Borgríki 2 – blóð hraustra manna Ólafs de Fleur er komin út á VOD í Bandaríkjunum og hafa undanfarið birst fínir dómar um myndina í netmiðlum vestra.
Myndin kallast Brave Men’s Blood á ensku.
Á kvikmyndavefnum Birth.Movies.Death segist gagnrýnandi helst hafa áhyggjur af því að jafn frambærileg mynd drukkni í þeim hafsjó kvikmynda sem veröldin hefur að bjóða og segir m.a. Borgríki 2 “hremma áhorfandann og halda áhuga hans til hinna harmrænu endaloka”.
Á vefnum Film School Rejects segir að “ánægjuleg“ sé ekki endilega rétta lýsingin á myndinni þar sem hún “veki hjá áhorfendum bæði óánægju og ófullnægju um leið og hún veki aðdáun”. Gagnrýnandinn kemst því að þeirri niðurstöðu í lokaorðum sínum að myndin sé „sláandi rannsókn á hugsjónum og spillingu sem enginn sleppi undan án þjáningar“.
Unseen Films nefnir það strax í upphafsorðum að hér sé á ferðinni “þétt lítil mynd sem lesendur ættu umvifalaust að bæta á áhorfslista sinn” á meðan Reel News Daily telur að handrit Hrafnkels og Ólafs eigi skilið að hreppa verðlaunagripi og að hann hefði gjarnan viljað sjá myndina á mikilvægum hátíðum á borð við Tribeca og New York Film Festival.
Sjá nánar hér: Frábærar viðtökur gagnrýnenda á Borgríki 2 í Bandaríkjunum