ScreenDaily segir frá væntanlegum verkefnum Pegasus sem Snorri Þórisson kynnti á RIFF. Snorri leggur áherslu á samstarf við erlenda aðila: „Ísland er ekki markaður,“ segir hann, „það er agnarsmátt.“
Olympíufálkar
The Falcons er bíómynd sem mun segja sögu Winnipeg Falcons, íshokkíliðsins sem var nær alfarið skipað innflytjendum af íslenskum ættum og nældi í fyrstu gullverðlaun Kanadamanna á Olympíuleikunum í Antwerpen 1920. Litið hafði verið á leikmennina sem aðkomufólk en eftir þetta urðu þeir að þjóðhetjum.
Kanadískur meðframleiðandi er Julia Rosenberg og verkefnið er hugsað sem íslensk/kanadísk samframleiðsla, byggt á samframleiðslusamningi sem í gildi er milli landanna.
Myndin verður byggð á bókinni When Falcons Fly eftir David Square. Snorri hefur endurnýjað réttinn gagnvart bókinni en fyrri tilraun til að koma verkinu á koppinn fyrir nokkrum árum strandaði. Snorri segist sannfærður um að nú gangi betur. Myndin verður á íslensku og ensku.
Einn koss, þrjár konur
One Kiss Away From Love kallast rómantísk kómedía með yfirnáttúrulegu ívafi sem Hallgrímur Helgason skrifar handritið að og Reynir Lyngdal mun leikstýra. Til stendur að framleiða verkið í samstarfi við breska aðila.
Sagan er um einmana auglýsingamann sem veit að hann á aðeins einn koss eftir til að uppgötva hver af þremur afar ólíkum konum er hans eina sanna.
Orðstír Hrafns
Pegasus þróar einnig sögualdarverkefni líkt og fleiri framleiðendur. Verkefnið ber vinnuheitið Orðstír og verður leikstýrt af Hrafni Gunnlaugssyni. Hrafn skrifar handritið í samvinnu við rithöfundinn kunna Ólaf Gunnarsson.
Íranska tengingin
Pegasus tekur einnig þátt í sjónvarpsseríunni Iran Express sem gerist í Brussel og fjallar um íranska konu með skuggalega fortíð. Hún vinnur hjá Evrópusambandinu og vill allt til að vinna til að dylja fortíð sína, en leyndarmálin vilja út. Verkefnið verður á ensku og í samstarfi við þýska aðila.
Pegasus hefur undanfarin ár meðal annars þjónustað stórar sjónvarpsþáttaraðir á borð við Game of Thrones og Fortitude. Fyrirtækið hagnaðist um 159 milljónir króna á síðasta ári eins og sjá má hér.
Sjá nánar hér: Iceland’s Pegasus reveals project slate | News | Screen