Vonarstræti í leikstjórn Baldvins Z og stuttmyndinrar Sjö bátar eftir Hlyn Pálmason og Tvíliðaleikur eftir Nönnu Kristínu Magnúsdóttur verða fulltrúar Íslands á Toronto hátíðinni sem hefst á fimmtudag.
Vonarstræti tekur þátt í „Discovery“ dagskrá hátíðarinnar og bæði Sjö bátar og Tvíliðaleikur taka þátt í flokknum Short Cuts International.
Sjö bátar fjallar um mann sem berst fyrir lífi sínu úti á opnu hafi. Hann er umkringdur af sjö bátum.
Hlynur Pálmason leikstýrir og skrifar handritið að Sjö bátum. Myndin var tekin upp í Skarðsfirði á Austurlandi. Aðalframleiðendur eru Anton Máni Svansson og hin dönsku Julie Waltersdorph Hansen og Per Damgård Hansen. Framleiðandi er Rúnar Rúnarsson. Í aðalhlutverki er Einar Örn Thorlacius. Kvikmyndataka er í höndum Maria von Hausswolff og Julius Krebs Damsbo klippir myndina.
Tvíliðaleikur segir frá lesbíu í miðaldrakrísu sem ákveður að fylgja hjartanu og bregða út af vananum en verður fyrir vonbrigðum með ákvörðun sína.
Nanna Kristín Magnúsdóttir leikstýrir, skrifar handritið að og framleiðir Tvíliðaleik. Í aðalhlutverkum eru Guðrún Gísladóttir, Svandís Dóra Einarsdóttir, Kristbjörg Kjeld, Margrét Helga Jóhannsdóttir og Jóhann Sigurðarson. Kvikmyndataka er í höndum Árna Filippussonar, Urður Hákonardóttir semur tónlist myndarinnar og Valdís Óskarsdóttir og Sigurður Eyþórsson klippa myndina.
Þá mun Vera Sölvadóttir taka þátt á TIFF Talent Lab með Veislu, nýtt verkefni sitt í þróun. Hátíðin fer fram í Toronto í Kanada frá 4. til 14. september.