ESB eykur stuðning við kvikmyndir og aðrar skapandi greinar um 35% frá næsta ári

Ný menningaráætlun Evrópusambandsins, Creative Europe, tekur gildi á næsta ári og nær til 2020. Áætlunin felur í sér stuðning við skapandi greinar sem aldrei fyrr, enda liggur fyrir að þær eru í hvað mestum vexti hvað varðar störf og framleiðni þegar horft er yfir sviðið. ESB áætlar að setja alls 1.8 milljarð evra í áætlunina á tímabilinu og er það aukning uppá 35%.

MEDIA-áætlunin, sem styður við ýmis svið kvikmyndagerðar og Íslendingar hafa notið góðs af gegnum tíðina, mun falla undir þessa heildaráætlun. MEDIA veitir styrki til verkefnaþróunar, dreifingar kvikmynda, margskonar starfsþjálfunar og vinnusmiðja, auk þess að styðja við kvikmyndahús og kvikmyndahátíðir (bæði Bíó Paradís og RIFF njóta styrkja frá MEDIA svo dæmi séu nefnd).

Nýjungar frá næsta ári verða meðal annars sérstakur stuðningur við kvikmyndalæsi, bæði gegnum sérstök átaksverkefni en einnig á vettvangi kvikmyndahátíða; stuðningur við rafræna dreifingu evrópskra kvikmynda (bæði í kvikmyndahúsum og á netinu) og sérstök fjárframlög til stakra tölvuleikja, en áður urðu slík verkefni að tengjast öðrum verkefnum.

Hér má skoða stutt viðtal við Xavier Troussard framkvæmdastjóra MEDIA þar sem hann fer yfir hið nýja prógramm út frá sjónarhóli MEDIA.

Sjá umfjöllun Morgunblaðsins um Creative Europe hér.

Að neðan má svo sjá stutt myndband sem útskýrir prógrammið í stuttu máli.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR