SVO Á JÖRÐU SEM Á HIMNI í Bíótekinu, leikstjóraspjall eftir sýningu

Kvikmynd Kristínar Jóhannesdóttur, Svo á jörðu sem á himni, verður sýnd í nýrri og endurklipptri útgáfu leikstjórans í Bíótekinu í Bíó Paradís þann 24. nóvember. Vera Sölvadóttir ræðir við leikstjórann eftir sýningu.

Dagskrá Bíóteksins sunnudaginn 24. nóvember er sem hér segir:

14:30
Svo á jörðu sem á himni (1992)
Glæný stafræn endurgerð kvkmyndarinnar Svo á jörðu sem á himni, sem mætti kalla leikstjóraklippta útgáfu hennar. Kvikmyndin fléttar saman sögu ungrar stúlku og fjölskyldu hennar í afskekktri íslenskri sveit á fjórða áratug 20. aldar og hliðstæðu hennar á 14. öld á sama stað. Þar strandaði franska rannsóknarskipið Pourquoi-pas? árið 1936 og er þessi atburður sýndur frá sjónarhorni stúlkunnar. Leikstjóri er Kristín Jóhannesdóttir sem skrifaði jafnframt handritið í samvinnu við Sigurð Pálsson skáld. Myndir Kristínar hafa verið sýndar víða og unnið til verðlauna á fjölmörgum hátíðum svo sem í Cannes, Mannheim, Toronto, Marseille, Créteil, Brügge og víðar. Vera Sölvadóttir ræðir við Kristínu Jóhannesdóttur eftir sýninguna og áhorfendur fá tækifæri til að leggja orð í belg.

17:15
Picnic at Hanging Rock (1975)
Dularfullt hvarf nokkurra skólastúlkna við undarlegar aðstæður hefur óþægilegar afleiðingar í för með sér. Með myndinni kom Peter Weir hinni merkilegu áströlsku nýbylgju á kortið í kvikmyndaheiminum og skapaði umtal þar sem sögufléttan fór fyrir brjóstið á mörgum. Í myndinni er rómantískum handanheimsblæ blandað meistaralega saman við hrylling og fegurð og einstök áferð myndarinnar leiðir í ljós að Weir var einn mest skapandi leikstjóri sinnar kynslóðar.

19:30 – Hinsegin bíó
Victim (1961)
Bresk spennumynd í stíl „noir“ myndanna í leikstjórn Basil Dearden. Myndin segir frá virtum lögfræðingi sem er í góðu hjónabandi með konu en einnig kirfilega fastur í skápnum svokallaða. Hann ákveður að taka upp hanskann fyrir samkynhneigða karlmenn og skera upp herör gegn ítrekuðum fjárkúgunum og ofbeldi sem beint er gegn samkynhneigðum karlmönnum í skjóli laga gegn samkynhneigð. Slík lög voru í fullu gildi í Bretlandi og víðar þegar kvikmyndin kom út og var kvikmyndagerðarfólkinu í mun að gagnrýna þátttöku ríkisvalds í ofbeldi gegn fólki í viðkvæmri stöðu. Kvikmyndin er sú fyrsta í Bretlandi til að gagnrýna þetta ómannúðlega fyrirkomulag og hlaut þegar hún kom út mikið lof fyrir áræðni og þor og telst í dag til klassískra kvikmynda breskrar kvikmyndasögu.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR