Einar Þór frá Íslandi til Úkraínu

Einar Þór Gunnlaugsson vinnur nú að heimildamyndinni Mirgorod sem segir frá lífinu í samnefndri smáborg í Úkraínu. Myndina vinnur hann með úkraínska myndlistarmanninum Oleg Mingalev og er stuðnings við verkefnið leitað á Karolina Fund.

Úkraína á nú í stríðsátökum við uppreisnaröfl studd af Rússum í Donesk héraðinu í suð-austur Úkraínu einsog fram hefur komið í fréttum. Al Jazeera sjónvarpsstöðin er t.d. á meðal helstu fjölmiðla sem hafa lýst átökunum sem upphafi að nýju köldu stríði og efnahagsþvinganir hafa sett mark sitt á flest lönd Evrópu. Þrátt fyrir opinbert vopnahlé er enn barist og nærri 7000 manns hafa fallið frá ársbyrjun 2014.

SOLDIER in TRAINSTATIONHeimildamyndin rekur þó ekki sögu stríðsins eða sögu borgarinnar í smátriðum heldur verður Oleg fylgt eftir þar sem hann heimsækir valda staði og þannig fá áhorfendur að kynnast borginni og nærsveitum, daglegu lífi og viðhorfum fólks til heimkynna sinna og landsins sem á í þessum hörðu átökum. Þrátt fyrir frið í Mirgorod sést varla ferðamaður þar um slóðir og farið að bera á töluverðri stríðsþreytu í hversdagslegu lífi.

Mirgorod: Gogol, Kósakkar og heilsulind

Mirgorod varð þekkt í bókmenntaheiminum á 19. öld þegar Nikolaj Gogol gaf út safn smásagna með þessu nafni. Sjálfur er Gogol fæddur í litlu þorpi á jaðri borgarinnar og lýsir m.a. karlmennsku Kósakka af mikillri íróníu og óhætt að segja að sú írónía lifi enn. Bókin kom út í íslenskri þýðingu 2006 en Gogol er hugsanlega þekktastur fyrir leikritið Eftirlitsmaðurinn sem víða var sett upp á Íslandi á seinnihluta síðustu aldar.

KOSAKKMirgorod varð á 20. öld einnig kunn sem heilsubær, líkt og Hveragerði, en á tíma Sovétríkjanna varð borgin vinsæll áningastaður heilsuferðamanna og grunnvatnslind sem fannst á um 700 metra dýpi skóp aðdráttarafl svæðisins. Mýtan um Kósakkana dregur heldur ekki úr orðstí héraðsins en þarna er einmitt að finna heimaland Kósakka.

Höfundunum, sem þekkst hafa í 15 ár, hefur lengi langað til að gera mynd sem tengir þessi tvö lönd saman á einhvern hátt, Ísland og Úkraínu. Upphaf gerð hennar var röð af nokkrum írónískum tilviljunum segir Einar Þór, sem fór saman við áhuga Mirgorodborgar til að styðja við verkefnið að hluta. Einar Þór stýrir myndinni en undirbúningur, skrif og framkvæmd er í þeirra beggja höndum.

Oleg er myndlistarmaður frá Poltava, Úkraínu. Hann útskrifaðist frá Maxim Gorki listaskólanum í Moskvu seint á 8. áratugnum en ungur að árum flúði hann Sovetríkin áður en þau liðuðust í sundur. Hann dvaldi í London og París um árabil þar sem hann hefur haldið fjölda einkasýninga en er nú búsettur í Poltava.

Einar Þór er kvikmyndagerðarmaður með meiru, menntaður í London, bæði í leikstjórn en einnig með masterspróf frá City University í menningarstjórnun. Mirgorod verður fyrsta verkefni hans eftir nokkuð hlé frá kvikmyndagerð en hann er einnig meðal annars með mynd um sögu vita á Íslandi í undirbúningi.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR