Reykjavik Shorts & Docs á vegum úti

RS&D-on-the-road-cropStutt- og heimildamyndahátíðin Reykjavík Shorts&Docs Festival fer á flakk og verður með sýningar í Nýheimum, Höfn í Hornafirði, dagana föstudaginn 14. og laugardaginn 15. mars nk. Sýndar verða íslenskar og erlendar stutt- og heimildamyndir báða daganna. Sýningarnar eru fríar og öllum opnar.

Fjórir sýningarflokkar verða sýndir í Nýheimum. Þeir eru;

– Ungt fólk:  Íslenskar stuttmyndir
– Konur um konur: Stutt- & heimildamyndir
– Jaðaríþróttir: Heimildamyndir
– Úr alfaraleið: Heimildamyndir og stuttmynd

Auk þess verða umræður um kvikmyndagerð á Kaffi Horninu laugardaginn 15. mars kl. 15:00. Þar munu leikstjórinn Eyþór Jóvinsson (Sker), leikarinn Ársæll Níelsson (Sker), Dögg Mósesdóttir kvikmyndagerðarkona og stjórnandi Northern Wave Film Festival og Brynja Dögg Friðriksdóttir, kvikmyndagerðarkona og ein skipuleggjenda Reykjavík Shorts & Docs Festival ræða um kvikmyndagerð á Íslandi frá ýmsum sjónarhornum og svara spurningum gesta. Viðburðurinn er frír og öllum opinn.

Næsta hátíð í byrjun apríl

Reykjavík Shorts&Docs Festival verður haldin 12. sinn í Bíó Paradís og Stúdentakjallaranum daganna 3.-9. apríl næstkomandi.  Að venju er áherslan á innlendar og erlendar stutt- og heimildamyndir, en auk kvikmyndasýninga verða pallborðsumræður, vinnusmiðjur og fjöldi annarra viðburða á hátíðinni. Dagskrá 12. hátíðar Reykjavík Shorts&Docs í Bíó Paradís verður kynnt á næstu dögum. Hátíðin verður eins og áður segir í Bíó Paradís og Stúdentakjallaranum 3.-9. apríl nk.

Lesendur Movie Maker Magazine völdu Reykjavík Shorts & Docs Festival meðal fimm svölustu stuttmyndahátíða heims nýverið. Kosningin fór af stað sl. sumar og niðurstöðurnar voru kynntar í nóvember. Fjórar aðrar stuttmyndahátíðir deila titlinum með Reykjavík Shorts & Docs Festival en það eru DC Shorts Film Festival, Couch Fest Films, Miami Short Film Festival og The Smalls Film Festival.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR