Egill Örn Egilsson, eða Eagle Egilsson eins og hann kallar sig, hefur starfað sem kvikmyndatökumaður, leikstjóri og framleiðandi í Los Angeles í aldarfjórðung. Orri Páll Ormarsson hjá Morgunblaðinu ræddi við hann á dögunum og Klapptré endurbirtir viðtalið í heild sinni með leyfi Orra.
Egill Örn Egilsson, eða Eagle Egilsson eins og hann kallar sig, hefur starfað sem kvikmyndatökumaður, leikstjóri og framleiðandi í Los Angeles í aldarfjórðung. Undanfarin ár hefur hann mest unnið við sjónvarp, þætti eins og The Wire, CSI-seríurnar og Nikita. Þrátt fyrir gott gengi vestra hefur Egill ekki látið mikið á sér bera og veitir nú í fyrsta skipti blaðaviðtal á Íslandi. Tilefnið er verkefni sem hann er farinn að huga að hér heima en ekki má upplýsa um að svo stöddu.
Hávaxinn maður stígur út úr bílnum. Með sítt, svart hár, bundið í tagl og voldugt skegg. Sannkölluð týpa. Það var hugmynd Ragnars Axelssonar ljósmyndara að hittast á Sögusafninu vestur á Granda og hvort sem það var tilviljun eða ekki er varla hægt að hugsa sér betri stað. Það er eins og viðmælandinn sé að koma beint frá Örlygsstöðum – vígmóður en sæll eftir ærið dagsverk.Egill Örn Egilsson hefur ekki í annan tíma komið á Sögusafnið og má til með að taka hring með okkur í sýningarsalnum. „Rétt er það, ég ætti alveg heima hérna,“ segir hann sposkur á svip. Egill Örn nemur staðar hjá sagnaþul allra sagnaþula, Snorra Sturlusyni, og Ragnar er ekki lengi að grípa myndavélina. Egill Örn bregður á leik og setur sólgleraugun sín á Snorra sem tekur sig vel út. Eiginlega alveg fáránlega vel.
Þessi fyrsti fundur okkar Egils Arnar á sér langan aðdraganda. Allmörg ár eru liðin frá því ég rak fyrst augun í dularfullt nafn á skjánum sem vakti forvitni mína. Var að horfa á þá miklu kempu Horatio Caine í CSI: Miami, einskonar Íslendingasagnahetju 21. aldarinnar, og fram kom að maður að nafni Eagle Egilsson hefði kvikmyndatöku með höndum. Þetta hlýtur að vera einhver Vestur-Íslendingur, hugsaði ég með mér. Við nánari eftirgrennslan kom í ljós að Eagle Egilsson er enginn Vestur-Íslendingur, heldur bara venjulegur reykvískur strákur úr Hvassaleitinu.
Nokkru síðar komst ég á slóð Egils Arnar gegnum gamlan vin hans sem þá vann á Morgunblaðinu, Björn Þóri Sigurðsson, Bússa. Egill Örn var þá staddur í stuttu sumarfríi hér heima og ég hringdi í hann og ámálgaði viðtal. Egill Örn tók mér vel en kvaðst vera niðursokkinn, þyrfti að hitta marga á skömmum tíma, auk þess sem hann hefði aldrei farið í viðtal á Íslandi og hefði satt best að segja engan sérstakan áhuga á því. „Ég er frekar prívat maður,“ sagði hann. Eftir að hafa tekið sér stuttan umhugsunarfrest, fyrir mín orð, sagði Egill pent nei.
Tími til kominn
Í þessu ljósi varð ég býsna undrandi þegar fyrirspurn spriklaði í pósthólfinu hjá mér einn morguninn á þessu vori, frá Ingvari Þórðarsyni kvikmyndaframleiðanda með meiru. „Viltu viðtal við Eagle Egilsson?“
Já, auðvitað. Hvar, hvenær?
„Á morgun, hann er á landinu.“
Þetta lét ég ekki segja mér tvisvar og þegar við erum sestir niður á veitingastað Sögusafnsins spyr ég vitaskuld fyrst um þennan viðsnúning. Hvað hefur breyst, hvers vegna er Egill Örn til í viðtal núna?
„Mér fannst bara tími til kominn. Ég er ekki mikið fyrir að hafa mig í frammi en núna þegar verkefni eru framundan hér heima fannst mér við hæfi að þjóðin fengi að kynnast mér aðeins betur,“ segir Egill Örn.
Spurður um téð verkefni verst hann allra frétta. „Þetta eru tvö verkefni. Annað verður alfarið unnið hér heima og ég geri fastlega ráð fyrir að það muni vekja athygli þjóðarinnar. Hitt kem ég með frá Bandaríkjunum. Það er of snemmt að greina efnislega frá þessum verkefnum en það kemur að því.“
Egill Örn glottir út í annað enda veit hann að það er illa gert að segja fréttamanni fréttir en samt ekki.
Það verður að hafa það.
Eagle sparar okkur tíma
Talið berst að nafninu, Eagle, og Egill Örn lýsir fullri ábyrgð á hendur vini sínum, Richard Scobie, söngvara með meiru. Þeir kumpánar munu hafa verið á kvennafari í Lundúnum árið 1986 og Richard, sem hafði orð fyrir þeim, kynnti þá með þessum hætti: „Hi girls, I’m Richard and this is Eagle!“
Egill Örn reyndi að malda í móinn en Richard kæfði andmæli hans í fæðingu. „Sjáðu til. Það sparar okkur klukkutíma á dag að segja að þú heitir Eagle. Hér skilur enginn nafnið Egill,“ fullyrti Richard.
Þess utan myndu flestir enskumælandi menn líklega segja „Ígil“ sem er alls ekki ólíkt „Ígúl“.
„Þegar ég flutti til LA rifjaðist þetta heillræði Richies upp fyrir mér og ég hef haldið mig við Eagle síðan,“ segir Egill Örn hlæjandi en tekur skýrt fram að hér heima heiti hann vitaskuld eftir sem áður Egill Örn. „Mamma myndi seint kalla mig Eagle,“ segir hann kíminn.
Bólstrarasonur úr Hvassaleitinu
Talandi um Richard Scobie þá ber hann ábyrgð á eina kvikmyndaverkefninu sem Egill Örn hefur tekið þátt í hér heima til þessa. Fyrir margt löngu kom hann heim að beiðni þessa gamla vinar síns með kvikmyndatökuvél í poka og tók upp eða „skaut“, eins og sagt er á fagmáli, tónlistarmyndband fyrir hljómsveitina Angels & Devils. Magnús Scheving var þá meðal leikenda. „Ætli þetta hafi ekki verið árið 1990,“ rifjar hann upp.
Egill Örn Egilsson fæddist í Reykjavík árið 1966. Bjó í Drápuhlíðinni til fjögurra ára aldurs en þá flutti fjölskyldan í Hvassaleitið. Foreldrar hans eru Egill Ásgrímsson bólstrari og Sigríður Lúthersdóttir. Egill á eina systur, Þórunni Egilsdóttur, bónda á Hauksstöðum í Vopnafirði og þingflokksformann Framsóknarflokksins.
Spurður hvort hann sé sjálfur framsóknarmaður hristir Egill Örn höfuðið. „Ég er ópólitískur og fylgist lítið með íslenskum stjórnmálum, enda hef ég búið svo lengi erlendis. Þórunn var kjörin á þing í síðustu kosningum og stendur sig eins og hetja. Hún er ein af þessum manneskjum sem eiga afskaplega auðvelt með að gefa af sér og var hvött til að fara í framboð af sveitungum sínum. Því miður sýnist mér það vera vanþakklátt starf að vera alþingismaður. Umburðarlyndi er lítið og illa talað um þetta fólk, sérstaklega hérna fyrir sunnan, enda þótt það sé að reyna að gera sitt besta fyrir land og þjóð,“ segir hann með nokkrum þunga.
Fjölskyldufyrirtækið, Bólstrun Ásgríms í Bergstaðastrætinu, sem afi Egils Arnar stofnaði, var einskonar umferðarmiðstöð meðan Egill Örn var ungur en Egill eldri tók við bólstruninni af föður sínum. Þangað lá leiðin gjarnan eftir skóla, þar sem vinir og ættingjar stungu við stafni. Iðulega var glatt á hjalla. Húsið á móti, Tösku- og hanskagerð Guðrúnar, var líka vinsæll samkomustaður en þar er nú Kaffibarinn.
„Verkstæðið hans pabba var órjúfanlegur hluti af mínu uppeldi og raunar öllu mínu lífi fram á þennan dag. Núna er pabbi kominn á áttræðisaldur og styttist í að hann rifi seglin. Það er erfitt til þess að hugsa að þá verði Bólstrun Ásgríms ekki lengur innan fjölskyldunnar. Því miður eru hvorki ég né Þórunn líkleg til að taka við af pabba. Það býr mikil og merkileg saga í Bergstaðastrætinu.“
Erfði ljósmyndadelluna
Egill Örn erfði tvö helstu áhugamálin frá föður sínum, skíði og ljósmyndun. „Við notuðum öll tækifæri sem gáfust til að fara á skíði – og gerum enn. Ég skrapp nýlega með pabba og nokkrum vinum hans, körlum komnum yfir sjötugt. Þeir voru eins og unglömb í brekkunum. Pabbi hefur mjög gott auga og var alltaf að taka ljósmyndir, ekki síst í ferðalögum, sem hann sendi til Danmerkur í framköllun. Síðan var öllum sem vettlingi gátu valdið boðið heim til að skoða myndirnar og þiggja kaffi og með því. Þetta voru skemmtilegir tímar og þessi mikli ljósmyndaáhugi pabba hlýtur að hafa kveikt í mér,“ segir hann.
Egill Örn notaðist við forláta Pentax Spotmagic-vél, sem faðir hans átti, og tvær linsur, 50 og 200 millimetra.
„Ég var með myrkrakompu í herbergi í Bergstaðastrætinu, sem ég held alveg örugglega að Þórbergur Þórðarson hafi búið í á sínum tíma. Þessi kompa hefur raunar ekkert breyst, er nákvæmlega eins og ég skildi við hana þegar ég flutti út 1988. Hún er orðin býsna rykfallin,“ bætir hann við sposkur.
Egill Örn kom víða við á þessum árum. Hann var ljósamaður hjá Bubba Morthens, Grafík og fleiri vinsælum hljómsveitum um miðjan níunda áratuginn. Þá vann hann um tíma í Áburðarverksmiðjunni og lærði smíðar í Iðnskólanum í Reykjavík. „Ég er ekki með sigg á lófunum eftir kvikmyndaleikstjórn,“ segir hann kíminn og opnar lúkurnar.
Kærastan stakk upp á kvikmyndagerð
Egill Örn ætlaði að læra ljósmyndun en þáverandi kærasta hans fékk hann til að íhuga kvikmyndagerð. Úr varð að hann sótti um fjöldann allan af kvikmyndaskólum og komst inn í skóla í Lundúnum, New York og Los Angeles. „Þeir voru hins vegar allir of dýrir fyrir mig og á endanum fann ég kvöldskóla í LA sem ég hafði efni á,“ segir Egill sem hélt utan haustið 1988, ásamt tveimur vinum sínum, Kristni Þórðarsyni og Ágústi Jakobssyni, sem báðir starfa við kvikmyndagerð í dag.
Auk þess að sækja tíma í skólanum sökkti Egill Örn sér í bækur og tímarit og gerði tilraunir. Keypti kvikmyndafilmu í gömlu Spotmagic-vélina og fikraði sig áfram. „Ég hef alltaf haft brennandi áhuga á andlitum, ekki síst svart/hvítri dramatík,“ segir hann og fær góðar undirtektir hjá Ragnari Axelssyni sem situr ennþá til borðs með okkur.
Þeir hlaða í tæknimál sem leikmaður á ekki gott með að skilja.
Egill Örn vann með námi og áður en leið á löngu var hann sjálfur farinn að kenna við skólann. „Ég fann mig fljótt í þessu námi en maður lærir ekki allt í skóla. Þar má læra hluti sem snúa að tækni en restin kemur frá manni sjálfum. Ég áttaði mig snemma á því að ég hafði þetta í mér, ég skildi mikilvægi lýsingar og það að nota ramma. Það er ekki myndavélin sem tekur myndir, heldur fólkið sem heldur á henni.“
Þegar náminu lauk var Egill Örn staðráðinn í að reyna fyrir sér ytra. Þá var bara að byrja að „banka á hurðir“, eins og hann orðar það. Kærastan hafði flutt með honum út en var snúin heim þegar hér er komið sögu og sambandi þeirra lokið.
Gott að vera áberandi í útliti
Hann segir það ekki hafa unnið gegn sér í Englaborginni að vera áberandi í útliti, hávaxinn og síðhærður, auk þess sem hann bar óvenjulegt nafn og talaði ísl-ensku, eins og hann orðar það sposkur. „Það hjálpar manni að fá tækifæri í þessum bransa að vera á einhvern hátt frábrugðinn öðrum. Það eru margir um hituna. Þegar á hólminn er komið telur það á hinn bóginn ekki neitt, kunni maður ekkert fyrir sér skipta útlitið og nafnið engu máli.“
Til að byrja með vann Egill Örn ókeypis fyrir fólk til að öðlast reynslu og koma sér á framfæri. Filman var iðulega svart-hvít enda kostaði hún minna en liturinn.
Fyrsta launaða verkefnið, hundrað dollarar á dag, var að taka upp efni fyrir einhvern náunga sem var að gera mynd um karíókí. „Þetta var kannski ekki mest spennandi verkefni í heimi, að mynda fullt af karíókí-giggum, en ég lét mér það í léttu rúmi liggja. Einhvers staðar þarf maður að byrja.“
Skömmu síðar hjálpaði Egill Örn fyrir tilviljun ókunnugum manni að flytja búferlum. Þeir tóku tal saman og þegar maðurinn heyrði að Egill væri kvikmyndatökumaður sagði hann: „En skemmtilegt, ég er leikstjóri.“
Nokkrum dögum síðar hringdi umboðsmaður leikstjórans og kvaðst vera með verkefni handa Agli Erni. „Áður en ég vissi var ég kominn upp í þotu með hljómsveitinni Fleetwood Mac og skaut hluta af myndbandi fyrir þau. Það var mikið ævintýri. Svona geta tilviljanirnar ráðið miklu.“
Aldrei feiminn við að vinna
Egill Örn byrjaði í tónlistarmyndböndum en í kjölfarið komu sjónvarpsþættir og auglýsingar. Þetta voru lítil verkefni til að byrja með en stöðug vinna og reynslan safnaðist jafnt og þétt í bankann. „Það kom sér vel að ég hef aldrei verið feiminn við að vinna. Ætli það sé ekki uppeldið, Íslendingar eru upp til hópa vinnusamt fólk,“ segir Egill Örn.
Á þessum tíma gerði hann meðal annars þátt um tónleikaferð Sykurmolanna með stórstjörnunum í U2, ásamt félögum sínum Ágústi og Kristni, og gerði tónlistarmyndbönd fyrir rapparann MC Hammer og fleiri.
Egill Örn var kominn með umboðsmann á þessum tíma og árið 1992 var honum sagt að drífa sig á kapalstöðina Showtime sem væri að leggja drög að nýjum þáttum, Red Shoe Diaries. „Ég lét ekki segja mér það tvisvar, dreif mig upp í trukkinn minn, Ford ’56 með gati í gólfinu, og hafði með mér vídeóspólu með sýnishorni af verkum mínum,“ rifjar hann upp. „Mér var vísað til herbergis og einhver maður, sem ég kunni engin skil á, setti spóluna í tækið. Tók hana hins vegar út jafnharðan og fór út úr herberginu. Mér leist ekkert á blikuna, hélt hann væri að sækja eitthvert tröll til að henda mér út. Það var ekki, maðurinn kom nefnilega fljótlega aftur með leikstjórann og framleiðandann sjálfan, Zalman King, á hælunum. Hann kvaðst fíla það sem ég væri að gera og vildi ráða mig. Þegar ég var búinn að skjóta í tvo daga kom King til mín og sagði: „You are the real deal.“ Hann sá greinilega eitthvað í mér.“
Red Shoe Diaries var vinsæl erótísk sjónvarpssería sem gekk frá 1992 til 1997. Með aðalhlutverkið fór David Duchovny sem síðar sló rækilega í gegn í X Files-þáttunum.
Egill Örn kynntist Duchovny ágætlega og einnig bróður hans, Danny, sem er leikstjóri, og vann fyrir hann í mörg ár við gerð auglýsinga.
Erótík í Prag
Árið 1994 fékk King Egil Örn til að annast kvikmyndatökur á mynd sinni Delta of Venus í Prag en hún byggðist á erótískum sögum Anaïs Nin. „Ég sagði strax já við því án þess að sjá handritið enda spennandi að fá tækifæri til að vinna að gerð kvikmyndar. Þetta var frábær reynsla fyrir bólstrarasoninn og eftir á að hyggja var ég strax farinn að hugsa eins og leikstjóri á þessum tíma – án þess að gera mér grein fyrir því. Þetta var stórt mál fyrir mig á þessum tíma enda myndin á vegum stórs fyrirtækis, New Line Cinema.“
Eftir þetta var Egill Örn mest í auglýsingum, fyrir gosdrykkjaframleiðendur, bíla, símafyrirtæki, snyrtivörur og hvaðeina. „Þarna var fullt af flottu fólki og vel borgað, auk þess sem ég var byrjaður að leikstýra auglýsingum. Samt var það ekki nóg fyrir mig. Til hvers er gott líf ef maður nær ekki að skilja neitt eftir sig?“ spyr hann.
Komið var að vatnaskilum. Egill Örn fór út til að segja sögur og nú hugðist hann láta kné fylgja kviði. „Mér hafði svo sem boðist að skjóta fullt af kvikmyndum en það var iðulega með óþekktum leikurum og leikstjórum sem voru að gera sína fyrstu mynd. Ég var hins vegar kominn á þann stað á mínum ferli að ég þurfti ekki á því að halda. Langaði með öðrum orðum upp á næsta stig. Þess vegna talaði ég við umboðsmanninn minn.“
Lægri laun – en samt ekki
Árið var 2004 og niðurstaðan varð sjónvarp. Þriðja þáttaröðin af glæpaþáttunum The Wire var að fara af stað á sjónvarpsstöðinni HBO og umboðsmaðurinn tjáði Agli Erni að aðstandendur þeirra vantaði tökumann. Skotið var á símafundi, þar sem Egill Örn var ráðinn. „Ég var ekki lengi að pakka og fljúga til Baltimore ásamt eiginkonu og börnum. Launin voru miklu lægri, í fjárhagslegum skilningi, en mér stóð á sama. Laun eru ekki bara peningar. Sjónvarpið heillaði mig strax enda möguleikarnir miklir. Á þessum tímapunkti hafði bandarískt sjónvarp af einhverjum ástæðum aldrei litið neitt sérstaklega vel út og það var spennandi að fá tækifæri til að taka þátt í að breyta því.“
Úr því Egill Örn nefnir eiginkonu og börn er ekki úr vegi að biðja hann að gera grein fyrir þeim. Kona hans er bandarísk, Denice Egilsson og börnin þrjú, Egill Cole, sautján ára, Ethan Örn, fimmtán ára og Zoe Rós, tólf ára. Allt gerðarlegir krakkar, að sögn föðurins, en Egill Cole er víst þegar vaxinn föður sínum yfir höfuð. „Þetta eru góðir krakkar og við Denice vorum sammála um að þau fengju öll bæði bandarískt og íslenskt nafn. Þau tala ekki íslensku en eru í góðu sambandi við landið, munu til dæmis koma með mér hingað næst þegar ég kem, í sumar.“
Aftur að sjónvarpinu en þar hefur Egill Örn kynnst mörgu mætu fólki. Breski leikarinn Idris Elba var ein skærasta stjarna The Wire en í lok þriðju seríunnar var hann skrifaður út úr þeim og persóna hans látin deyja. Að sögn Egils Arnar var Elba allt annað en sáttur við þær lyktir mála og furðaði sig á ákvörðun aðstandenda þáttarins í samtali þeirra. „Hvers vegna eru þeir að drepa mig?“ segir Egill Örn og hermir með býsna sannfærandi hætti eftir leikaranum. „Ég sagði honum að hafa ekki áhyggjur af þessu. Þetta væri það besta sem fyrir hann gæti komið. Hann ætti eftir að verða miklu stærri. Og það hefur sýnt sig.“
Egill Örn stýrði kvikmyndatökum á sjö þáttum af The Wire og það spurðist hratt út enda nutu þættirnir geysilegra vinsælda. Árið eftir, 2005, var hann fenginn til að sjá um tæknibrellurnar í kvikmyndinni Flight Plan, þar sem óskarsverðlaunaleikkonan Jodie Foster fór með aðalhlutverkið. „Það var mjög skemmtilegt verkefni.“
Sagði nei við Bruckheimer
Sama ár kom síðan risastórt tækifæri. Símtal kom frá aðstandendum hinna vinsælu sakamálaþátta CSI: Miami en Egill Örn lét sér fátt um finnast í fyrstu enda hafði hann ekki séð þættina á þeim tíma. Framleiðandinn sjálfur, Jerry Bruckheimer, einn valdamesti maðurinn í bandarísku sjónvarpi, hafði horft á efni eftir Egil Örn og vildi ráða hann. „Ég sagði bara pent nei við Bruckheimer,“ segir Egill Örn hlæjandi.
Skömmu síðar var kvikmyndatökustjóra þáttanna sagt upp störfum og þá sneri Bruckheimer sér aftur að Agli Erni sem lét til leiðast. Hann sér ekki eftir því. „CSI: Miami var mjög krefjandi verkefni enda hafði ég frjálsar hendur og breytti útliti þáttarins. Það var með allt öðrum hætti áður en ég kom að verkefninu og leyfi ég mér að segja einstakt á þeim tíma. Eftir því var tekið.“
Egill Örn kveðst hafa hugsað þættina eins og hann væri að gera 30 sekúndna auglýsingu, hver rammi yrði að ríghalda áhorfandanum. Hann sá fyrir sér ævintýraheim sem áhorfendur gætu glaðir dottið inn í eftir langan og strangan vinnudag í raunheimum. „Uppleggið var að þátturinn yrði klukkutíma flótti frá raunveruleikanum.“
Egill Örn var ekki búinn að vinna lengi við CSI: Miami þegar hann fékk eftirfarandi spurningu frá aðstandendum þáttanna: Viltu ekki leikstýra?
„Hvers vegna?“ spurði hann.
„Það er augljóst. Við sjáum hvernig þú vinnur,“ var svarið.
Umdeild aðalpersóna
Hann lét vitaskuld ekki segja sér það tvisvar, leikstýrði átta þáttum af CSI: Miami. Ekki nóg með það, Egill Örn varð líka fljótlega einn af framleiðendum þáttanna. Framleiddi í það heila 59 þætti.
CSI: Miami naut gríðarlegrar hylli og var um tíma einn vinsælasti sjónvarpsþáttur í heimi. Aðalpersónan, rannsóknarlögreglumaðurinn Horatio Caine, var þó alltaf umdeild enda leikin í nokkrum ýkjustíl af David Caruso. Sá stíll var ekki allra. „Það báru ekki allir virðingu fyrir aðalleikaranum, hann var í senn umdeildur og misskilinn. David Caruso er með fyndnari mönnum sem maður hittir og ætti að vera að gera kómedíur,“ segir Egill Örn.
Hann sagði skilið við CSI: Miami árið 2008 og hefur komið nálægt mörgum sjónvarpsþáttum síðan, aðallega sem leikstjóri. Má þar nefna Heroes: Destiny, Dark Blue, Chase, Arrow, Nikita, CSI: Crime Scene Investigation og Once Upon a Time.
Nýjustu verkefnin eru Gotham, Hawaii Five-0, CSI: Cyber, sem sýndur hefur verið í meira en 150 löndum, og TURN: Washington’s Spies, þar sem Íslendingnum Agli Erni var falið að móta kunna persónu, George nokkurn Washington.
Það er til marks um virðinguna sem Egill Örn nýtur vestra að honum var fyrir nokkrum árum boðið að gerast meðlimur í American Society Of Cinematographers, ASC. Það er stærsta viðurkenning og heiður sem kvikmyndatökumanni getur hlotnast. Þetta er elsta félagið í bransanum og þarna eru frægustu kvikmyndatökumenn sögunnar meðlimir, bæði fyrr og nú. Egill Örn er fyrsti Íslendingurinn sem verður meðlimur. ASC veitir árlega verðlaun, The ASC Awards, þar sem veitt eru verðlaun fyrir bestu töku bæði í sjónvarpi og kvikmyndum. Egill Örn hefur verið tilnefndur til þessara verðlauna nokkrum sinnum og er sá eini sem hefur unnið fyrir þátt þar sem hann var bæði tökumaður og leikstjóri.
Verður að vera einhver óvissa
Sem fyrr segir kemur Egill Örn til með að vinna að verkefnum hér heima á næstu misserum og langar að gera meira af því í framtíðinni. Honum bauðst á sínum tíma að taka upp Game of Thrones hér á landi en var þá búinn að ráðstafa sér í annað. „Ég er yfirleitt bókaður meira en ár fram í tímann. Veit til dæmis núna hvar ég verð í mars á næsta ári. Ég er alltaf á ferð og flugi og hefði ég haldið upp á alla flugmiðana mína myndu þeir þekja heilan sal. Annars gæti ég þess að hugsa aldrei of langt fram í tímann. Það verður að vera einhver óvissa í lífinu.“