Staðreyndir og tölur

Kvikmynda- og sjónvarpsbransinn í stuttu máli:

Innviðir:

  • Ársverk: Fjöldi ársverka í kvikmyndabransanum eru samkvæmt samantekt Hagstofunnar fyrir SÍK 2020, alls 1,806. Með afleiddum störfum er heildarfjöldi ársverka 3,431. Í þessu mengi eru öll framleiðslufyrirtæki og sjálfstætt starfandi ásamt sjónvarpsstöðvunum.
  • Velta: Kvikmynda- og sjónvarpsbransinn er grein í afar örum vexti. Hér má skoða veltutölur greinarinnar 2012-2021.
  • Fyrirtæki í kvikmynda- og dagskrárgerð: Kvikmyndafyrirtæki á Íslandi skipta tugum en flest þeirra eru einyrkjafyrirtæki eða með mjög fáa starfsmenn og stækka og minnka eftir þörfum. Stærstu framleiðslufyrirtækin miðað við veltu eru True North, Sagafilm, Pegasus og RVK Studios. Lista með aðgengisupplýsingum um flest starfandi fyrirtæki má finna hér.
  • Kvikmyndamiðstöð Íslands: Styrkir framleiðslu íslenskra kvikmynda, vinnur að kynningu og dreifingu þeirra, eflir kvikmyndamenningu á Íslandi og stuðlar að auknum samskiptum við erlenda aðila. Kvikmyndasjóður KMÍ veitir styrki til handritsgerðar, þróunar verkefna og framleiðslu. Sjóðurinn skiptist í þrjá flokka: leiknar kvikmyndir í fullri lengd, stutt- og heimildamyndir og leikið sjónvarpsefni. Styrkir eru veittir framleiðendum sem hafa kvikmyndagerð að aðalstarfi.
  • Hagsmunafélög kvikmyndagerðarmannaFélag kvikmyndagerðarmanna er elsta starfandi hagsmunafélag kvikmyndagerðarmanna á Íslandi, stofnað árið 1966. Markmið félagsins er að gæta hagsmuna kvikmyndagerðarmanna og stuðla að eflingu greinarinnar. Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda – SÍK er samband íslenskra félaga og fyrirtækja, sem framleiða allar tegundir kvikmynda. Tilgangur félagsins er að efla íslenska kvikmyndagerð, gæta hagsmuna og réttar kvikmyndaframleiðenda auk þess að stuðla að dreifingu íslenskra kvikmynda. Samtök kvikmyndaleikstjóra gæta hagsmuna þeirra leikstjóra sem starfa við kvikmyndir og sjónvarp á Íslandi. Félag leikskálda og handritshöfunda var stofnað 1974 upp úr eldra félagi leikskálda og hét upphaflega Félag íslenskra leikritahöfunda.
  • Heimili kvikmyndanna: Sjálfseignarstofnunin Heimili kvikmyndanna var stofnsett af hagsmunafélögum kvikmyndagerðarinnar 2010. Stofnunin rekur kvikmyndahúsið Bíó Paradís sem sýnir nýjar áhugaverðar kvikmyndir frá öllum heimshornum auk hverskyns eldri mynda erlendra sem innlendra, hýsir kvikmyndahátíðir og stendur fyrir fjölbreyttum kvikmyndatengdum viðburðum. Reglulegar sýningar á perlum kvikmyndanna fyrir börn og unglinga fara fram í húsinu, þar sem markmiðið er að efla þekkingu og menntun á þessari mikilvægu listgrein. 2020 setti Bíó Paradís á fót eigin efnisveitu, Heimabíó Paradís.
  • Kvikmyndasafn Íslands: Stofnun í eigu ríkisins og sinnir kvikmyndamenningu eingöngu. Safnar, skráir og varðveitir kvikmyndir og prentefni er tengist kvikmyndum með einum eða öðrum hætti; stundar rannsóknir á kvikmyndum og kvikmyndamenningu og miðlar jafnframt þekkingu um þennan menningararf. 2020 opnaði safnið vefinn Ísland á filmu þar sem sjá má hluta af safnkostinum.
  • Íslenska kvikmynda- og sjónvarpsakademían: ÍKSA er sameiginlegur vettvangur hagsmunafélaga kvikmyndagerðarmanna í landinu til að stuðla að eflingu íslenska kvikmynda- og sjónvarpsgeirans. Í þessu skyni stendur akademían m.a. fyrir veitingu Eddunnar, íslensku kvikmynda- og sjónvarpsverðlaunanna, ár hvert.
  • Creative Europe á Íslandi: Kvikmyndir og margmiðlun, undiráætlun Creative Europe, styður evrópska kvikmyndagerð og margmiðlun með styrkjum til þróunar, dreifingar og kynningar á kvikmyndum og tölvuleikjum. Áætlunin styður verkefni með evrópska og alþjóðlega skírskotun og notkun á nýrri tækni. Þá styður áætlunin leiknar kvikmyndir og sjónvarpsmyndir, heimildamyndir, teiknimyndir og tölvuleiki til að finna nýja markaði innan Evrópu og utan.  Þá geta námskeið sem efla færni og faglega þjálfun fyrir fagfólk í kvikmyndagerð og margmiðlun fengið stuðning frá áætluninni.
  • FRÍSKFélag rétthafa í sjónvarps- og kvikmyndaiðnaði er hagsmunagæsluaðili rétthafa myndefnis á Íslandi og hefur ýmis hagsmunamál á sínum snærum. Eigendur félagsins hafa rétt til dreifingar á yfirgnæfandi hluta þess kvikmynda- og sjónvarpsefnis og tölvuleikja sem finna má á íslenskum markaði.
  • WIFT á ÍslandiÍslandsdeild alþjóðlegu WIFT-samtakanna (Women in Film and Television), en markmið þeirra er að stuðla að fjölbreytni í myndrænum miðlum með því að virkja konur, gera þær sýnilegri og styðja þátttöku þeirra í framleiðslu kvikmynda og sjónvarpsefnis.
  • Kvikmyndaskóli Íslands: Alþjóðlegur listaskóli sem býður upp á markvissar námsleiðir fyrir þá sem vilja starfa í kvikmynda- og sjónvarpsiðnaðinum.

  • Kvikmyndalistadeild Listaháskóla Íslands: Nám í kvikmyndagerð á háskólastigi (BA), hófst í Listaháskóla Íslands haustið 2022. Að loknu þriggja ára námi útskrifast nemendur með bakkalárgráðu í kvikmyndagerð
  • RÚV: Ríkisrekinn fjölmiðill sem sem heldur úti sjónvarpsstöð með sama nafni auk útvarpsstöðvanna Rás 1 og Rás 2, ásamt vefmiðlinum ruv.is.

  • SýnFjölmiðlasamsteypa sem sendir út sjónvarpsstöðvar á borð við Stöð 2 og fleiri.
  • Sjónvarp SímansÞjónustuveita sem dreifir innlendu og erlendu sjónvarpsefni í ýmiskonar formi.

Framleiðsla og fjármögnun:

  • Bíómyndir: Síðastliðin tíu ár hafa verið gerðar á Íslandi um 7-8 bíómyndir á ári að meðaltali. Þetta er þó breytilegt eftir árum; getur spannað allt frá 2 uppí 10 myndir á ári. Lista yfir bíómyndirnar skipt eftir árum má finna hér.
  • Heimilda- og stuttmyndir: Tugir heimildamynda og stuttmynda eru gerðar á hverju ári. Lista yfir flestar heimildamyndir skipt eftir árum má finna hér. Lista yfir flestar stuttmyndir skipt eftir árum má finna hér.
  • Leikið sjónvarpsefni: Mikil aukning hefur orðið í framleiðslu leikins sjónvarpsefnis frá miðjum fyrsta áratug aldarinnar. Lista yfir leikið sjónvarpsefni skipt eftir árum má finna hér.
  • Erlend verkefni: Undanfarinn áratug hefur verið nokkuð hraður vöxtur í komum stórra sem smærri erlendra kvikmyndaverkefna til landsins og hafa þau veitt fjölmörgu fagfólki á sviði kvikmyndagerðar störf, auk þess að vera mikil innspýting í nærsamfélög.
  • Auglýsingar og kynningarmyndir: Gerð sjónvarpsauglýsinga fyrir heimamarkað og einnig kynningarmynda hverskonar er stór hluti af starfsemi greinarinnar. Þá koma fjölmargir framleiðendur erlendra auglýsinga til landsins á hverju ári og njóta þjónustu og vinnukrafts frá íslenskum fyrirtækjum á sviði kvikmyndagerðar. Einnig má nefna að töluverður hópur íslenskra kvikmyndagerðarmanna starfar í alþjóðlegum auglýsingaheimi.
  • Kvikmyndasjóður KMÍ: Kvikmyndasjóður Kvikmyndamiðstöðvar Íslands er helsti fjármögnunaraðili íslenskrar kvikmyndagerðar. Styrkir úr Kvikmyndasjóði ná aðeins að fjármagna verkefni að hluta og framlög frá Kvikmyndamiðstöð ásamt 25% endurgreiðslum frá atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti mega samtals ekki fara yfir 85% af áætluðum heildarkostnaði. Það sem upp á vantar þarf framleiðandi að afla annars staðar. Þó ber að hafa í huga að í Rauðu skýrslunni svonefndu kemur fram að opinbert fjármagn hafi að meðaltali á árunum 2006-2009 numið 22% af heildarframleiðslukostnaði. Tekjur Kvikmyndamiðstöðvar eru árlegt framlag í fjárlögum.
  • Endurgreiðsla: Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið veitir þeim kvikmyndaverkefnum sem uppfylla skilyrði 25% endurgreiðslu á þeim kostnaði sem til fellur innanlands. Hér má sjá ítarlega umfjöllun Klapptrés um hvernig endurgreiðslan virkar. Frá 2022 geta stærri verkefni sem uppfylla tiltekin skilyrði fengið 35% endurgreiðslu.
  • Sjónvarpsstöðvarnar: Sjónvarpsstöðvarnar stunda bæði eigin dagskrárgerð og kaupa verk af sjálfstæðum framleiðendum. Samkvæmt þjónustusamningi 2020-2023 er RÚV uppálagt að verja 12% af innheimtu útvarpsgjaldi í kaup á efni frá sjálfstæðum framleiðendum. Er þar átt við leikið sjónvarpsefni, bíómyndir, heimildamyndir og annað sjónvarpsefni, auk talsetningar og útvarpsefnis. Hinar stöðvarnar hafa ekki slíkar skyldur en verja eigi að síður töluverðu fé í kaup á dagskrárefni frá innlendum framleiðendum.
  • Almennt um fjármögnun: Í Rauðu skýrslunni svonefndu, sem SÍK lét vinna 2009, má sjá hvernig fjármögnun íslenskra kvikmyndaverkefna á árunum 2006-2009 skiptist í grófum dráttum.
Bækur og skýrslur um greinina og aðrar skapandi greinar
  • Umsvif sjónvarps- og kvikmyndaiðnaðar á Íslandi (skýrsla unnin af Capacent fyrir FRÍSK 2016 þar sem fram koma m.a. heildarveltutölur, sundurgreindar veltutölur, samanburður veltu við aðrar starfsgreinar, fjöldi ársverka, afkoma greinarinnar og skattekjur hins opinbera af greininni. Auk þess sem birt er könnun þar sem Íslendingar eru spurðir um neysluhegðun sína sem og viðhorf gagnvart stuðningi við kvikmyndagerð í ýmsu formi).
  • Hverjir fjármagna íslensk kvikmyndaverk? (Rauða skýrslan svonefnda frá 2010 í heild sinni).
  • Hagræn áhrif kvikmyndalistar (bók eftir Ágúst Einarsson frá 2011 um greinina frá hagrænum hliðum).
  • Skapandi greinar – sýn til framtíðar (skýrsla unnin á vegum Mennta- og menningarmálaráðuneytisins 2012, þar sem gerð er úttekt á stöðu skapandi greina og lagðar fram tillögur um bætt starfsumhverfi. Ritstjóri: Ása Richardsdóttir).
  • Kortlagning á hagrænum áhrifum skapandi greina (skýrsla unnin 2011 af Dr. Margréti Sigrúnu Sigurðardóttir og Tómasi Young á vegum Samráðsvettvangs skapandi greina og fjölmargra ráðuneyta. Fram kemur m.a. að skapandi greinar hér á landi veltu 189 milljörðum árið 2009. Hlutur hins opinbera er um 12,5% af heildarveltu greinanna. Ársverk sama ár voru 9371. Útflutningstekjur skapandi greina voru um 24 milljarðar árið 2009 eða um 3% af heildarútflutningstekjum þjóðarinnar).
  • Menningarvog – könnun á menningarneyslu Íslendinga. (Skýrsla gerð 2010 af Félagsvísindastofnun HÍ. Upplýsingar sem tengjast kvikmyndum og sjónvarpi sérstaklega eru á bls. 9-11 og 38-42 en skýrslan er fróðleg í heild sinni).

Dreifing, sýning, aðsókn:

  • Bíómyndamarkaðurinn: Íslenskur kvikmyndamarkaður er einn sá stærsti í heimi – miðað við höfðatölu. Hann er þó að dragast saman, frá um fimm heimsóknum á mann að meðaltali um langt skeið niður í um 3,5 heimsóknir 2019. Tilkoma efnisveita á undanförnum árum hefur breytt mjög aðgengi almennings að nýjum og eldri kvikmyndum (sem og þáttaröðum). Miklar og hraðar breytingar eiga sér nú stað í dreifingu og neyslu kvikmynda og sjónvarpsefnis.
  • Kvikmyndahúsin: Alls starfa 17 kvikmyndahús í landinu og þar er að finna alls 39 sali. Þrír stærstu aðilarnir á þeim markaði eru Sambíóin (Egilshöll, Álfabakki, Kringlan, Nýja bíó Akureyri og Sambíóin Keflavík); Max dreifing (Smárabíó, Borgarbíó Akureyri) og Myndform (Laugarásbíó). Heimili kvikmyndanna rekur Bíó Paradís.
  • Markaðshlutdeild innlendra mynda: Undanfarin ár hefur markaðshlutdeild íslenskra kvikmynda verið í kringum 10% sem er mun lægra en á hinum Norðurlöndunum. Í því sambandi þarf þó að hafa í huga að íslenskur kvikmyndamarkaður er um það bil helmingi stærri hlutfallslega í samanburði við hin Norðurlöndin, auk þess sem fjöldi íslenskra kvikmynda er um þriðjungur á við heimamyndir á hinum Norðurlöndunum. Markaðshlutdeild bandarískra mynda hér var lengi um 85-90% en þessar tölur geta þó verið mjög breytilegar eftir árum.
  • Meðalaðsókn á innlendar myndir: Burtséð frá markaðshlutdeild er meðalaðsókn á íslenskar kvikmyndir síðasta áratuginn eða svo frekar há eða í kringum 15.500 manns á mynd. Það eru tæp 5% þjóðarinnar. Aftur er það mun hærra hlutfall en þekkist víðast annarsstaðar. Aðsókn á einstakar myndir er allt frá fáein hundruð uppí 85.000 manns sem komu á Mýrina 2006 (aðsóknarhæsta myndin síðan formlegar mælingar hófust 1995). Reglulega uppfærðan lista FRÍSK yfir heildaraðsókn og -tekjur íslenskra bíómynda frá 1995 (ásamt aðsókn og tekjum á opnunarhelgi) má sjá hér.
  • Streymi: Innlendar streymisveitur hafa haslað sér völl á undanförnum árum, en þessi hluti dreifingar á myndefni er í mikilli gerjun þessi árin. Sumar byggja á áskriftarmódeli, aðrar á greiðslu fyrir hvert verk. Sumar eru blanda af báðu. Síminn rekur Sjónvarp Símans Premium og Síminn Bíó. Vodafone rekur meðal annars Stöð 2 Plús og Stöð 2 bíó. Þessar veitur eru hluti af heildarþjónustu viðkomandi fyrirtækja. RÚV rekur efnisveitu á vef sínum. Bíó Paradís rekur Heimabíó Paradís. Kvikmyndasafn Íslands rekur Ísland á filmu þar sem sjá má hluta af safnkostinum. Erlendar streymisveitur fáanlegar á Íslandi eru MUBI, Netflix, Disney+, HBO Max (frá 2024) og Viaplay ásamt Amazon Prime og Google Play. Von er á fleirum.
  • Íslenskar kvikmyndir erlendis: Íslenskar kvikmyndir (bíómyndir, heimildamyndir og stuttmyndir) taka reglulega þátt í helstu kvikmyndahátíðum á borð við Cannes, Berlín, Toronto, Karlovy Vary, Sundance, San Sebastian og Busan auk Gautaborgar og mörgum öðrum smærri hátíðum. Þær vinna til fjölda verðlauna á þessum hátíðum ár hvert. Sumar þeirra eru sýndar í kvikmyndahúsum í Evrópu, Bandaríkjunum og víðar, auk þess sem þær eru seldar til sjónvarpsstöðva og efnisveita víða um heim. Einnig er farið að bera á endurgerðum íslenskra kvikmynda á alþjóðlegum vettvangi. Á síðustu árum hefur leikið sjónvarpsefni einnig selst víða um heim og endurgerðir hafa verið unnar erlendis. Talið er að milli 10-20% ferðamanna sem koma til landsins hafi valið Ísland sem áfangastað eftir að hafa séð íslenskt kvikmyndaefni.
  • Innlendar kvikmyndahátíðir: RIFF (Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík) hófst 2004 og er haldin árlega í byrjun hausts. Hátíðin sýnir þverskurð af alþjóðlegum kvikmyndum með sérstaka áherslu á fyrstu og aðra mynd leikstjóra. Íslenskum myndum bregður gjarnan fyrir á hátíðinni sem einnig leggur mikla áherslu á samskipti og tengslamyndun. Íslenskum stuttmyndum er gert hátt undir höfði. Kvikmyndahátíðinni Stockfish var hleypt af stokkunum 2014 og fer fram í febrúar. Markmið hátíðarinnar er að efla íslenska kvikmyndamenningu á breiðum grundvelli með því að sýna það nýjasta úr kvikmyndagerð heimsins auk þess að leggja sérstaka áherslu á tengslamyndun íslenskra og erlendra kvikmyndagerðarmanna. Skjaldborg, hátíð íslenskra heimildamynda, er haldin á Patreksfirði um hvítasunnuhelgina ár hvert. Þar er sýnt úrval nýrra heimildamynda ásamt myndum heiðursgests hátíðarinnar. Þetta er stemmningshátíð og stundum kölluð „Aldrei fór ég suður“ kvikmyndabransans. Þá stendur Bíó Paradís fyrir ýmsum hátíðum og þematengdum viðburðum ár hvert, þar á meðal hinni árlegu Frönsku kvikmyndahátíð í samvinnu við Alliance Francaise og einnig Þýskum kvikmyndadögum í samvinnu við Goethe Institute.