Gengið hefur verið frá sölu á Hrútum Gríms Hákonarsonar til Bandaríkjanna. Það var framleiðslu- og dreifingarfyrirtækið Cohen Media Group sem keypti dreifingarréttinn vestanhafs en gengið var frá samningum í gær.
Óhætt er að segja að sala á myndinni hafi gengið afar vel en hún hefur á undanförnum vikum selst til um og yfir 30 landa.
Hross í oss Benedikts Erlingssonar seldist einnig í svipuðum mæli og er vert að minna á þau ummæli Variety að slík víðtæk dreifing þýddi að myndin sé komin í flokk svokallaðra “breakout” titla, þ.e. mynda sem seljast miklu víðar en gjarnan sé raunin með listrænar myndir. Sömu sögu má nú segja af Hrútum.