Guðný Halldórsdóttir: Atlaga að íslenskri kvikmyndamenningu

Leikstýran og handritshöfundurinn Guðný Halldórsdóttir, eða Duna eins og hún er gjarnan kölluð.
Leikstýran og handritshöfundurinn Guðný Halldórsdóttir, eða Duna eins og hún er gjarnan kölluð.

Guðný Halldórsdóttir leikstýra heldur því fram að í kvikmyndamiðstöð hafi konur ekki sömu tækifæri og karlar sem leikstjórar og handritshöfundar. Þannig hafi það verið undanfarin ár og þetta sé vegna þess að ekki megi opna munninn í þeirri stofnun og gagnrýna vinnubrögðin, því þá sé alveg gefið að þér verði ýtt úr biðröðinni og steinn lagður í götu þína.

Þetta kemur fram í grein hennar í Kjarnanum.

Guðný gagnrýnir Laufeyju Guðjónsdóttur forstöðumann Kvikmyndamiðstöðvar harðlega og segir meðal annars:

Þetta hlýtur að skrifast á þann sem er forstöðumaður kvikmyndamiðstöðvar og yfirmann hans, sem er menntamálaráðherra. Því ófáar konur hef ég hitt með handrit undir höndum, sumar hverjar grátandi á leið út úr kvikmyndamiðstöð og ég á leiðinni inn – til þess eins að vera fleygt út aftur og handritinu á eftir mér.

Forstöðumaður sjóðsins hefur setið lengst allra í embætti  eða frá 2003 og þá hófust fyrir alvöru erfiðleikar kvenleikstjóra í íslenskri kvikmyndagerð. Á tíu ára tímabili fóru 13% af peningum sjóðsins í konur og 87% til karla.

Og Guðný bætir við:

Er þá ekki eðlilegast að manneskjan sem sat í brúnni á meðan þessi skekkja varð til – biðjist afsökunar og gefi starfið öðrum eftir. Því þetta er atlaga að íslenskri kvikmyndamenningu.

Guðný hefur einnig mikið að athuga við störf kvikmyndaráðgjafa:

Forstöðumaðurinn hefur með sér ráðgjafa, svokallaða „konsúlenta“ með reynslu úr faginu. Þeir lesa yfir handrit og eiga að koma inn með faglegar og uppbyggjandi hugmyndir. Eða þannig var það embætti hugsað. En í stað þess er fengið fólk sem hefur ýmist skrifað eitt handrit á lífsleiðinni, staldrað stutt við sjónvarpi, eða hefur hrökklast út kvikmyndagerð af gildri ástæðu.

Margir þessara konsúlenta búa erlendis, eru lítt tengdir íslenskum raunveruleika. Í mörgum tilfellum eru þeir farnir að skrifa handritin fyrir mann upp á nýtt – eins og þeir séu mælikvarði allra hluta í heiminum og að þeir hafi verið ráðnir í starfið til þess eins að káma út eins mörg verkefni og hægt er með fingraförum sínum og steypa í sama mót.

Þetta er sú hindrun sem allir leikstjórar verða að klífa, eigi handrit þeirra að verða að veruleika. En á endanum er forstöðumaðurinn ævinlega sá aðili sem ræður hvaða myndir eru gerðar – eftir að konsúlentar skila sínu mati. Hann er einráður um það, líkt og að einn maður réði því eftir hverja og hvaða bækur kæmu út á ári hverju.

Greinina í heild sinni má lesa hér: Atlaga að íslenskri kvikmyndamenningu | Kjarninn.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR