Óskarsverðlaunahafar með námskeið á Reykjavík Shorts & Docs

Laura Poitras heimildamyndasmiður og stjórnandi CitizenFour.
Laura Poitras heimildamyndasmiður og stjórnandi CitizenFour.

Óskarsverðlaunahafarnir Laura Poitras og Lisa Fruchtman verða með námskeið, svokallaða masterclass á Reykjavík Shorts & Docs hátíðinni sem haldin verður í Bíó Paradís 9.-12. apríl. Þær munu einnig taka þátt í spurt og svarað að lokinni sýningu á myndum sínum CitizenFour og Sweet Dreams.

CitizenFour fjallar um uppljóstrarann Edward Snowden og persónunjósnir Þjóðaröryggisstofnunar Bandaríkjanna (NSA) en Poitras var ein þeirra fyrstu sem Edward setti sig í samband við í tengslum við uppljóstranir sínar. CitizenFour hefur vakið gríðarlega mikla athygli og unnið til 32 verðlauna á kvikmyndahátíðum víða um heim, m.a. bresku BAFTA verðlaunin og nú síðast Óskarsverðlaunin fyrir bestu heimildamyndina.  Myndin verður sýnd laugardaginn 11. apríl kl. 20:00 í Bíó Paradís og að lokinni sýningu verður spurt & svarað með Poitras. Sýning myndarinnar er í samstarfi við Miðstöð rannsóknarblaðamennsku á Íslandi.

Poitras verður auk þess með námskeið í kvikmyndagerð laugardaginn 11.apríl frá kl. 15-17:00 í Bíó Paradís, þar sem hún mun fjalla um kvikmyndagerð og ræða kvikmyndir sínar þrjár sem fjalla allar um eftirmála 11. september; My Country, My Country (2006) sem fjallar um veru bandaríska hersins í Írak en fyrir hana hlaut hún Óskarsverðlaunatilnefningu, The Oath (2010) sem var tilnefnd til tveggja Emmy verðlauna og CitizenFour.

Heimildamynd Lisu Fruchtman og Rob Fruchtman, Sweet Dreams fjallar um kjark kvenna í Rúanda og baráttuvilja þeirra til að gera samfélag sitt betra eftir fjöldamorðin í landinu 1994. Með fyrirgefninguna að leiðarljósi stofna þær trommarahóp eingöngu fyrir konur og síðar meir fyrstu ísbúðina í Rúanda. Útkoman er einstök og leikstjórar myndarinnar, Lisa og Rob Fruchtman varpa nýju ljósi á stöðuna í Rúanda og þá framtíð sem íbúar landsins eru að byggja sér.

Lisa mun svara spurningum áhorfenda að loknum sýningum myndarinnar föstudaginn 10. apríl kl. 20 og sunnudaginn 12. apríl kl. 18:00.

Lisa vann til Óskarsverðlauna fyrir klippingu á myndinni The Right Stuff (1983) og var tilnefnd til sömu verðlauna fyrir klippingu á Apocalypse Now (1979) og The Godfather III (1991), en auk þess hefur hún hlotið tilnefningar fyrir fjölda annarra verka. Lisa verður með masterclass í klippingu kvikmynda sunnudaginn 12. apríl frá 15:00-17:00 í Bíó Paradís.

Þetta er í þrettánda sinn sem Reykjavík Shorts & Docs hátíðin er haldin. Upplýsingar um allar myndir hátíðarinnar og sýningartíma má finna á shortsdocsfest.com.

Miðasala á myndir hátíðarinnar fer fram í Bíó Paradís, en frítt er á námskeið þeirra Poitras og Fruchtman. Gestum er ráðlagt að mæta tímanlega til að fá sæti.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR