Breytingar á „Kastljósi“ RÚV, menningarumfjöllun bætist við, „Djöflaeyjan“ lögð niður

kastljós-logoRÚV hefur tilkynnt um breytingar á Kastljósi sem felast í því að menningarumfjöllun fær fast pláss í þættinum þrisvar í viku og verður Brynja Þorgeirsdóttir menningarritstjóri þáttarins. Menningarþátturinn Djöflaeyjan, sem Brynja stýrði áður, verður lagður niður.

Fréttatengd viðtöl og fréttaskýringar verða áfram hryggjarstykki Kastljóss en við bætist föst menningarumfjöllun samhliða því sem útsendingartími lengist. Þessi breyting er liður í að efla umfjöllun RÚV um menningu með því að færa hana á besta stað í dagskránni, ásamt því að efla Kastljós og auka fjölbreytni þáttarins. Þetta kemur fram í umfjöllun á vef RÚV.

Annað dagskrárgerðarfólk sem hefur unnið í Djöflaeyjunni mun einnig vinna menningarefni í þáttinn auk þess sem Sigurlaug Margrét Jónasdóttir bætist í hóp þeirra sem vinna menningarefni. Til viðbótar bætast við fleiri nýir þáttagerðarmenn og álitsgjafar um menningu og listir.  Einnig verður boðið upp á vikulega samantekt menningarefnis á sunnudögum.

Brynja hefur hlotið Edduverðlaunin sem sjónvarpsmaður ársins og einnig hafa Orðbragð og Djöflaeyjan hlotið Edduna.

Kastljós fer aftur í loftið eftir sumarfrí þann 31. ágúst. Þóra Arnórsdóttir verður ritstjóri þáttarins en auk hennar og Brynju verða aðrir umsjónarmenn þau Helgi Seljan, Helga Arnardóttir og Baldvin Þór Bergsson. Þá mun samstarf Kastljóss og Fréttastofunnar enn aukast og þrautreyndir fréttamenn koma að dagskrárgerð í þættinum.

 

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR