Heimildamyndin Keep Frozen undir stjórn Huldu Rósar Guðnadóttur safnar nú fé á Karolina Fund og hefur hún gengið ágætlega. 44% af markmiðinu hafa náðst en þrír dagar eru nú til stefnu.
Í kynningu segir:
Keep Frozen er kvikmynd um mannsandann, um það að sigrast á sjálfum sér. Hver einasta löndun krefst gríðarlegarar skipulagningar, vinnu og færni sem erfitt er fyrir utanaðkomandi að ímynda sér. Talsvert hefur verið fjallað um hetjudáðir sjómanna í íslenskri menningu. Nú langar okkur til að varpa ljósi á annan mikilvægan hlekk í verðmætasköpun sjávarútvegar á Íslandi; löndunarstarfið.
KeepFrozen hefur þegar verið styrkt af Kvikmyndasjóði og hefur RUV keypt sýningarréttinn. Myndin var valin úr fjölda umsókna í sérstaka kynningu á Nordisk Panorama hátíðinni í Malmö en mjög erfitt er að komast að í þessum flokki þar sem aðeins sex myndir frá öllum Norðurlöndunum voru valdar til þáttöku. Við fórum út í lok september og gekk kynningin vonum framar en myndin fékk mikil og góð viðbrögð frá bæði dreifiaðilum og mikilvægum kvikmyndahátíðum.
En til þess að unnt sé að ljúka við myndina þurfum við á þinni hjálp að halda. Enn á eftir að eftirvinna myndina en í því felst litgreining, hljóðvinnsla og fleira. Einnig kostar það mikla vinnu og peninga að koma myndinni á framfæri, bæði hérlendis og erlendis. Um leið og við þökkum þér fyrir að gefa þér tíma í að kynna þér verkefnið vonum við að þú sjáir þér hag í að styrkja verkefnið og fá í leiðinni umbun fyrir. Við trúum því að Keep Frozen sé mikilvæg mynd á alla kanta og hlökkum til að deila henni með umheiminum!
Helga Rakel Rafnsdóttir framleiðir en hún og Hulda gerðu áður heimildamyndina Kjötborg sem meðal annars vann Skjaldborgarverðlaunin 2008.
Skoða má síðu verkefnisins á Karolina Fund hér.