Stutt- og heimildamyndahátíðin Reykjavík Shorts&Docs Festival fer á flakk og verður með sýningar í Nýheimum, Höfn í Hornafirði, dagana föstudaginn 14. og laugardaginn 15. mars nk. Sýndar verða íslenskar og erlendar stutt- og heimildamyndir báða daganna. Sýningarnar eru fríar og öllum opnar.
Fjórir sýningarflokkar verða sýndir í Nýheimum. Þeir eru;
– Ungt fólk: Íslenskar stuttmyndir
– Konur um konur: Stutt- & heimildamyndir
– Jaðaríþróttir: Heimildamyndir
– Úr alfaraleið: Heimildamyndir og stuttmynd
Auk þess verða umræður um kvikmyndagerð á Kaffi Horninu laugardaginn 15. mars kl. 15:00. Þar munu leikstjórinn Eyþór Jóvinsson (Sker), leikarinn Ársæll Níelsson (Sker), Dögg Mósesdóttir kvikmyndagerðarkona og stjórnandi Northern Wave Film Festival og Brynja Dögg Friðriksdóttir, kvikmyndagerðarkona og ein skipuleggjenda Reykjavík Shorts & Docs Festival ræða um kvikmyndagerð á Íslandi frá ýmsum sjónarhornum og svara spurningum gesta. Viðburðurinn er frír og öllum opinn.
Næsta hátíð í byrjun apríl
Reykjavík Shorts&Docs Festival verður haldin 12. sinn í Bíó Paradís og Stúdentakjallaranum daganna 3.-9. apríl næstkomandi. Að venju er áherslan á innlendar og erlendar stutt- og heimildamyndir, en auk kvikmyndasýninga verða pallborðsumræður, vinnusmiðjur og fjöldi annarra viðburða á hátíðinni. Dagskrá 12. hátíðar Reykjavík Shorts&Docs í Bíó Paradís verður kynnt á næstu dögum. Hátíðin verður eins og áður segir í Bíó Paradís og Stúdentakjallaranum 3.-9. apríl nk.
Lesendur Movie Maker Magazine völdu Reykjavík Shorts & Docs Festival meðal fimm svölustu stuttmyndahátíða heims nýverið. Kosningin fór af stað sl. sumar og niðurstöðurnar voru kynntar í nóvember. Fjórar aðrar stuttmyndahátíðir deila titlinum með Reykjavík Shorts & Docs Festival en það eru DC Shorts Film Festival, Couch Fest Films, Miami Short Film Festival og The Smalls Film Festival.