Sambíóin sýna myndir David Lynch

Sambíóin munu í marsmánuði heiðra minningu David Lynch, sem lést á dögunum. Sýndar verða fjórar af helstu myndum hans, The Elephant Man, Wild at Heart, Blue Velvet og Mulholland Drive, í Sambíóunum Kringlunni.

Alfreð Ásberg Árnason, einn forsvarsmanna Sambíóanna, segir á Facebook síðu sinni:

Til heiðurs David Lynch, þessum mikla kvikmyndalistamanni, bjóðum við í Sambíóunum Kringlunni í mars til sýninga á fjórum af mögnuðustu meistaraverkum Lynch sem hafa haft mikil áhrif á kvikmyndasöguna – kvöld full af dularfullum, dáleiðandi og ógleymanlegum kvikmyndaupplifunum. Við hittumst fjóra mánudaga í röð, grípum poppkornið og hverfum inn í óútreiknanlega heima Lynchs með öðrum kvikmyndaáhugamönnum. Eftir sýningar gefst tækifæri til að ræða um það sem við upplifðum. Þetta verður kvikmyndaveisla sem þú munt seint gleyma!

Sýningardagskrá er sem hér segir – og áfram er það Alfreð sem á orðið:

10. mars – The Elephant Man
Hjartnæm og átakanleg saga um John Merrick, sem mun snerta þig djúpt. Með Anthony Hopkins og John Hurt í aðalhlutverkum er þetta kvikmynd sem lætur engan ósnortinn.

17. mars – Wild at Heart
Ást, hætta og trylltur hasar! Nicolas Cage og Laura Dern fara á kostum í þessari rafmögnuðu ferð þar sem ofbeldi og ástríða takast á. Og já – Íslendingurinn Sigurjón Sighvatsson var framleiðandi myndarinnar!

24. mars – Blue Velvet
Ertu tilbúinn að kafa undir yfirborðið og uppgötva myrkustu leyndarmál Ameríku? Kyle MacLachlan og Isabella Rossellini leiða okkur inn í dáleiðandi og óhugnanlegan heim sem situr lengi í minni.

31. mars – Mulholland Drive
Draumkennd ráðgáta sem enginn getur skýrt til fulls – og það er einmitt málið! Naomi Watts fer með ótrúlegt hlutverk í kvikmynd sem skilur eftir fleiri spurningar en svör. Ertu tilbúinn að upplifa snilldina?

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR