Gagnrýni | Noah

Fyrsti ofsatrúarmaðurinn?
Fyrsti ofsatrúarmaðurinn?
[column col=“1/2″][message_box title=“Noah“ color=“gray“] [usr 4] Leikstjóri: Darren Aronofsky
Handrit: Darren Aronofsky og Ari Handel
Aðalhlutverk:  Russell Crowe, Jennifer Connelly, Emma Watson, Anthony Hopkins, Ray Winstone, Logan Lerman og Douglas Booth
Lengd: 138 mín.
Bandaríkin, 2014
[/message_box][/column]Sagan af Nóa er líklega ein grímulausasta afhjúpun þess að Guð gamla testamenntisins var fyrst og fremst hrifinn af lífinu sem hugmynd, ekki í praxís. Adam og Eva voru fín á meðan þau létu eins og hugur hans – eftir að þau byrjuðu að haga sér eins og lífverur missti hann áhugann. Leit við stöku sinnum til að reyna að rétta kúrsinn en gafst svo upp og ýtti bara á refresh. Sem í tölvulausri veröld gamla testamenntisins þýddi syndaflóð yfir jörðina alla og öll hennar kvikindi, að undanskildu einu pari af hverri tegund sem átti að fjölga sér.

Þessi gamla biblíusaga er uppleggið sem Darren Aronofsky leggur upp með í Nóa. En sagan um Nóa er ekki nema tæplega þrjúþúsund orð og því alveg ljóst að það þarf ýmsu að bæta við ef ætlunin er að gera bíómynd í fullri lengd um arkarsmiðinn. Sumt er hálf kjánalegt – sérstaklega upprifjunin á sköpunarsögunni, sem er ágæt þangað til Adam, Eva og snákurinn birtast í afskaplega ósannfærandi mynd sem einhvers konar karakterslausir ljósálfar. Eins er ákveðin skömm að því að allir frummennirnir skuli vera svona hvítir á hörund. Þá voru óneitanlega vonbrigði að leikstjórinn skyldi ekki skrifa risaeðlurnar inní Biblíusögurnar en á móti kom að risarnir – sem fá bara eina setningu í fyrstu Mósebók – verða að ansi skemmtilegum steintröllum í útgáfu Aronofsky.

En heilt yfir nær Aronofsky að skapa hér ágætlega sannfærandi forneskju. Snemma í myndinni birtist hreistraður forneskjuhundur og í kringum hans örlög komumst við að því að Nói og fjölskylda hans eru líklega grænmetisætur. Þeim er annt um allt líf en hræðast ekkert meira en meðbræður sína – að því er virðist út af því virðing þeirra fyrir lífinu virðist takmarkaðri. Um leið eru ákveðin skil á milli fjölskyldunnar og mannkynsins – óttinn þegar óvinir nálgast birtist ekki í nafni einhvers ættbálks, heldur aðeins í þessu eina orði: „menn.“ Sem Nói hvíslar um þessa mestu bölvalda náttúrunnar.

Þessir menn eru allir ennþá í ansi nálægu talsambandi við almættið. Líka skúrkarnir, því allir tala þeir um Hann án þess að þar séu neinir Nietzcheskir fyrirvarar á því að Hann kunni að vera dauður, hvað þá að Hann gæti mögulega ekki verið til. En þeim finnst þó mörgum að Hann hafi yfirgefið sig. Þá minnir sagan um margt á Ragnarök norrænna manna – með hugmyndinni um nýja jörð frekar en himnaríki eftir heimsendi – en einhvern veginn áttaði ég mig ekki á því fyrr en ég sá söguna af Nóa staka. Vegna þess í Biblíunni sjálfri er syndaflóðið strax í byrjun – næsta saga á eftir sköpunarsögunni og paradísarmissinum – heimsendir yfir heimi sem var nýbúið að skapa. Heimi sem er svo hrjóstrugur að hann mætti vissulega alveg við vatni og jafnvel skóg. Ísland leikur í myndinni í raun hinn bersynduga heim, heiminn sem mannkynið var rekið úr á meðan það þráir enn paradís, sem Nóa og fjölskyldu hlotnast um skeið í einu kraftaverki myndarinnar – þegar vatnið tekur að renna og skógur rís. Enda eru þau hjón í raun Adam og Eva endurholdguð – tilraun almættisins til þess að byrja upp á nýtt.

Stríð á milli heima

En spólum aðeins fram í tímann – úr fornaldarbókmenntum Miðausturlanda í nítjándu aldar bókmenntir Evrópu. Árið 1897 skrifaði H.G. Wells drög að heimsendi sem hann nefndi War of the Worlds – Innrásina frá Mars. En megininntak sögunnar var þó ósköp fallegt – og hefur verið ákveðið leiðarstef bjartsýnni vísindaskáldskapshöfunda síðan – að allir menn séu bræður þegar hætta steðjar að.

Rúmri öld seinna kvikmyndaði Steven Spielberg svo söguna. Nú hefur Spielberg lengstum verið frekar húmanískur leikstjóri – væminn myndu einhverjir jafnvel segja. Myndir á borð við E.T. og Close Encounters of the Third Kind eru ekki bara löðrandi í bræðralagi manna á millum heldur sömuleiðis bræðralagi við íbúa annarra heima. Einmitt þess vegna var saga um stríð milli tveggja heima nokkuð óvenjulegt viðfangsefni fyrir leikstjórann. En það sem kom kannski meira á óvart – mjög óþægilega á óvart – var að líklega hefur sýn Spielberg á manneskjuna aldrei verið myrkari heldur en í þessari annars auðgleymdu poppkornsmynd. Mest hrollvekjandi senurnar eru nefnilega ekki þegar þrífætlingarnir ráðast á mennina – heldur þegar fjölskylda hetjunnar (Tom Cruise) gerir allt til þess að loka aðrar manneskjur úti. Það er ekki pláss fyrir alla í öryggi bílsins, það er ekki pláss fyrir alla á björgunarbátnum. Öfgakennd áhersla Bush-áranna á fjölskyldugildi og einstaklingshyggju höfðu breytt Hollywood-fjölskyldunni í kaldlynda eiginhagsmunaseggi sem aðeins björguðu sér og sínum.

Og það er ekki pláss fyrir alla á þessari örk hans Nóa. Nói neitar sambræðrum sínum um pláss á örkinni, hún er aðeins fyrir dýrin og fjölskyldu Nóa. Það skiptir auðvitað máli að leiðtogi ættbálksins sem sækist eftir örkinni myrti föður hans – en það breytir því ekki að Tubal-Kaín þessi er ansi sympatískur skúrkur. Ræðan hans snýst um að Guð hafi yfirgefið þá og því þurfi hver og einn aðeins að bjarga sér sjálfur. Röksemdir hans eru einfaldlega röksemdir þeirra sem líða skort. Og þegar þyrmir yfir Nóa þegar hann verður vitni að illsku mannana sá ég bara illsku sem var sprottin af skorti. Of miklu hungri, of sárri og of harðri lífsbaráttu. Þetta var örvænting frekar en illska – og þá örvæntingu skilur Nói ekki til fulls fyrr en allt þetta fólk er löngu drukknað.

Nói bin Laden

[quote align=“right“ color=“#999999″]En þegar vatnið fer að flæða og örkin fer að sigla þá áttar maður sig fyrst almennilega á því hver þessi Nói er. Hann er í raun fyrsti ofsatrúarmaðurinn – orð Guðs (eða nánar tiltekið hans túlkun á orðum Guðs, almættið virðist aldrei tala beint til hans í myndinni heldur aðeins með táknum sem honum ber að túlka) skipta hann þegar á líður meira máli en velferð sambræðra hans, meira máli en réttlætið sem honum er tíðrætt um.[/quote] En þegar vatnið fer að flæða og örkin fer að sigla þá áttar maður sig fyrst almennilega á því hver þessi Nói er. Hann er í raun fyrsti ofsatrúarmaðurinn – orð Guðs (eða nánar tiltekið hans túlkun á orðum Guðs, almættið virðist aldrei tala beint til hans í myndinni heldur aðeins með táknum sem honum ber að túlka) skipta hann þegar á líður meira máli en velferð sambræðra hans, meira máli en réttlætið sem honum er tíðrætt um. Þetta vitrast manni best í lok myndarinnar þar sem hann liggur einn í tötrum sínum í hellisskúta. Þetta er Osama bin í hellinum – einn og yfirgefinn, yfirgefinn af Guði sem og mönnum.

Skúrkurinn Tubal-cain er líka Osama á sinn hátt. Hinn raunverulegi Osama fannst að vísu ekki í helli heldur í höll en það breytir því ekki að hinn táknræni Osama stendur fyrir Innrás barbaranna – og þessi mynd er full af barbörum. Hinum fyrstu mönnum. „Núna ert þú orðinn að manni,“ hvíslar skúrkurinn að Kam, syni Nóa, þegar Kam drepur hann. Kam hafði áður þráð að eignast kærustu – með það takmark að verða að manni – en skúrkurinn trúir honum fyrir því að mennskan felist í morðinu, erfðasyndinni. Syndinni sem felst þó í gæskunni – strákurinn hafði bjargað skúrkinum um borð – og þarna er hann að bjarga föður sínum frá skúrkinum.

En Kam er þarna staddur í þversögninni miðri. Þar sem hann snýr hnífnum í sárinu og bjargar lífi um leið og hann tekur líf. Enda snýst myndin á endanum um þversagnir. Sú stærsta er þessi: mennska okkar snýst um fjölskyldu og samkennd allra manna. En um leið virðast einmitt mennirnir vera að leggja jörðina í eyði. Nói tekur hugmyndina um mannlausa jörð alla leið – ætlar jafnvel um tíma að myrða eigið barnabarn til þess að bjarga dýrum merkurinnar frá tortímingarkrafti manneskjunnar. Hann telur sig þurfa að velja á milli mennskunnar og lífsins. Náttúruboðskapurinn og manngæskan virðast ósamrýmanlegar hugmyndir.

Í sögunni um Nóa birtist hinn blóðþyrsti Guð gamla testamenntisins afskaplega skýrt fyrir sjónum okkar. Þetta er afhjúpandi mynd, um þann Guð má sannarlega segja að hafi skapað blóðþyrsta menn í sinni eigin mynd.

Þessir blóðþyrstu menn voru barbarískir í illsku sinni – frekar Osama en Obama eða Bush. Bush og Obama eru ekki orðnir til ennþá, þeir hafa aldrei þurft að búa í hellum og lifa við skort. En þeir eru skilgetin afkvæmi þeirra, Bushar og Obamar heimsins urðu til þegar barbarar heimsins höfðu skapað olíu og dróna og þjóðríki og Guð var búinn að tvístra mannkyninu eftir tungumálum og trúarbrögðum.

Nú, árþúsundum síðar, hefur almættið vissulega staðið að mestu við loforð sitt um að láta ekki flæða yfir jörðina aftur. En mannskepnan virðist staðráðin í því að stela glæpnum af Guði í þetta skiptið og bræða jökla heimsins án hans aðstoðar. Þannig verður hin nýja illska manneskjunnar guðlegri og guðlegri og þar með hættulegri og hættulegri. Líklega var ofsögum sagt að við höfum verið sköpuð í hans mynd – en við höfum þróast sífellt nær þessari guðsmynd.

Þessu er meira að segja spáð í lok sögunnar af Nóa í fyrstu Mósebók: „Ótti við yður og skelfing skal vera yfir öllum dýrum jarðarinnar, yfir öllum fuglum loftsins, yfir öllu, sem hrærist á jörðinni, og yfir öllum fiskum sjávarins. Á yðar vald er þetta gefið.“

Ástæður Guðs fyrir flóðinu eru líka afskaplega fátæklegar – hvort sem leitað er í bókina gömlu eða myndina nýju. Þetta eru ódýrar af-því-bara ástæður með loðnum frösum um illsku sem fá dæmi eru um ennþá. En þessar loðnu réttlætingar höfum við fyrir löngu lært af honum og lokum nú barbarana úti hvar sem við getum. Á meðan Ástralir snúa bátafólkinu í burtu út á miðju ballarhafi rísa fleiri og fleiri múrar í landinu helga og landamæri Bandaríkjanna og Mexíkó verða sífellt víggirtari. Við höldum öll áfram að byggja okkar arkir á meðan við búum til framtíðarflóð. Í þessu má að sjálfsögðu sjá tækifæri. Þar vitna ég ekki bara í hæstvirtan veruleikafirrtan forsætisráðherra heldur líka í þekkt stef í vísindaskáldskap þar sem neyðin kennir nöktum konum að spinna, oftast á síðustu stundu.

En konurnar eru vissulega ekki í stóru hlutverki í sögunni af Nóa – en hlutverk þeirra er þó töluvert stærra í myndinni en í Biblíunni. Feðraveldið virðist ætla að verða ansi bókstaflegt þegar Nói lofar að drepa barnabarn sitt ef það verður stúlka – en það eru þó á endanum stúlkubörn sem bjarga manneskjunni frá því að deyja út. Lausn myndarinnar er hið kvenlega – og kona Nóa og tengdadóttir reynast miklu meiri hetjur en hann sjálfur.

Reikningsskil trúarinnar

Að lokum er nú kannski rétt að minnast á fílinn í herberginu. Er þetta mynd eftir trúvilling eins og ýmsar gagnrýnisraddir í Biblíubeltinu herma eða er þetta jafnvel kristilegur áróður frelsaðs Hollywood-leikstjóra? Það er sjálfsagt hægt að finna eitthvað viðtal á internetinu þar sem Aranofsky segir frá trúarskoðunum sínum – eða skorti á þeim – en ég ætla ekki að eyðileggja myndina með því að gúgla það.

Það sem skiptir meira máli er að besta og versta mynd hans fyrir Nóa eru löðrandi í trúarstefum (og slíkt má örugglega finna í hinum þremur þótt það sé dýpra á þeim). Frumraun hans, Pi, fjallar um guðdómleikann sem felst í stærðfræðinni, og hin meingallaða The Fountain fjallar um Tré lífsins og alls kyns trúarskírskotanir því tengdar.

Í sinni nýjustu mynd setur hann svo Nóa í spor Abrahams, þar sem hann er með hnífinn á lofti yfir afkomendum sínum. En það var einmitt sú Biblíusaga sem gerði mig sjálfan endanlega að heiðingja – en það er alltof langur útúrdúr fyrir þessa rýni.

En á meðan mér fannst svörin sem Aronofsky veitti í The Fountain full ódýr þá þorir hann hérna að horfast í augu við allar þær þversagnir sem þessi stutta saga er full af. Mögulega er Aronofsky heittrúaður, það væri þá bara en ein þversögnin að hann geri biblíu-bíómynd jafn fulla af efasemdum um almættið. Hann er ekkert að djóka – og það er það besta við myndina, hér er varla milligramm af kaldhæðni. En hann lítur heldur aldrei undan – og það krefst sannarlega hugrekkis. Hvort sem það er hugrekki trúaðs manns sem vill skoða trú sína á hreinskiptinn hátt eða hugrekki trúlauss manns sem vill rannsaka syndaflóðið sem þá merkilegu táknssögu sem það er.

Ásgeir H. Ingólfsson
Ásgeir H. Ingólfsson
Ásgeir H. Ingólfsson er blaðamaður og gagnrýnandi.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR