Kvikmyndasafnið sýnir í Bæjarbíói fjögurra heimildamynda syrpu um samskipti Sovétríkjanna og Íslands, tvær frá sjötta áratugnum og tvær frá þeim sjöunda. Sýningar eru kl. 20 á þriðjudag og kl. 16 á laugardag.
Íslensk sendinefnd menntamanna í SSSR, lýsir ferðalagi sendinefndar MÍR til Sovétríkjanna árið 1954. Hún geymir verðmæta mynd af þjóðþekkum Íslendingum sem ekki eru fyrirferðarmiklir í heimildarmyndasafni okkar Íslendinga. Þetta eru þeir Ragnar Ólafsson hrl, formaður nefndarinnar, Kristín Ólafsson, Björn Jóhannesson jarðvegsfræðingur, Björn Sigurðsson læknir og prófessor, forstöðumaður Tilraunastofu HÍ í meinafræðum, Guðmundur Kjartansson jarðfræðingur, Guðni Jónsson prófessor, Snorri Hjartarson skáld og Þorbjörn Sigurgeirsson eðlisfræðingur. Þeir heimsækja ýmsa staði og eiga samtöl við sovéska starfsbræður. Kvikmyndasafnið hefur látið þýða þulartexta myndarinnar.
Ferðalag á Íslandi (1955), verður einnig íslenskuð en hún er mikilvæg heimildarmynd um íslenskt efni frá miðjum sjötta áratugnum enda oft til hennar vitnað í íslenskum heimildarmyndum. Hún hefst á flugferð frá Moskvu til Íslands en er síðan lýsing á landi og þjóð í eftirminnilegum atriðum: Sjö ára strákur að keyra traktor í sveit, uppskipun salts á Akureyri, síldveiðar og síldarsöltun, löndun á varningi frá Sovétríkjunum í Reykjavíkurhöfn, svipmynd af Halldóri Laxness við ritstörf að Gljúfrasteini. Í lokaatriði myndarinnar syngur Alfreð Clausen um íslenskt sumarkvöld í Reykjavík.
Kynni af Íslandi (1967). Myndina gerði Júríj Salnikov, vinur Magnúsar Jónssonar, kvikmyndagerðarmanns (1938-79), sem aðstoðaði þennan kvikmyndaskólabróður sinn í Moskvu við töku myndarinnar og sést í myndinni. Myndin er verðmætt innlegg í lifandi heimildir sjöunda áratugarins. Hún er án þulartexta og dregur upp mynd af Reykjavík og Akureyri og ferðalagi um landið með viðkomu í sjávarplássi. Við sjáum Ósvald Knudsen við kvikmyndaklippingar í vinnustofu sinni og Ásmund Sveinsson í sínum ranni, fegurðarsamkeppni og sitthvað fleira.
Heimsókn alþingismanna til Moskvu árið 1969. Í sendinefndinni að þessu sinni eru: Birgir Finnson, forseti sameinaðs þings og þingmennirnir Ingvar Gíslason, Eysteinn Jónsson, Sveinn Guðmundsson, Guðlaugur Gíslason og Gils Guðmundsson. Íslenskur þulartexti er lesinn inn á myndina. Byrjað er í Moskvu en síðan haldið út á land suður á bóginn og endað í Leníngrad áður en farið er tilbaka til Moskvu til fundar við ýmsa áhrifamenn í viðskiptalífi og stjórnmálum. Í lokaatriðinu er heimsóknin sögð vera farin í þágu friðar og vináttu á milli Íslands og Ráðstjórnarríkjanna.