Eva Sigurðardóttir sigraði pitch-keppni ShortsTV á Cannes

Eva Sigurðardóttir pitchar í Cannes.
Eva Sigurðardóttir pitchar í Cannes.

Eva Sigurðardóttir bar sigur úr býtum í „pitch“ keppni ShortsTV sem fram fór á yfirstandandi Cannes hátíð. Tilkynnt var um sigurvegarann í Cannes í dag, en verðlaunin nema 5.000 evrum (um 770.000 krónum). Keppnin fór þannig fram að hópur fólks sagði frá hugmyndum sínum að stuttmyndum og gat almenningur síðan valið fimm bestu úr hópnum en dómnefnd valdi sjálfan sigurvegarann.

Handrit Evu kallast One of Them og er byggt á hennar eigin reynslu sem unglingur í Kópavoginum. Sagan er um stúlku sem lögð er í einelti en ákveður að gera eitthvað í málunum.

Eva segir meðal annars um efnið:

Ég var lögð mikið í einelti heima, og þess vegna flutti ég erlendis þegar ég var 14 ára. Þessi mynd er því semsagt um síðasta árið mitt á íslandi. En það er samt líka mikill skáldskapur í handritinu.

Ég hef verið að vinna með henni Selmu Björk Hermannsdóttur, 16 ára gamalli stelpu sem lagt var í einelti og hefur rætt þetta opinberlega á síðasta ári. Hún hefur verið að lesa yfir handritið, og hefur verið frábært að fá góða punkta frá henni um það hvernig það er að vera unglingur í dag – ýmislegt hefur breyst síðustu 15 árin síðan ég var 15 ára!

Eva framleiðir myndina með Ragnheiði Erlingsdóttur sem framleiddi XL, en skrifar sjálf handrit og leikstýrir. Stefnt er á tökur líklegast í byrjun 2015.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR