Fáar konur taka þátt í gerð þeirra fjögurra kvikmynda sem teknar verða á Íslandi í sumar með styrkjum frá Kvikmyndamiðstöð Íslands. Í samtali við RÚV segir formaður WIFT (konur í kvikmyndum og sjónvarpi) það þjóðfélagsmein að konur geti ekki speglað sig í íslenskum kvikmyndum.
„Ég veit til þess að núna í ár sóttu fjórar af okkar efnilegustu kvikmyndagerðarkonum um handritsstyrk til þess að gera kvikmynd í fullri lengd. Þær fengu jákvætt svar frá ráðgjafa en peningarnir voru búnir í sjóðnum, þannig að þær fengu ekki styrk. Á sama tíma er verið að gera fjórar bíómyndir í sumar, sem er leikstýrt af körlum með karla í öllum aðalhlutverkum,“ segir Dögg Mósesdóttir, formaður félagsins Konur í kvikmyndum og sjónvarpi. Aðeins þrjár konur eru á meðal 21 handritshöfundar, leikstjóra, framleiðanda og aðalleikara þeirra fjögurra kvikmynda sem teknar verða víðs vegar um Ísland í sumar. Bíómyndirnar fjalla allar að miklu leyti um samskipti karla, líkt og lesa má um í fréttatilkynningu fráKvikmyndamiðstöð Íslands.
Ísland er það eina af Norðurlöndunum þar sem nær öll framleiðsla kvikmynda er ríkisstyrkt. Þrátt fyrir það gengur konum illa að komast að við framleiðslu kvikmyndar í fullri lengd. Dögg telur að jafnvel ætti að eyrnamerkja hluta Kvikmyndasjóðs verkefnum eftir konum. Dæmin sanni að enginn skortur sé á sögum eftir þær. Kalla verði eftir þeim með skipulegum hætti, líkt og hafi gefist vel annars staðar á Norðurlöndunum. „Þetta er svo mikið þjóðfélagsmein, að konur sjáist ekki og geti ekki speglað sig í íslenskum kvikmyndum. Þetta er bara alvarlegt mál. Það þarf að gera eitthvað róttækt í þessu því þetta breytist ekki af sjálfu sér,“ segir hún.
Sjá nánar hér: Vilja aukin framlög til kvikmynda kvenna | RÚV.