Þrestir Rúnars Rúnarssonar er áfram í tíunda sæti eftir aðra sýningarhelgi en Everest Baltasars fer úr efsta sæti í það þriðja.
4,097 sóttu Everest í vikunni og hefur þá myndin fengið alls 62,388 gesti. Myndin er því sú næst aðsóknarmesta af myndum Baltasars á Íslandi hingað til, en á nokkurn spöl eftir í Mýrina (84.428 gestir). Heildartekjur myndarinnar á heimsvísu nema nú tæpum 173 milljónum dollara og er hún fyrir nokkru orðin tekjuhæst allra kvikmynda leikstjórans á alþjóðlegum vettvangi.
Aðsókn á Þresti Rúnars Rúnarssonar nam 840 manns í vikunni. Heildaraðsókn er 2,554 gestir eftir aðra sýningarhelgi.
Sigurvegari Skjaldborgarhátíðarinnar í vor, heimildamyndin Hvað er svona merkilegt við það? eftir Höllu Kristínu Einarsdóttur var frumsýnd um helgina. Myndin er í 17. sæti en 336 manns hafa séð hana að forsýningum meðtöldum.
Heimildamyndin Stúlkurnar frá Kleppjárnsreykjum eftir Ölmu Ómarsdóttur er í 16. sæti eftir þriðju sýningarhelgi. 722 sáu hana í vikunni en alls hefur hún fengið 2,414 gesti. Það verður að teljast ágætur árangur í ljósi aðsóknar á heimildamyndir hin síðari ár.
Heimildamyndin Jóhanna – síðasta orrustan eftir Björn B. Björnsson fékk 180 manns í vikunni en alls hafa 406 séð hana eftir tvær sýningarhelgar.
Hrútar og Fúsi eru enn í sýningum; sú fyrrnefnda er komin með 21,150 gesti, sú síðarnefnda með 12,757.
Aðsókn á íslenskar myndir 19.-25. október 2015
VIKUR | MYND | AÐSÓKN | HEILDARAÐSÓKN |
---|---|---|---|
6 | Everest | 4,097 | 62,388 |
2 | Þrestir | 840 | 2,554 |
3 | Stúlkurnar frá Kleppjárnsreykjum | 722 | 2,414 |
2 | Jóhanna - síðasta orrustan | 180 | 406 |
Ný | Hvað er svona merkilegt við það? | 90 (helgin) | 336 (með forsýningum) |
22 | Hrútar | Ekki vitað | 21,150 |
31 | Fúsi | Ekki vitað | 12,757 |