„Málmhaus“ vel tekið af gagnrýnendum

Málmhaus-tableauxHér eru brot úr umsögnum Fréttablaðsins, DV og Kvikmyndir.is um Málmhaus Ragnars Bragasonar, en almennar sýningar hefjast á henni í dag. (Umsögn Helgu Þóreyjar Jónsdóttur gagnrýnanda Klapptrés um Málmhaus má finna hér.)

Haukur Viðar Alfreðsson hjá Fréttablaðinu segir m.a.:

„Sjónrænir þættir myndarinnar eru til fyrirmyndar og satt best að segja man ég ekki eftir áferðarfegurri íslenskri kvikmynd síðan Á köldum klaka var gerð fyrir tæpum tveimur áratugum. Þar spilar kvikmyndatakan stærstu rulluna og í flottustu skotunum var stutt í að maður gapti. Ragnar leikstjóri má vera stoltur af þessari.“ Sjá nánar hér: Vísir – Kraftmikið sveitavolæði.

Í dómi DV segir m.a.:

„Heilt yfir er þetta með betri íslenskum myndum sem ég hef séð og hvet ég alla til þess að sjá hana í bíó. Ég spái rokkæði meðal ungra stúlkna á Íslandi. Ég fann allavega hjá mér áður óþekkta löngun til þess að hlusta á þungarokk og læra á bassa eftir að hafa horft á þessa mynd.“ Sjá nánar hér: „Ég spái rokkæði meðal ungra stúlkna á Íslandi“

Í umsögn Andra Freys Ríkharðssonar á Kvikmyndir.is segir m.a.:

„Handritið er fullt af fjölbreyttum persónum, líkt og handritshöfundi einum er lagið. Persónusköpun Ragnars og tengingar á milli persóna eru til fyrirmyndar. Ólíkustu manneskjur tengjast böndum og persónurnar eru ekki einhliða, þær eru marghliða, líkt og við öll. Persónurnar koma manni sífellt á óvart og eiga það til að koma manni í opna skjöldu. Sagan er vel skrifuð og sýnir á trúverðugan hátt hvernig Hera og fjölskylda hennar glíma við sorgina á sinn hátt, hvernig samfélagið bregst við og hvort tíminn lækni sár eður ei.“ Sjá nánar hér.

Margrét Gústavsdóttir á Pjatt.is segir m.a.:

„Mér fannst sérstaklega gaman að karakternum Heru. Það er svo frískandi að sjá óvanalegar kvenpersónur í kvikmyndum. Konur eiga það til að falla í stereótýpísk hlutverk sem eiginkonur, einhleypar konur í leit að ástinni eða mömmur. Hera er ekkert af þessu. Á vissan hátt minnti hún mig á Lisbeth Salander  úr Stig Larson þríleiknum. Sú var reyndar pönkari meðan Hera er þungarokkari en báðar stinga í stúf og þá sérstaklega Hera, máluð sem dauðarokkari innan um pollrólegar beljurnar í sveitinni. Svolítið einmanalegt. Eða eins og ég hef stundum orðað þetta fyrirbæri – „Eini gotharinn í Grenivík“.“ Sjá nánar hér.

 

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR