Borgríki 2 Ólafs de Fleur átti ágæta frumsýningarhelgi, en alls sáu myndina 4.224 manns frumsýningarhelgina ef forsýningar eru meðtaldar. Myndin situr í efsta sæti aðsóknarlista SMÁÍS. Þetta er þriðja stærsta opnun íslenskrar kvikmyndar á árinu, enVonarstræti og Lífsleikni Gillz áttu stærri frumsýningarhelgar.
Þetta er og vel yfir opnunarhelgi Borgríkis í október 2011 en þá helgi sáu 3.220 gestir myndina. Alls sáu 16.424 fyrstu Borgríkismyndina í bíó.
Afinn er nú í fjórða sæti eftir fjórðu sýningarhelgi. Alls hafa 11.836 manns séð myndina frá upphafi, þar af alls 2.116 síðastliðna viku.
París norðursins er nú í 15. sæti aðsóknarlistans eftir sjö vikur í sýningum. Alls hafa 11.252 gestir séð myndina hingað til, en þar af komu alls 429 í vikunni.
Vonarstræti er áfram í 22. sæti á lista SMÁÍS eftir 23 vikur í sýningum. Alls sáu myndina 192 manns s.l. viku. Samtals hefur myndin fengið 47.928 gesti frá því sýningar hófust í maí.
AÐSÓKN VIKUNA 13.-19. okt. 2014:
VIKUR | MYND | AÐSÓKN | HEILDARAÐSÓKN |
---|---|---|---|
Ný | Borgríki 2 | 4.224 | 4.224 |
4 | Afinn | 2.116 | 11.836 |
7 | París norðursins | 429 | 11.252 |
23 | Vonarstræti | 192 | 47.928 |