The Damned segir frá ungri ekkju, Evu, sem vinnur í afskekktri verbúð á 19. öld á Vestfjörðum. Þegar erlent seglskip strandar í firðinum þarf hún að taka erfiða ákvörðun.
Rætt var við Þórð í Mannlega þættinum á Rás 1 í fyrrihluta janúar í tilefni frumsýningar myndarinnar í bandarískum kvikmyndahúsum. Segir á vef RÚV:
„Þetta er íslensk mynd því ég er íslenskur og þetta er mjög íslensk saga,“ segir Þórður í samtali við Guðrúnu Gunnarsdóttur og Gunnar Hansson í Mannlega þættinum á Rás 1. „En hún er fjármögnuð frá Englandi, Írlandi og Belgíu en líka í gegnum 35% endurgreiðslukerfið á Íslandi. Þannig að hún er meðframleidd á Íslandi og öðrum löndum og var því seld úti fyrst. Núna er hún komin í dreifingu í Bandaríkjunum.“
Yfir opnunarhelgina var The Damned söluhæsta nýja kvikmyndin og hlaut góða dóma gagnrýnenda. „Það gengur bara rosa vel.“
Ákveður að bjarga ekki drukknandi fólki
Myndin er það sem kalla má sálfræðitrylli og er innblásin af vetrardvöl Þórðar á Ísafirði eitt árið. „Ég var að skrifa aðra sögu og síðan festist ég þarna í einhverja þrjá mánuði. Það var rosalega harður vetur, ég náði ekki bílnum út úr innkeyrslunni og fleira,“ lýsir hann.
„Ég byrja að skrifa nýja mynd. Hún er komin frá gömlum þjóðsögum, svo eru baskavígin smá inni í þessu líka og þjóðsögur um hvernig upprunalegu draugarnir voru í gamla daga; svona rotnandi lík að koma á eftir þér frekar en einhverjir draugar sem fara í gegnum veggi.“
Sagan segir frá hópi fólks sem vinnur í verbúð á Vestfjörðum og festist yfir veturinn. „Það er ekkert vesen, gerist oft, en þau eru bara hreinlega ekki með nægan mat fyrir alla sem vinna þarna. Þau eru í kringum átta og eru bara að reyna að komast í gegnum veturinn,“ segir Þórður.
Einn morguninn sjá þau að skip hefur sokkið við strendur þeirra og standa frammi fyrir þeirri erfiðu staðreynd að ef þau fara og bjarga fólkinu sem er að drukkna yrðu þau öll föst saman yfir veturinn og myndu þar af leiðandi svelta og deyja.
„Söguhetjan okkar ákveður, konan sem á þessa verbúð og ræður yfir þessum mönnum, að bjarga þessu fólki ekki og leyfa þeim að drukkna,“ segir Þórður. Skrítnir hlutir byrja að gerast eftir þessa ákvörðun.
Þórður segir mjög áhugavert að rýna í gömlu þjóðsögurnar og setja sig í hugarástand þessa fólks sem trúði einlægt á drauga og aðrar verur. Margar hverjar af þessum sögum séu mjög hryllilegar og veki óhug.
„Þannig að það er mjög áhugavert að skrifa kvikmynd þar sem þú ert með karaktera sem trúa á þessar verur. Og síðan hugsanlega eru þessar verur til,“ segir hann. „Maður er að spila með mjög skemmtilega horror-hluti. Það var mjög gaman að gera þetta.“
Myndin sjálf er með ensku tali og nær þar af leiðandi betri dreifingu um heiminn. „Það er einmitt ástæðan fyrir því að hún var frumsýnd fyrst í Bandaríkjunum.“

Aldrei snjór þegar það vantar snjó
Myndin ber þess sýnilega merki að hún er tekin upp á Íslandi og þá sérstaklega fyrir vestan. Þar sé gamalt safn sem tökuliðið hafi fengið leyfi fyrir að skjóta í kringum en síðan hafi þau byggt aðalhúsið sem og allt innra byrði gamallar netaverksmiðju í myndveri til að taka upp allar innanhússenurnar.
„Þarna lentum við náttúrlega í því, eins og alltaf á Íslandi, að við þurftum að hafa mikinn snjó til að skjóta myndina og auðvitað misstum við snjóinn þannig að við þurftum að hlaupa inn og byrja að skjóta í þessu períódu-setti sem við byggðum.“
„Það er æðislegt að skjóta fyrir vestan og æðislegt fólk og allir bara til í að hjálpa okkur að gera þessa mynd. Það er líka bara rosalega gaman að gera horror-mynd,“ segir Þórður. Það sé nefnilega ekki skelfilegt að búa til hryllilega mynd þó koma þurfi áhorfanda fram á ystu sætisbrún.
„Ef við hefðum verið að skjóta stundum rétt áður en við fórum í tökur, þá værum við með grínmynd,“ segir hann. „Þegar þú ert að gera hádramatíska mynd eru oft allir að grínast á undan og svo kannski öfugt, ef þú ert að gera kómedíu þá er fólk einhvern veginn að reyna að ballansera þessar tilfinningar.“
Myndina sjálfa mætti flokka sem sálfræðitrylli og byggir að mestu á persónusköpun og hvernig Evu líður með ákvörðunina sem hún tók. „Við erum rosalega mikið að vinna með afleiðingar þess og spyrja okkur hvað er raunverulegt og hvað er eftirsjá og samviskubit?“

Enginn með stjörnustæla og allir unnu vel saman
Það er hin unga og upprennandi leikkona Odessa Young sem fer með hlutverk Evu í The Damned sem hefur fengið mikið lof fyrir sinn leik.
„Ég er bara rosalega heppinn með alla leikarana. Hún er að springa út í Ameríku núna, er að leika í nýju Bruce Springsteen myndinni, leikur kærustuna hans,“ nefnir Þórður sem dæmi. „Það sem gerði mig svo spenntan að vinna með henni er að hún getur leikið allt. Hún er að leika í grínmyndum, spennumyndum, mjög flottum biopic-um.“
Með henni sé einvalalið leikara og má þar nefna Joe Cole sem er þekktur fyrir leik sinn í Peaky Blinders, Rory McCann úr Game of Thrones og Siobhan Finneran sem fór með stórleik í Downton Abbey.
„Þannig við erum með rosa flotta leikara og það er mikilvægt þegar maður er að velja leikara að finna einhverja sem þú trúir í þessum heimi,“ segir Þórður. Öll hafi þau verið mjög trúverðug í sínum hlutverkum sem hópur fólks að vinna saman í fiski á nítjándu öld. Ekkert þeirra sé með hið dæmigerða Hollywood-stjörnu yfirbragð. „Það er ekki búið að laga andlitið á þeim og gera allt. Þetta er bara allt rosalega flottir, góðir leikarar sem urðu frábært teymi.“
Þórður segir þau öll hafa myndað sterka liðsheild ólíkt því sem stundum vilji gerast þegar stórleikarar komi saman að verkefni. „Þú færð erlenda leikara og ert að gera mynd og þessi vill bara vera í þessu horni og þessi verður í hinu horninu. Þarna voru engir aðstoðarmenn, engir trailerar. Það voru bara þessir leikarar sem eru mjög góðu vanir, bara að vinna með fólkinu á setti og allir að borða saman,“ segir hann. Þau hafi öll verið til í hinar íslensku aðstæður.
„Það hjálpar náttúrlega myndinni svo mikið og það endurspeglast á skjánum. Rosa margir sem hafa séð myndina segjast trúa því að þetta fólk sé búið að vinna saman í mörg ár. Það er náttúrlega bara af því að þau unnu í því að kynnast.“
The Damned verður frumsýnd á Íslandi 30. janúar en verið er að sýna hana áfram víðar um heim. „Flestir horfa til Ameríku, þannig að ef eitthvað gengur vel í Ameríku þá vilja aðrir kaupa og sýna. Þannig að það skipti gríðarlega miklu máli að henni gengi vel þar.“
Þórður getur gengið sáttur frá borði með sína fyrstu kvikmynd í fullri lengd miðað við fyrstu viðtökur. Hann segist alltaf vera að skrifa og vinna í öðrum verkefnum sem hann vonist til að fá fjármagn fyrir.