Þorsteinn Jónsson leikstjóri heldur áfram að tjá sig um kvikmyndir, íslenskar sem erlendar, á vef sínum en Klapptré sagði frá skrifum hans fyrir um einu og hálfu ári. Nú hafa tíu kvikmyndir bæst við, þar á meðal íslensku myndirnar XL og Vonarstræti.
Þorsteini er innihald hugleikið og áræðni kvikmyndahöfunda til að takast á við viðfangsefni sín af einurð. Hann segir til dæmis um Sveitabrúðkaup Valdísar Óskarsdóttur:
Í myndinni er að finna fullkominn lággróður fyrir fyndna sögu með skemmtilegri persónu, sem væri í skemmtilegum vanda sem skaffaði áhorfandanum eitthvað veganesti. En slíka sögu er hvergi að finna. Og þar með vantar kjarnann í þessa mynd. Þetta er ástæða þess, að maður fær lítil svör við spurningum eins og, hvað er innihaldið? Hvað gerir myndina þess virði að horfa á? Er þetta ekki bara grín og gaman? Ertu ekki að grínast?
Fyrir áhorfanda, sem biður ekki um meira, uppfyllir myndin væntingar. Fyrir hinn, sem vill sjá raunverulega ástæðu fyrir gerð myndarinnar, er hún vonbrigði. Sá sem þykir vænt um kvikmyndalistina vill meira. Hann ætlast til að fá eitthvað innihald líka í gamanmyndum. Kvikmynd án innihalds er tóm tunna.
Þessi árangur vekur til umhugsunar um tvennt. Hvernig stendur á því að leikararnir eru óaðfinnanlegir með sinn ónóga efnivið, en stjórn á höfundarverkinu og kvikmyndahliðinni er illa leyst. Íslenskir leikarar hafa búið við menntun á háu stigi í meir en áratug, en menntun í kvikmyndum hefur verið í skötulíki. Síðustu árin eru að skapast skilyrði fyrir kvikmyndamenntun í Kvikmyndaskóla Íslands. En það hefur ekki verið fram að þessu. Til viðbótar hefur á Íslandi tíðkast fyrirlitning á menntun og aðdáun á fúski og amatörisma í kvikmyndum. Og það litla sem eldri kvikmyndamenn á Íslandi hafa lært flyst ekki áfram til yngri kynslóðarinnar. Nýjir leikstjórar fá tækifæri til að busla í sama grugginu og gera sömu mistökin. Niðurstaðan er að við fáum nýja og nýja kynslóð að herma eftir hinum ýmsu bylgjum sem eru í tísku í útlöndum á hverjum tíma. Við sköpum ekki okkar stíl né okkar eigin menningarlegu einkenni.
Og Þorsteinn hefur líka ýmsar athugasemdir við Vonarstræti Baldvin Z:
Hitt er svo annað mál að allar sögurnar þrjár, Eikar, Móra og Sölva, hafa sameiginleg einkenni, þær eru eins og afsakanir fyrir rangri hegðun. Eik er mella. Það er vegna þess að afi hennar misnotaði hana. Móri er fyllibytta. Það er vegna þess að hann fór að rífast við eiginkonuna og stúlkubarn þeirra hljóp út á veikan ís á tjörninni. Sölvi er (eða verður) fjárglæframaður. Það er vegna þess að hann hélt/var plataður til að halda framhjá. Fyrri tvær eru gamalkunnar og sumir mundu flokka þær sem klisjur, en sú síðasta er að minnsta kosti óvenjuleg. En Þessar sögur eru eiginlega fremur bakgrunnur heldur en saga. Segja má að söguna sjálfa vanti.
Þegar söguna og efnið vantar í handritið er erfitt að gera kröfu til leikara. Því er að mörgu leyti aðdáunarvert hversu vel Þorsteinn Backman og Hera Himarsdóttir komast frá sínum hlutverkum á sjarmanum þar sem handritið hjálpar þeim ekki.
Vonbrigðin yfir að geta ekki lifað sig inn í söguna líða hjá á einum degi og þá er hægt að hugsa um hvernig þetta gæti verið öðruvísi. Sagan liggur í baráttu og uppgjöri Eikar við afa sinn. Hún er í útfærslu myndarinnar afgreidd í 1) tveimur reiðiköstum Eikar og flótta í framhaldi af því og 2) í heimsókn hennar á sjúkrahúsið, þegar engin viðureign getur farið fram. Ef Eik hefði mætt afa sínum framar í myndinni og við hefðum kynnst honum sem ábyrgum borgara og fjölskyldumanni og við hefðum fengið söguna um viðbrögð hans og kannski tilraunir pabba og mömmu til að sópa öllu undir teppið og almennilegt uppgjör, þá væri þetta mynd með slagkrafti og meiningu, sem fengi áhorfandann til að lifa sig í gegnum söguna og verða einhverju nær í meðfylgjandi umfjöllun. Við þetta myndi saga góða Móra verða áhrifameiri, persónan sem fljótt á litið virðist líklegur til að vera það sem afinn er. Svo ekki sé nú talað um ef framlag hans í sögunni myndi hjálpa Eik í stóra vandanum, en peningar gera það held ég ekki. Handritið hefði getað farið í gegnum eina lagfæringu til viðbótar og þá væri á ferðinni mynd í háum (jafnvel hæsta) gæðaflokki, því margt er vel gert.
Loks tekur hann XL Marteins Þórssonar fyrir og segir meðal annars þetta:
Það er hægt að velta fyrir sér hvað eigi að vera innihald þessarar kvikmyndar. Er það einhvers konar pólitík eða siðferðileg gildi eða lífsskoðanir? Með góðum vilja getur maður spurt, hvort þarna sé um að ræða ádeilu á neyslumenninguna. En til þess að svo sé fá söluhlutirnir einkennilega athygli og aðdáun. Bíl aðalpersónunnar er meira að segja stillt upp eins og í auglýsingaljósmynd og símar og vínflöskur, sígarettur og annað eftirlæti þessa fólks í upphöfnum bjarma allan tímann. Á mig orkar þetta eins og auglýsing á þessum neysluvörum og sukkinu þeim tilheyrandi. Ég fæ þá tilfinningu að einhver sé að hvetja mig til að vera eins og þetta fólk. Uppeldið og reynslan hindra mig í að gangast inn á þá áskorun. Þetta orkar svipað og þegar dælt er yfir mann auglýsingum frá Vífilfelli. Mann fer að langa í kók, þó maður hafi enga þörf fyrir það, vilji það ekki og viti að í því er alls konar óþverri.
Semsagt maður er engu nær. Hvað er það eiginlega sem áhorfandinn á að fá út úr þessari sýningu? Einhver mundi segja klám fyrir listaelítuna. Þarna er hægt að horfa á klám af ýmsum gerðum undir því yfirskyni að maður sé að horfa á listbrögð. Mér finnst það ófullnægjandi skýring, þegar elítan getur sótt sér það klám sem henni líkar á netinu. Er þetta fyrir fólk sem hefur þá kennd að sækjast í að horfa á samfarir með ókunnugu fólki í bíósal? Hver er málstaðurinn sem höfundurinn er að verja? Er það neyslan og sukkið? Hvað er þess virði að segja frá því? Hvað er það merkilegasta sem lífið hefur upp á að bjóða? Er verið að brjóta einhverja múra? Vantar eitthvað upp á frelsið til að nota klám undir yfirskyni listrænnar upplifunar? Mér er ekki kunnugt um það. En þegar menn nýta sér það, færi líka vel á því að það ætti sér einhvern stað í sögu og efni myndarinnar.
Í myndinni er að finna „listræn” brögð, þeas brögð sem oft er beitt í tilraunamyndum og „listrænum” myndum. Það er hoppað aftur og fram í tíma, og þarna er samtalstækni eins og í vönduðum kvikmyndum. Senan milli Leifs og ráðherrans er ágætt dæmi. Fín sena ef hún væri hluti af sögu. Það er beitt skapandi kvikmyndatöku og skapandi hljóðsetningu. Það er ekkert út á leik Ólafs Darra að setja með þennan fátæklega eintóna vilja persónunnar að vinna úr. Myndin er á háu plani ef talað er um kvikmyndatöku og hljóðsetningu. Í tónlistinni er einnig margt vel gert.
En nægja tæknileg gæði og utanaðkomandi tónlist til að gera kvikmynd að menningu, ef allt annað skortir? Ég segi nei.
Svo er önnur hætta, vegna þess að hluti þjóðarinnar gerir kröfur til kvikmynda, hvort sem þær eru íslenskar eða erlendar. Kröfuharðir áhorfendur gætu leitt þessa stefnu hjá sér og hugsað sem svo: Svona eru íslenskar kvikmyndir, myndasukk með engu efni og engri sögu. Ég er öðruvísi þenkjandi og við eigum ekki samleið. Það væri dapurleg niðurstaða.
Reynslan sýnir að áhrifamiklu sögurnar hafa byggingu, þar sem vissum grunnþörfum er fullægt eða ákveðin skilyrði eru uppfyllt. Kvikmyndir þurfa að hafa sögu. Sagan þarf að fjalla um efni og sagan er einhvers konar vinkill á efnið eða flytur með sér skilaboð eða meiningu sem afleiðingu af þeim atburðum sem sagan greinir frá. Saga þarf að hafa aðalpersónu sem stendur frammi fyrir stóru spurningunni, sem efnið fjallar um. Aðalpersónan lendir eða kemur sér í þær aðstæður að hann þarf að gera eitthvað í málinu, fara í baráttu fyrir lausn vandans eða gátunnar. Lok sögunnar er einhvers konar mat á útkomunni eða lærdómar af baráttunni eða viðbrögð hinna við baráttu hetjunnar. Rannsóknir á söguþræði kvikmynda sýna að þetta er skilyrði þess að sagan geti haft tilfinningaleg áhrif. Áhorfandinn setur sig í spor hetjunnar og fer með henni í gegnum baráttuna og kemur út reynslunni ríkari og fær að launum niðurstöður hetjunnar, án þess að hafa þurft að fara í gegnum erfiðleikana og hætturnar, sem geta verið umtalsverðar. Þessar aðferðir eru ekki tilviljun. Þær hafa verið reyndar frá því að maðurinn byrjaði að segja sögur. Þær hafa verið fullkomnaðar í ýmsum greinum bókmennta og kvikmynda og líkt og með bulluhreyfilinn hefur ekkert slegið þær út.
Það er allt í lagi að reyna eitthvað nýtt. Menn gera tilraunamyndir og gengur misvel. Ég held að við séum ekki að upplifa slíka tilraun hér.
Ein nagandi hugsun fylgdi mér út úr bíósalnum. Vonandi er hún ekki rétt. Að það sé skyldleiki með aðferð höfundarins og aðferð Leifs í lífinu, stundum kallað alkohólismi. Aðferðinni má lýsa með einu orði – flótti. Leifur er á flótta undan lífinu og sjálfum sér. Kvikmyndahöfundurinn er á flótta frá hlutverki sínu, sem er það skapandi starf að búa til kvikmynd með áhugaverðri persónu í skemmtilegri sögu með mikilsverðu innihaldi (meiningu) um eitthvert efni. Meiningin er óljós, ekki verður séð hvert efnið er, söguna vantar og persónan er óspennandi. Ástæðan fyrir því að manni ekki aðeins leiðist heldur líður illa er sú, að með því að sitja kyrr er maður meðvirkur.