Ljósmál ehf. vinnur um þessar mundir að gerð heimildamyndar um sögu íslenskra vita. Myndin er unnin í samstarfi við hið Íslenska vitafélag með stuðningi Kvikmyndamiðstöðvar Íslands. Kvikmyndarstjóri er Einar Þór Gunnlaugsson og Dúi J. Landmark framleiðir ásamt Sigurbjörgu Árnadóttur. Handritshöfundur er Kristján Sveinsson sagnfræðingur. Á meðal bakhjarla myndarinnar eru einnig RÚV og Vegagerðin.
Tökur á myndinni hófust fyrrihluta 2016 á Arnarnesi, Bolungarvík og í Önundarfirði og munu standa yfir til ársloka 2016. Gert er ráð fyrir að hún verði tilbúin til sýninga vorið 2017. Sýningar verða bæði í sjónvarpi og kvikmyndahúsi auk ráðstefna sem til að mynda tengjast strandmenningu, vitum og sjósókn.