Hvalfjörður, stuttmynd Guðmundar Arnars Guðmundssonar, sem hlaut dómefndarverðlaun á síðustu Cannes-hátíð, hefur rakað til sín verðlaunum á undanförnum mánuðum, nú síðast hlaut myndin þrenn verðlaun á nýafstöðnum alþjóðlegum hátíðum. Auk þess er skemmst að minnast þess að myndin var valin besta íslenska stuttmyndin á RIFF og hlaut einnig verðlaun fyrir besta hljóðið í íslenskri stuttmynd á sömu hátíð.
Myndin hlaut Golden Starfish verðlaunin á Hamptons hátíðinni í Bandaríkjunum og er þar með orðin gjaldgeng fyrir tilnefningu til Óskarsverðlauna fyrir bestu leiknu stuttmyndina árið 2014. Samkeppnin í Hamptons var einstaklega hörð þetta árið en þar kepptu stuttmyndir sem hafa m.a. hlotið aðalverðlaunin á Berlinale kvikmyndahátíðinni og á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum, en báðar eru þær „A“ hátíðir.
Einnig var hún valin besta stuttmyndin á Film Fest Gent hátíðinni í Belgíu en með þeim sigri hlaut hún tilnefningu til Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna 2014.
Síðast en ekki síst var Hvalfjörður valin besta leikna stuttmyndin á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Varsjá í Póllandi sem lauk um helgina. Kvikmyndahátíðin í Varsjá telst til svokallaðra „A“ hátíða.
Í umsögn dómnefndar alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar í Varsjá segir: „Hvalfjörður hlýtur verðlaun fyrir framúrskarandi kvikmyndatjáningu á mannlegum samskiptum, með ákaflega athugulli leikstjórn og eftirtektarverðri frammistöðu leikara.”
Vefur myndarinnar er hér.