Kosningu Akademíumeðlima um Edduverðlaunin er nú lokið en úrslit verða kunngjörð í beinni útsendingu Stöðvar 2 (opin dagskrá, einnig á visir.is) á laugardagskvöld.
Valspenna
Kosningin er spennandi í ár fyrir þá sök að handhafi Eddu fyrir bíómynd ársins blasir ekki afgerandi við. Tvær myndanna sem tilnefndar eru koma sterklega til greina; Hross í oss og Málmhaus. Ólíklegra verður að teljast að XL Marteins Þórssonar komi til greina, þrátt fyrir að vera að mörgu leyti mjög áhugaverð tilraun í kvikmyndagerð.
Málmhaus er með fleiri tilnefningar, eða 16 talsins, meðan Hross í oss fékk 14 tilnefningar. XL kemur reyndar fast á eftir með 11 tilnefningar og því ekki ólíklegt að hún hirði einhver verðlaun, t.d. fyrir leik Ólafs Darra, klippingu og kvikmyndatöku Bergsteins Björgúlfssonar sem reyndar er einnig tilnefndur fyrir Hross í oss. Bergsteinn skilar frábærri vinnu í báðum þessum gerólíku myndum.
Málmhaus og Hross í oss eru báðar afar frambærilegar myndir. Sú fyrrnefnda sterk uppgjörs- og þroskasaga með frábærri frammistöðu leikhópsins þar sem Þorbjörg Helga Þorgilsdóttir er í broddi fylkingar – sú seinni framsett áreynslulítið á unaðslega sjónrænan hátt og full af kolsvörtum húmor og afdráttarleysi, með skvettu af blóðheitri rómantík.
Farsæll Ragnar
Málmhaus býr að því að leikstjórinn og handritshöfundurinn, Ragnar Bragason, hefur átt farsælan feril í kvikmyndagerð og tengist því bransanum (kjósendunum) sterkum böndum (já, ég er að segja að það sé faktor hvort sem okkur líkar betur eða verr). Hún hefur hinsvegar ekki náð í gegn hjá áhorfendum af einhverjum ástæðum þrátt fyrir afar góð viðbrögð gagnrýnenda.
Sigurför Hrossanna
Óhætt er að segja að Hross í oss hafi farið sigurför um heimsbyggðina síðan hún var opinberuð á alþjóðlegum vettvangi í San Sebastian á Spáni í lok september. Leitun er að kvikmynd sem hlaut jafnmörg alþjóðleg verðlaun á síðasta ári og umsagnir um myndina í erlendum miðlum hafa verið glimrandi góðar. Íslenskir gagnrýnendur tóku henni einnig fagnandi en vissulega hefðu áhorfendur mátt vera fleiri (hún er komin yfir 14.000 manns í aðsókn sem er aðeins undir aðsóknarmeðaltali síðustu tíu ára).
Ofurlítil og óábyrg spá
Vera má að akademían/bransinn kjósi að verðlauna hina sterku frumraun Benedikts Erlingssonar, það er ögn líklegra ef ég gerist spámaður. Væntanlega fer þó svo að verðlaunin dreifast nokkuð milli myndanna og þá þannig að Málmhaus taki flesta leikaraflokkana og jafnvel handrit en Hross í oss fái bíómynd ársins, leikstjórn og töku. Ég leyfi mér svo að vona að XL fái að minnsta kosti klippiverðlaunin og Ólafur Darri ætti einnig að fá Eddu fyrir aðalhlutverkið. Myndin á einnig góðan séns í tónlistinni en fær harða samkeppni frá Hrossunum.
Og fyrst ég er byrjaður: spái að Orðbragð verði skemmtiþáttur ársins, Ferðalok ætti að hirða menningarþátt ársins (hvað gerðist með Útúrdúr?), Hulli tekur leikna sjónvarpsefnið væntanlega, Tossarnir eru fréttaþáttur ársins og Hvalfjörður fær stuttmyndarverðlaunin. Kem ekki auga á líklegustu heimildamyndina.
En hvað veit ég svosem, hvað finnst þér?
[yop_poll id=“6″]