Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra gagnrýnir harðlega þá ákvörðun hafnfirskra bæjaryfirvalda að auglýsa eftir áhugasömum aðila til að taka að sér rekstur Bæjarbíós. Ráðherra segist ekki geta undirritað nýjan samning um starfsemi Kvikmyndasafns Íslands í húsinu.
RÚV fjallar um málið á vef sínum. Þar segir:
Bæjarráð Hafnarfjarðar samþykkti á fundi sínum í lok janúar að veita Kvikmyndasafni Íslands áframhaldandi stuðning til næstu þriggja ára og tryggja safninu um leið endurgjaldslaus afnot af Bæjarbíói í tengslum við sýningarhald sitt.
Jafnframt var ákveðið að auglýsa eftir áhugasömum aðila til að taka að sér rekstur Bæjarbíós í því skyni að nýta húsakost þess sem best og gefa fjölbreyttri menningarstarfsemi rými í bíóinu á tímum sem ekki væru nýttir af Kvikmyndasafninu.
Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra, er óánægður með þessi vinnubrögð Hafnarfjarðar og segir í bréfi sínu til bæjarins að þetta hafa verið gert án samráðs við ráðuneytið. Bréfið var tekið fyrir á fundi bæjarráðs í morgun og var bæjarstjóra falið að svara því.
Fram kemur í bréfi Illuga að með umræddum samningi hætti Bæjarbíó að vera heimili Kvikmyndasafnsins. Þar með séu upprunalegar forsendur fyrir flutningi þess í Hafnarfjörð orðnar að engu og allt samstarf þess við önnur kvikmyndasöfn í Evrópu í uppnámi. Þetta geti komið í veg fyrir samstarf safnsins við eigendur sambærilegra kvikmyndahúsa sem gætu meðal annars leitt til þess að styrkir fengjust til endurbóta á Bæjarbíói úr EEA-sjóðnum.
Illugi kveðst því ekki reiðubúinn til að undirrita þennan samning á grundvelli fyrirliggjandi samningsdraga „enda hafa þau drög verið lögð fyrir menningar-og ferðamálanefnd og síðan bæjarráð Hafnarfjarðar án samráðs við safnið eða ráðuneytið.“ Hann segist vera reiðubúinn til að skrifa undir samning á grundvelli samningsdraga sem rædd voru á fundi ráðuneytisins og bæjaryfirvalda um miðjan janúar.
Illugi segir í bréfi sínu til bæjaryfirvalda að verði ekki af samningum ætli ráðuneytið að óska eftir því að Kvikmyndasafn Íslands leiti annarra leiða til að sinna hlutverki sínu á sviði kvikmyndasýninga. Safnið muni þá einnig fjarlægja eigur sínar úr húsnæði Bæjarbíós að lokinni sýningardagskrá vetrarins þannig að bærinn geti afhent það væntanlegum rekstaraðila til afnota.
Talsvert hefur verið þrefað um rekstur Kvikmyndasafns Íslands í Bæjarbíói. Meirihluti menningar-og ferðamálanefndar Hafnarfjarðarbæjar mælti með því í apríl á síðasta ári að samningur við safnið yrði ekki framlengdur heldur vildi að gengið yrði til viðræðna við Gaflaraleikhúsið um rekstur leikhúss í safninu.
Bæjarráð fól bæjarstjóra í framhaldinu að ganga til viðræðna við Gaflaraleikhúsið en áréttaði jafnframt að tekið yrði tillit til þarfa Kvikmyndasafnsins við þessa útfærslu. Erlendur Sveinsson,forstöðumaður Kvikmyndasafnsins, skrifaði þá bæjarráði bréf og sagði sýningum Kvikmyndasafnsins sjálfhætt – safnið ætti enga samleið með leikhúsrekstri.
Sjá nánar hér: Ráðherra hótar að flytja Kvikmyndasafnið | RÚV.