Samkvæmt heimildum Klapptrés skoðaði fjárlaganefnd þær hugmyndir sem fram komu í áskorun til þingmanna, sem vel á áttunda hundrað manns úr kvikmyndagreininni skrifuðu undir. Áskorunin var send þingmönnum síðastliðinn mánudag.
Niðurstaðan varð að lokum sú að fara ekki þá leið sem lögð var til í áskoruninni og gekk út á að færa hluta heimilda úr endurgreiðslunni yfir í Kvikmyndasjóð sem einskonar neyðarráðstöfun. Í stað þess fór fjárlaganefnd í að finna fjármagn annarsstaðar og þetta varð útkoman. Samkvæmt heimildum Klapptrés munu fulltrúar ýmissa flokka í nefndinni hafa náð samstöðu um þetta.
Samkvæmt tillögu fjárlaganefndar verða framlög í Kvikmyndasjóð kr. 1.323,1 milljónir króna árið 2025 í stað 1.023,1 milljóna króna eins og lagt var til í framlögðu fjárlagafrumvarpi 2025.
Áætluð framlög til endurgreiðslunnar á næsta ári verða ekki skert og er gert ráð fyrir að þær nemi rúmum sex milljörðum króna.
Atkvæðagreiðsla um fjárlög 2025 verður á Alþingi í fyrri hluta vikunnar.
Áhersla á gerð samkomulags
Ljóst er að eitt það brýnasta sem bíður kvikmyndagreinarinnar – og fagfélögin hafa lagt mikla áherslu á – er að semja við menningarmálaráðherra nýrrar ríkisstjórnar um gerð samkomulags til næstu ára um framlög til kvikmyndagerðar. Slíkt samkomulag hefur verið gert alls fjórum sinnum frá 1999. Þetta var ekki gert þegar Kvikmyndastefnan kom út haustið 2020. Útkoman var einkennileg, verulega hækkuð framlög fyrsta árið, smá lækkun annað árið, en síðan stórfelldur niðurskurður næstu tvö ár sem til stóð að halda áfram á næsta ári, en hefur nú verið afstýrt.
Viðræður um frekari uppbyggingu
Undanfarnar vikur hafa staðið yfir viðræður milli fagfélaga kvikmyndagerðarinnar og Lilju Alfreðsdóttur menningarráðherra um leiðir til að bæta erfiða stöðu kvikmyndagreinarinnar. Samkvæmt heimildum Klapptrés er þar um að ræða ýmis mál sem lúta að endurgreiðslunni og miða að því að það kerfi þjóni betur íslenskri kvikmyndagerð.
Það stærsta í því er að 35% endurgreiðslan verði aðgengileg öllum verkefnum (ekki lengur 350 milljón króna gólf) og að sérstök hærri endurgreiðsla, 40%, verði fyrir barna- og fjölskyldumyndir til að hvetja til aukinnar framleiðslu á slíku efni.
Þá hefur einnig verið rætt að ekki þurfi lengur að draga framlag Kvikmyndasjóðs frá endurgreiðslustofni (slíkar reglur eru þegar til í ýmsum Evrópulöndum) en það mun hjálpa verulega til varðandi frekari fjármögnun þeirra verkefna sem fengið hafa styrk frá Kvikmyndasjóði. Einnig er rætt um að framleiðendur geti fengið helming endurgreiðslu þegar verk er hálfnað til að draga úr fjármögnunarkostnaði og að stuttmyndum verði einnig heimilt að sækja um endurgreiðslu.
Gera þarf lagabreytingar vegna flestra þessara þátta og því ljóst að þeir verða ekki afgreiddir á yfirstandandi þingi, enda stutt í þinglok og kosningar.
Þá heyrist einnig rætt um að menningarframlag streymisveita (streymisframlag) komi til á næsta ári, en frumvarp þess efnis hefur ekki enn verið lagt fram á Alþingi. Ráðuneytið hefur áður boðað að menningarframlagið komist til framkvæmda 2026.
Lagabreyting á kvikmyndalögum varðandi framleiðslustyrk til lokafjármögnunar var samþykkt á Alþingi í vor. Rætt hefur verið um þetta sem sjónvarpssjóð og er þessum lið meðal annars ætlað að styðja við framleiðslu leikinna þáttaraða. Ekki hefur verið gert ráð fyrir fjármögnun þessa liðar, en SÍK hefur lagt á það áherslu.
Beðið eftir útspili menningarráðherra
Klapptré hlerar að von sé á einhverskonar útspili frá Lilju Alfreðsdóttur menningarráðherra á næstu dögum varðandi málefni kvikmyndagreinarinnar og mun hennar vera beðið með nokkurri eftirvæntingu af fólki í íslenskri kvikmyndagerð.