Forsætisráðherra sýnir töluverð tilþrif í skapandi meðhöndlun sannleikans þegar hann lætur útúr sér að verið sé að auka framlög til kvikmyndagerðar með nýjum fjárlögum, raunar svo mjög að hvítt verður svart og svart verður hvítt.
Í fjárlagafrumvarpinu er nefnilega gerð tillaga um að framlög til Kvikmyndamiðstöðvar Íslands verði 735,3 milljónir króna 2014. Árið 2013 voru framlögin 1.147,2 milljónir króna. Lækkunin nemur vel á fimmta hundrað milljónum króna. Hvernig það getur talist „aukning“ er vandséð.
Ráðherrann talar einnig um að fjárfestingaáætlun fyrrverandi stjórnar hafi verið „kosningaplagg“, en skýrir ekki frekar hvað hann á við. Í skýringum með fjárlagafrumvarpi er einnig talað um að „áætlanir um tekjur sem fjármagna áttu [fjárfestinga]áætlunina, sérstakt veiðigjald á auðlindaarð sjávarútvegsins, söluhagnaður og eignasala, hafa ekki reynst byggðar á nægilega traustum grunni.”
Ekki hefur orðið vart við rökstuðning þessarar fullyrðingar með neinum sannfærandi hætti. Í því sambandi má nefna að framlög til kvikmyndagerðar voru sérstaklega merkt arði og eignasölu í fyrrnefndri fjárfestingaáætlun, en t.d. ekki tekjum af veiðileyfagjaldi. Minnt skal á að sama dag og fjárlög voru lögð fram auglýsti Landsbankinn sérstaklega að hann hefði greitt ríkinu 10 milljarða króna arð – sem er næstum sama upphæð og merkt er ferðaþjónustu, skapandi greinum (þ.á.m. kvikmyndagerð), græna hagkerfinu og fasteignum í títtnefndri fjárfestingaáætlun.
Sigmundur Davíð vísar til þess að verið sé að hækka framlög til Kvikmyndamiðstöðvar samkvæmt samkomulagi frá 2011. Upphæðin nemur rúmum 70 milljónum króna. Á sama tíma er verið að afnema ráðgert framlag úr fjárfestingaáætlun sem nemur 488 milljónum króna – án rökstuðnings.
Það má kannski kalla þetta „skapandi meðhöndlun sannleikans.“ En það væri ekki erfitt að kveða mun fastar að orði.