Tökur á fyrstu bíómynd Björns Hlyns Haraldssonar, Blóðberg, hefjast 5. ágúst. Rakel Garðarsdóttir og Ágústa M. Ólafsdóttir framleiða fyrir Vesturport og í samvinnu við 365 og Pegasus.
Hilmar Jónsson, Harpa Arnardóttir, Hilmar Jensson, Þórunn Arna Kristjánsdóttir, María Heba Þorkelsdóttir og Sveinn Ólafur Gunnarsson fara með helstu hlutverk. Erlendur Cassata myndar og Lilja Ósk Snorradóttir hjá Pegasus er yfirframleiðandi.
Aðstandendur lýsa verkinu svona:
Hér er á ferðinni frábært handrit sem segir frá hinni hefðbundnu íslensku fjölskyldu sem á yfirborðinu er nánast fullkomin. Fjölskyldufaðirinn bjargar samlöndum sínum með skrifum á sjálfshjálparbókum á meðan móðirin bjargar fólki á spítalanum þar sem hún vinnur sem hjúkrunarkona. En hvorugt þeirra hefur kjark til að bjarga sjálfu sér. Þau lifa og hrærast í lífi leyndarmála sem einn daginn banka uppá.. og þá breytist allt.
Blóðberg er persónuleg saga fjölskyldu þar sem við fylgjum meðlimum hennar í gegnum strembið ferðalag sem er hlaðið ást, sorg og gleði. Áhorfandinn tekur þátt í ferðalaginu og upplifir þrautir og sigra fjölskyldunnar og situr á endanum eftir með aðra sýn á manneskjurnar en haldið var af stað með í upphafi. Þessi saga hreyfir við áhorfandanum og er góður samfélagslegur spegill á nútímann.