Viðhorf | Meint frelsi og frítt stöff

Hilmar Sigurðsson formaður SÍK.
Hilmar Sigurðsson formaður SÍK.

Að undanförnu hefur mikið verið rætt um frelsi á netinu. Hnýtt hefur verið í meint skilningsleysi okkar sem viljum að höfundalög séu virt, ólöglegt upp- og niðurhal stöðvað og að frelsi til viðskipta og athafna virki jafnt í kjötheimum og á refilstigum netsins.

Djéennessar eru dregnir fram og leiðbeiningar birtar um hvernig komast megi framhjá því að reynt sé að leggja hraðahindranir í götu þeirra sem finnst í lagi að taka eigur annarra, án þess þó að svo mikið sem brauðmoli falli á borð þeirra sem lögðu jafnvel allt sitt í að skapa innhaldið; hið raunverulega virði í þessum skráarskiptum. Við getum þó ekki annað en brugðist við þeim stórfellda þjófnaði á efninu okkar sem á sér stað.

Frelsið á að vera höfunda um hverjir og hvernig þeir nota og neyta efnisins. Það er hið raunverulega frelsi. Þótt hraðahindranir dugi ekki á þá hörðustu, þá vonandi kveikja þær ljós hjá heiðvirðu fólki um að láta af ólöglegum óvana. Ef við stöndum hjá aðgerðalaus eða náum ekki að breyta um stefnu er útlitið sannarlega svart fyrir menninguna og tunguna okkar og þar með höfunda alls þessa frábæra efnis sem búið er til af skapandi fólki hér á Íslandi.

Frelsið á að vera höfunda um hverjir og hvernig þeir nota og neyta efnisins. Það er hið raunverulega frelsi.
Hún er þekkt mýtan um að það þurfi bara að finna upp ný viðskiptamódel fyrir bita og bæta hagkerfið á netinu. Að höfundar og rétthafar verði bara að finna nýjar leiðir til að dreifa sínu efni. BULL! Það er hlutverk þeirra sem taka efnið og falbjóða það á einhver hátt að standa skil á greiðslum fyrir það. Það eru alveg sömu viðskiptalögmál sem gilda um efni sem er plastpakkað ofan í pappakassa eða í rafrænum tvíundum í formi vöru og þjónustu á netinu. Það skiptir engu þótt hún sé pökkuð í 1/0 form í gagnapökkum sem þjóta heimsálfa á milli á örskotsstund í stað fýskískra mólikúla sem áður tók aðeins lengri tíma að koma í hendur instant fólksins sem við erum orðin – núna eða strax fólk og engar refjar.

Sjóræningjar kalla eftir viðurkenningu á frelsi sem hefur þau áhrif að ræna skapandi fólki rétti sínum að hagnýta sér eigin verk, sér og sínum til hagsbóta. Þeir kalla eftir frelsi sem verður um leið ófrelsi annara. Og það virðist gleymast að frá fyrsta degi þegar internetinu var hleypt úr bönkerum hersins, þá hefur verið ljóst að netið myndi snúast um peninga, völd og viðskipti. Og þeir virðast ekki átta sig á því að um leið og þeir opna tölvurnar sínar til að blasta nýju frelsisfasbókarfærslunni, færa til slóðir á nýja sörvera með breyttum æpí tölum eða krukka í djéennessinum sínum til að forðast hraðahindranir, eru þeir í raun ekkert annað en ókeypis verkamenn stórra hagsmunaafla í „nýju“ virðiskeðjunni sem nýtir „frítt stöff“ sér til hagnaðar.

Og það virðist gleymast að frá fyrsta degi þegar internetinu var hleypt úr bönkerum hersins, þá hefur verið ljóst að netið myndi snúast um peninga, völd og viðskipti.
Það er innihaldið í þessum pökkum sem „nýja“ viðskiptamódelið á internetinu meðal annars þrífst og hagnast á. En það er ekkert „nýtt“ í þessu viðskiptamódeli. Ekkert! Það er nákvæmlega sambærilegt skapandi innhald sem er sett í gegnum skilvindur viðskiptamódela og virðiskeðja. Í „gamla“ módelinu, rötuðu þó allavega tekjur heim til höfunda, en í „nýja“ bísnessinum eru þeir skildir eftir, enda mjög hagstætt fyrir nýju hliðverðina að saklausu sjóræningjabörnin hlaði inn fyrir þau „frítt stöff“ til að fylla á tækin og pípurnar og rukka fyrir. Böns!

Þannig beina sjóræningjar í raun stórum fúlgum inn í fyrirtæki sem framleiða tækin, eiga pípurnar og bjóða okkur hamingjuna með því að vista stöffið okkar í skýjunum. Ekki nóg með að hún sé stjarnfræðileg og vaxi um skrilljónir á ári, heldur hafa þessi fyrirtæki ekki þurft að fjárfesta í efni og innhaldi, né heldur að skila sanngjörnu endurgjaldi til þeirra sem eiga efnið sem flæðir „frítt“ um sífellt stækkandi pípur og tæki. Þannig eru sjónræningjar raunverulega að vinna gegn því að hugverk sé metið að raunverulegum verðmætum og eigi skilið sanngjarnt endurgjald fyrir.

Þannig eru sjónræningjar raunverulega að vinna gegn því að hugverk sé metið að raunverulegum verðmætum og eigi skilið sanngjarnt endurgjald fyrir.
Metrómakkamaðurinn sem seldi þeim tölvuna frá eplaframleiðendanum eða delluna eða samsúnginn fékk svo sannarlega sitt kött fyrir að koma á markað nýjustu tölvunni eða snjallsímanum eða spjaldtölvunni, einstaklega vel búinni undir afspilun á nýjustu kvikmyndunum og tónlistinni í bestu mögulegu gæðum. Tækin eru seld út á að geta spilað efni og innihald sem alltof oft er tekið ófrjálsri hendi af kyndilberum svokallaðs frelsis, en eru í raun ekkert annað en dreifingar- og sölumenn illa fengis efnis. Fyrsti skammturinn er alltaf „frír“!

Það er ekkert óeðlilegra að setja hraðahindranir á aðgengi að höfundarréttarvörðu efni, heldur en hraðahindranir á götur til að hægja á umferð. Þó ekki sé til annars en að einhverjir heiðvirðir neytendur hugsi sig aðeins um áður en þeir hlaða niður stolnu efni, og gerist þannig þjófsnautar. Netið er ekkert minna „frjálst“ fyrir vikið, þó reynt sé að reisa hindranir við einbeittum brotavilja þeirra sem halda úti skráaskiptasíðum fyrir ólöglega upphlaðið efni. Og það er ekkert verið að ganga á persónurétt eins né neins.

Síðustu aðgerðir rétthafa koma eftir áralanga þrautagöngu um refilstigu dómskerfis og hefur kostað höfundarréttarhafa ómældan tíma og fjármagn. Og niðurstaðan er nákvæmlega sú sem var lagt upp með, nema nú liggur fyrir dómsorð um að skráaskiptasíðurnar eru ólöglegar. Ekki bara hér á Íslandi, heldur í öllum okkar samanburðarlöndum.

Það getur vel verið að uppsetning hraðahindrana sé endalaust verk og að alltaf komi nýjar leiðir til að koma sér undan ábyrgð.
Það getur vel verið að uppsetning hraðahindrana sé endalaust verk og að alltaf komi nýjar leiðir til að koma sér undan ábyrgð. En ef fría efnið flæðir áfram hindranalaust um pípur og tæki þá gefast sjálfstæðir höfundar einfaldlega upp á endanum og eftir verður bara meira af því sama. Minni fjölbreytni, færri möguleikar, minna úrval. Meira glóbal – minna lókal og menningin okkar og tungumál verða hin raunverulegu fórnarlömb á endanum og þar með við sjálf og líka þeir sem eru að berjast fyrir „frelsi og fríu stöffi“.

Þeir sem leggjast gegn hraðahindrunum á netinu í nafni misskilins frelsis þurfa líka að skilja að „fría stöffið“ er nefnilega ekkert frítt. Það eru bara önnur fyrirtæki en áður sem eru hliðverðirnir sem stýra umferð og rukka tollinn, en hefur láðst að skila höfundum sanngjörnu endurgjaldi úr þeirri innheimtu. Það væri kannski ráð til Pírata að koma með höfundum í þá baráttu og með viðurkenningu á hugverkaréttinum sem raunverulegum samfélagssáttmála um notkun á efni og innihaldi. Frekar en að vera að verja stórfyrirtæki í tækniheiminum sem hagnast á því að skaffa nýtt dót daglega og fita pípurnar sínar til að flytja meira ólöglega fengið efni í boði saklausra kyndilbera frelsis. Frelsis sem ekki er til staðar og hefur aldrei verið það, jafnvel þó að maður breyti djéennessinum hjá sér.

Hilmar Sigurðsson
Hilmar Sigurðsson
Hilmar Sigurðsson er formaður Samtaka íslenskra kvikmyndaframleiðenda (SÍK) og framkvæmdastjóri GunHil.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR