja Films, og War is Over eftir Árna og Kinski, framleidd af Guðrúnu Eddu Þórhannesdóttur fyrir Tvíeyki.
Work in Progress
Kvikmyndirnar The Wind Blew On eftir Katrínu Ólafsdóttur og hin dansk/íslenska Vetrarbræður eftir Hlyn Pálmason, meðframleidd af Antoni Mána Svanssyni fyrir Join Motion Pictures, verða hluti af „Work in progress“ dagskrá hátíðarinnar.
Nordic Genre Boost
Þá munu East by Eleven, nýtt verkefni leikstjórans og handritshöfundarins Ólafs de Fleur Jóhannessonar, og The Damned, fyrsta verkefni leikstjórans og handritshöfundarins Þórðar Pálssonar í fullri lengd, taka þátt í vinnustofu í tengslum við Nordic Genre Boost. Nordic Genre Boost er átaksverkefni Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðsins fyrir sérstakar tegundir kvikmynda í fullri lengd, t.d. hryllingsmyndir, vísindaskáldsögur og fantasíur.
Nordic Script Pitch
Martröð, nýtt verkefni Hallveigar Thorlacius, verður kynnt á „Nordic Script Pitch“ hluta hátíðarinnar.
Markaður
Hin bresk/íslenska kvikmynd Pale Star eftir Graeme Maley, framleidd af Birgittu Björnsdóttur og Hlín Jóhannesdóttur fyrir Vintage Pictures, verður sýnd á lokuðum markaðssýningum og sömu sögu er að segja af norsk/íslensku heimildamyndinni The Wall, meðframleidd af Heather Millard og Þórði Braga Jónssyni fyrir Compass Films. Lokuðu markaðssýningarnar eru ætlaðar fagfólki í kvikmyndabransanum, t.a.m. dreifingaraðilum, mögulegum kaupendum, dagskrárstjórum kvikmyndahátíða o.fl.
Sjá nánar hér: Fjöldi íslenskra kvikmyndaverkefna á kvikmyndahátíðinni í Haugasundi | Kvikmyndamiðstöð Íslands